Saga Íslands

saga byggðar og menningar á Íslandi
Saga Íslands

Eftir tímabilum

Miðaldir á Íslandi
Nýöld á Íslandi
Nútíminn á Íslandi

Eftir umfjöllunarefni

Saga Íslands er saga byggðar og menningar á Íslandi, sem er stutt miðað við sögu landa á meginlandi Evrópu. Landnám hófst seint á 9. öld eftir Krist og byggðist landið fljótt, einkum frá Noregi (en einnig Bretlandseyjum). Landið tilheyrði engu ríki þar til Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd með undirritun Gamla sáttmála árið 1262/64. Noregur og Ísland urðu svo hluti af Danaveldi 1380. Samhliða þjóðernisvakningu víða um Evrópu ágerðist þjóðhyggja og sjálfstæðisbarátta Íslendinga eftir því sem leið á 19. öldina og lauk með því að Ísland hlaut fullveldi 1. desember 1918. Danski konungurinn hélt þó áfram að vera konungur Íslands þar til Lýðveldið Ísland var stofnað 17. júní 1944 og varð þá að fullu sjálfstætt.

Sögu langra tímabila má greina niður í styttri tímabil eftir víðtækum stjórnarfarslegum, tæknilegum og félagslegum breytingum sem má afmarka með nokkuð skýrum hætti. En því fer þó fjarri að hægt sé að ákvarða endanlega hvaða atriði skipti mestu máli í sögu Íslands þannig að allir séu sammála.[1] Þannig hefur ein athugun á 11 námsbókum í Íslandssögu á grunnskólastigi leitt í ljós að aðeins 12% nafngreindra einstaklinga eru konur á sama tíma og 93% höfundanna eru karlar. Sem dæmi sé gjarnan fjallað um landnámsmanninn Ingólf Arnarsson, sem fyrstur byggði Ísland, og Hallveigar konu hans sé lítið getið.[2]

Landmyndun

breyta
 
Áætluð flekaskil jarðarinnar samkvæmt flekakenningunni

Ísland er á skilum Norður-Ameríku- og Evrasíuflekanna, á svokölluðum heitum reit og er þar því mikil jarðvirkni. Flekarnir tveir stefna hvor í sína áttina með nokkurra millímetra hraða á ári. Elstu hlutar Íslands urðu til fyrir um 20 milljónum árum síðan. Til samanburðar má nefna að talið er að Færeyjar hafi orðið til fyrir um 55 milljónum árum, Asóreyjar um 7 milljónum árum og Hawaii eyjar innan við milljón árum síðan.[3][4]

Yngstu berglög Íslands á suðvesturhorni og á miðhálendinu eru ekki nema um 700 þúsund ára gömul. Jarðsagan skiptist niður í ísaldir eftir hitastigi og veðurfari. Síðasta jökulskeið er talið hafa hafist fyrir um 70 þúsund árum og lokið fyrir um 10 þúsund árum síðan. Á meðan því stóð huldi stór ísjökull landið og mótuðu skriðjöklar firði og dali landsins.[5]

Landafundir

breyta
 
Hin dularfulla eyja Thule á korti eftir Olaus Magnus

Áður en Ísland var byggt á 10. og 11. öld er talið mögulegt að þar hafi menn haft dvalarstað um stundarstakir. Sagt er að maður að nafni Pýþeas frá Massailíu (Marseille í Frakklandi) hafi ferðast norður um höf á 4. öld f.Kr. og fundið eða haft afspurnir af eyju sem hann nefndi Thule eða Ultima Thule, hafa menn leitt líkum að því að hér gæti hann verið að tala um Ísland en lítið er hægt að fjölyrða frekar um það.

Þess er getið í Íslendingabók Ara fróða að írskir munkar, svonefndir papar, hafi numið hér land á ofanverðri 8. öld. Um þetta leyti ritaði keltneskur munkur, Dicuil að nafni, um ferðir munka á norðlægum slóðum og ætla menn að hann hafi meðal annars verið að tala um Ísland. Þessu til stuðnings hefur verið bent á að til eru nokkur örnefni með vísanir í papa, til dæmis Papey en á móti kemur að engar fornleifar hafa fundist sem staðfesta með óumdeilanlegum hætti veru papa hér á landi.[6]

Norðmaðurinn Naddoður er sagður hafa komið til Íslands og sagði hann frá landi sem hann nefndi Snæland þegar hann sneri aftur heim. Svíinn Garðar Svavarson og Náttfari, frjálsir menn, eiga einnig að hafa komið til landsins samkvæmt Landnámu. Garðar sneri aftur heim en Náttfari varð eftir ásamt ambátt einni og þræl og urðu því fyrstu eiginlegu landnámsmenn Íslands.[7]

Hrafna-Flóki Vilgerðarson er einnig talinn hafa heimsótt landið. Hann mun hafa eytt tveimur árum á Íslandi og hafa haft með sér kvikfé sem drapst vegna þess að honum yfirsást að heyja fyrir veturinn. Gaf hann landinu nafnið Ísland.[8]

Landnám

breyta

Landið numið

breyta
 
Málverk af Ingólfi Arnarsyni eftir Johan Peter Raadsig frá 1850

Saga Íslands hefst samkvæmt hefðbundinni söguskoðun með landnámi Ingólfs Arnarsonar um 870 því þá hefst jafnframt skipulagt landnám Íslands. Ingólfur kaus sér búsetu í Reykjavík og er talið að skálarúst sem fannst við Aðalstræti nálægt aldamótunum 2000 geti hafa verið híbýli hans. Hann nam land frá ósum Ölfusár til ósa Brynjudalsár og „öll nes út“. Hann er jafnan talinn fyrsti landnámsmaðurinn og miðað við ártalið 874, því þá er hann talinn hafa byggt bæ sinn. Fornleifarannsóknir á síðustu árum benda þó til þess að mannabyggð hafi verið hér töluvert fyrr.[9][10][11]

Fyrstu landnámsmennirnir helguðu sér lönd, sumir mjög stór. Þegar öll lönd höfðu verið helguð hélt fólk áfram að setjast að og nema lönd, þá með leyfi þeirra sem höfðu áður helgað sér þau, stundum gegn greiðslu. Í Landnámabók, sem er helsta heimildin um landnám Íslands en var ekki skrifuð fyrr en meira en tveimur öldum eftir að því lauk, eru taldir upp rúmlega 400 landnámsmenn.

Uppruni landnámsmanna

breyta

Lengst af hefur verið talið að langflestir landnámsmanna hafi komið frá Noregi, nokkrir frá Danmörku og Svíþjóð og fáeinir frá Bretlandseyjum og þá yfirleitt afkomendur norrænna manna sem þar höfðu búið í 1–2 kynslóðir, auk þess sem einhverjir landnámsmanna hefðu kvænst og einnig hefðu þeir tekið með sér eitthvað af þrælum frá Bretlandseyjum. Nýlegar erfðafræðirannsóknir benda til þess að líklega hafa um 80% karla sem hingað komu verið af norrænum uppruna en aðeins um helmingur kvenna. Þetta þýðir að Íslendingar eru að meira en þriðjungi breskir að uppruna.[12] Þessa sést hins vegar lítinn stað í íslenskri tungu og menningu.

Ástæður þess að landnámsmenn fluttust hingað eru einkum taldar tvær. Í fyrsta lagi voru landþrengsli í Noregi, sem raunar hefur einnig verið talin ein helsta ástæða víkingaferðanna, og ónumið land í vestri þar sem hægt var að helga sér stór landsvæði hefur þá freistað margra. Auk þess mun ríkismyndun Haraldar hárfagra í Noregi hafa haft áhrif, margir höfðingjar sættu sig ekki við að vera undir veldi hans.

Þjóðveldið

breyta

Stundum er talað um þjóðveldistímann, frá stofnun Alþingis 930 fram til þess er Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd 1262, sem gullöld Íslendinga, þótt Sturlungaöldin sé raunar oft undanskilin. Víst er að miðbik þessa tímabils, eftir lok sögualdar og fram á síðari hluta 12. aldar, var tiltölulega friðsælt og hagsælt tímabil í Íslandssögunni, árferði virðist hafa verið tiltölulega gott og engar sögur fara af meiriháttar innanlandsátökum, öfugt við það sem segja má um hin Norðurlöndin; í Noregi geisaði til að mynda nær stöðug borgarastyrjöld megnið af 12. öld. Á 13. öld snerist þetta hins vegar við.

Söguöld

breyta
 
Fyrsta blaðsíðan af handriti Hrafnkels sögu Freysgoða

Flestar Íslendingasögurnar segja frá atvikum sem eiga að hafa gerst á tímabilinu frá því á síðari hluta landnámsaldar og fram til 1030 eða þar um bil. Þetta var mikill umbrotatími, landið var fullnumið og farið að þrengjast um sumstaðar en stjórnskipulag og réttarkerfi ekki fullmótað og mönnum gekk misjafnlega að beygja sig undir það. Íslendingar voru líka mikið í ferðum til útlanda, sigldu til Noregs á konungsfund eða til að versla og fóru í víkingaferðir til Bretlandseyja og tóku þar þátt í bardögum og ránsferðum. Margar Íslendingasagna gerast að hluta til erlendis.

Sögurnar eru flestar skráðar 200-300 árum eða meira eftir að atburðir sem þær segja frá gerðust og geta því ekki talist örugg heimild. Sumt er líka stutt af öðrum heimildum, svo sem fornleifarannsóknum. Sögurnar gefa líka mikilvægar upplýsingar um hugmyndir 13. aldar Íslendinga um mannlíf og landshætti á fyrstu öldum Íslandssögunnar.

Goðar og goðorð

breyta

Á landnámsöld urðu til stjórnareiningar sem nefndust goðorð og áttu sér ekki eiginleg landfræðileg mörk. Um var að ræða eins konar bandalag bænda við goðana, en hverjum bónda var skylt að fylgja einhverjum goða sem þeim var frjálst að velja sjálfir. Fylgismenn goðans voru kallaðir þingmenn hans. Goðinn var fulltrúi bændanna á héraðsþinginu og gætti hagsmuna þeira. Goðorðin voru 36 við stofnun Alþingis en var síðar fjölgað um þrjú og voru goðar eftir það 39.

Stofnun Alþingis

breyta

Landnámsmenn gerðu sér fljótt grein fyrir því að einhvers skipulags væri þörf, ekki síst til að leysa úr deilumálum sem upp komu þegar landsmönnum fjölgaði og þrengdist um svigrúm. Þeir voru líka vanir þinghaldi úr heimalöndum sínum. Því komu staðbundin þing fljótlega til sögunnar og eru Kjalarnesþing í landnámi Ingólfs og Þórsnesþing á Snæfellsnesi talin elst, enda byggðust svæðin í kringum þau mjög snemma.[13]

Brátt sáu menn þó að heppilegast væri að hafa eitt þing fyrir allt landið og árið 930 var Alþingi stofnað sem löggjafarsamkunda og æðsti dómstóll Íslendinga.[14] Er það talið elsta starfandi þing í heiminum í dag, þótt hlé hafi orðið á þinghaldi á 19. öld.

 
Málverk af Alþingi við Þingvelli

Alþingi var valinn staður á Þingvöllum við Öxará. Þingvellir lágu vel við samgöngum úr öllum landshlutum ein einnig kann það að hafa ráðið nokkru um staðarvalið að Þingvellir voru í landnámi Ingólfs; sumir telja að Alþingi sé stofnað út frá Kjalarnesþingi. Sá sem fór með goðorð Ingólfs kallaðist allsherjargoði og hafði það hlutverk að helga þingið eða setja það og slíta því.

Skipulag þingsins

breyta
 
Landsfjórðungar Íslands á landakorti frá 1761

Æðsta stofnun þingsins var lögrétta, sem setti ný lög, fjallaði um mál og nefndi menn í fimmtardóm, sem var eins konar yfirréttur, eftir að honum var komið á um 1005, en einnig störfuðu á þinginu fjórir fjórðungsdómar, einn fyrir hvern landsfjórðung. Í henni sátu 48 goðar (eða goðorðsmenn) á miðpalli og hafði hver þeirra tvo ráðgjafa, annar sat fyrir framan hann og hinn fyrir aftan, þannig að í raun sátu 146 menn í lögréttu.

Lögsögumaður var æðsti og eini launaði embættismaður þingsins og var hann kosinn af lögréttu þriðja hvert ár. Lögin voru ekki til skrifuð, enda var ritöld ekki hafin, en fyrir stofnun alþingis höfðu Íslendingar sent mann sem Úlfljótur hét til Noregs til að kynna sér lög þar og sagði hann manna fyrstur upp lög á Þingvöllum. Þau voru sniðin eftir Gulaþingslögum í Noregi, enda munu flestir landnámsmenn hafa komið af því svæði. Þekkt eru nöfn allra lögsögumanna frá upphafi og þar til embættið var lagt niður 1271.

Árið 965 var ákveðið að skipta landinu í fjórðunga. Þrjú héraðsþing eða vorþing voru í hverjum fjórðungi nema Norðlendingafjórðungi, þar sem þau voru fjögur, að sögn Ara fróða vegna þess að Norðlendingar gátu ekki komið sér saman um annað en raunar var Norðlendingafjórðungur fjölmennasti fjórðungurinn. Vorþingin voru haldin í maí ár hvert. Þegar goðar komu heim frá alþingi héldu þeir svo leiðarþing en þar voru eingöngu gefnar skýrslur um það sem gerst hafði á þinginu.

Kristnitaka

breyta

Flestir landsnámsmanna voru ásatrúar en nokkrir kristnir og höfðu þeir flestir kynnst kristinni trú og látið skírast á Bretlandseyjum. Fæstir virðast þó hafa viðhaldið trú sinni lengi hér og enginn landnámsmanna reisti kirkju en ásatrúarmenn reistu víða hof og blótuðu þar. Samkvæmt heimildum var það Þorvarður Spak-Böðvarsson sem byggði fyrstu kirkjuna í Neðri-Ási í Hjaltadal um 984. Um svipað leyti sendi Haraldur blátönn saxneskan biskup, Friðrek að nafni, til Íslands til kristniboðs og var Skagfirðingurinn Þorvaldur víðförli með honum í för.

Fleiri kristniboðar komu hingað á næstu árum og varð þeim nokkuð ágengt. Þekktastur þeirra var Þangbrandur. Honum tókst að kristna austfirska höfðingjann Síðu-Hall og aðra í kjölfarið, þar á meðal Gissur hvíta og Hjalta Skeggjason. Ólafur Tryggvason Noregskonungur var mjög áhugasamur um að kristna Ísland – með góðu eða illu.

Á Alþingi sumarið 1000 (þó líklega fremur árið 999 samkvæmt rannsóknum dr. Ólafíu Einarsdóttur) voru flokkar bæði kristinna manna undir forystu þeirra Gissurar og Hjalta og heiðinna fjölmennir og stefndi í vopnaviðskipti. Þó tókst að afstýra blóðsúthellingum og ákváðu Íslendingar að taka kristni að ráðum Þorgeirs ljósvetningagoða. Þessu voru þó að sögn settar þær undantekningar að Íslendingar máttu enn þá blóta leynilega, bera út börn og eta hrossakjöt, en hafi slíkar undantekningar verið gerðar í raun hurfu þær fljótt úr sögunni.

Biskupsstólar og klaustur

breyta

Næstu árin voru hér ýmsir förubiskupar en árið 1056 var Ísleifur Gissurarson vígður biskup Íslands og Skálholtsstóll stofnaður. Árið 1096 eða 1097 fékk sonur hans, Gissur Ísleifsson, sem tók við af föður sínum, komið því fram að tíund var tekin upp en það var skattur á eignir Íslendinga sem skiptist í fernt. Fjórðung fengu prestar, fjórðung fengu kirkjur til viðhalds, fjórðungur rann til biskups og síðasti fjórðungurinn fór til þurftarmanna. Þar sem kirkjur voru yfirleitt á höfuðbólunum sem höfðingjar áttu og þeir voru margir vígðir menn og voru sjálfir prestar þýddi þetta að þeir fengu í raun helminginn af tíundinni. Stuðlaði það að auðsöfnun þeirra en átti eftir að valda miklum deilum síðar (Sjá Staðamálin).

Norðurland var fjölmennasti landsfjórðungurinn og þótti Norðlendingum þeir afskiptir með biskup og vildu líka halda eftir innan fjórðungsins tekjum sem runnu til Skálholts. Árið 1106 var orðið við óskum þeirra og annar biskupsstóll stofnaður á Hólum í Hjaltadal. Fyrsti Hólabiskup var Jón Ögmundsson. Hann stofnaði þegar skóla á Hólum og efldi menntun en skóli var einnig í Skálholti, svo og í klaustrum og víðar, svo sem í Haukadal og Odda á Rangárvöllum.

Fyrsta klaustrið var stofnað á Þingeyrum í Húnaþingi 1133 og var það munkaklaustur af Benediktsreglu eins og Munkaþverárklaustur (1155) og Hítardalsklaustur (1155), en það síðastnefnda var skammlíft. Klaustrin voru auk biskupsstólanna helstu menntasetur landsins og í sumum þeirra voru góð bókasöfn. Þar voru skrifaðar upp bækur og þegar leið á þjóðveldisöld fór þar fram umfangsmikil sagnaritun. Margar helstu gersemar íslenskra handrita eru skrifaðar í klaustrum.

Lög þjóðveldisins

breyta

Með aukinni menntun hófst ritöld á Íslandi. Samkvæmt því sem Ari fróði segir rituðu Hafliði Másson og aðrir lögbókina Hafliðaskrá (sem innihélt m.a. Vígslóða) á heimili Hafliða á Breiðabólstað í Vesturhópi veturinn 1117–18 og er það fyrsta fyrsta þekkta ritið á íslensku. Stuttu seinna var Íslendingabók Ara fróða rituð.

Lagasafn þjóðveldisaldar kallaðist seinna Grágás en þar er ekki um eiginlega lögbók að ræða. Refsingar skiptust í þrjá flokka. Þessar refsingar kölluðust útlegð, fjörbaugsgarður og skóggangur. Þeir sem dæmdir voru sekir skógarmenn voru í raun útskúfaðir úr þjóðfélaginu og réttdræpir hvar sem til þeirra náðist. Kirkjan hafði einnig yfir refsingum að ráða og gátu biskupar meðal annars bannfært menn.[15]

Sturlungaöld

breyta

Þegar leið á 12. öld fór stöðugleiki og grunnur íslenska samfélagsins, sem byggðist á jafnvægi milli höfðingja, að raskast. Goðorð erfðust og gengu kaupum og sölum og völdin söfnuðust á færri hendur en áður. Þessi þróun hófst í Skagafirði og Árnesþingi og er hugsanlegt að stofnun biskupsstóla í þessum héröðum hafi haft einhver áhrif á það. Segja má að Ísland hafi smátt og smátt orðið samsafn laustengdra borgríkja, þó án skýrra landfræðilegra marka.

Bændur og búalið neyddust til að beygja sig undir vald stórbænda, sem seildust eftir æ meiri völdum. Um leið lenti höfðingjum æ oftar saman og átökin urðu víðtækari. Í erjum og orrustum sögualdar höfðu bardagamenn hverju sinni yfirleitt ekki verið nema nokkrir tugir (fræðimaðurinn Jón Ólafsson frá Grunnavík lýsti á 18. öld efni Íslendingasagna í þremur orðum: „Bændur flugust á“) en á Sturlungaöld voru háðar stórorrustur á íslenskan mælikvarða, þar sem hundruð eða jafnvel þúsundir manna börðust. Ýmiss konar bandalög urðu til og griðrof og svik urðu algeng.

Aðdragandi

breyta

Sturlungaöld er kennd við Sturlu og afkomendur hans, Sturlunga, sem framan af áttu heimkynni á Vesturlandi, en aðrar helstu ættir Sturlungaaldar voru Haukdælir í Árnesþingi, Oddaverjar í Rangárþingi, Svínfellingar á Austurlandi og Ásbirningar í Skagafirði, auk þess sem Vatnsfirðingar og Seldælir á Vestfjörðum eru oft nefndir til.[16]

Hin eiginlega Sturlungaöld er raunar ekki talin hefjast fyrr en um 1220 en ræturnar liggja þó lengra aftur og segja má að fyrsta vísbendingin um rósturnar sem í vændum voru megi sjá í deilum Hvamm-Sturlu Þórðarsonar við Pál Sölvason um 1180. Sturla var höfðingi á uppleið sem ætlaði sér stóra hluti og lét ekki hlut sinn fyrir neinum. Hann þótti sýna mikla óbilgirni í deilum sínum við Pál en þeim lauk með því að Jón Loftsson í Odda, leiðtogi Oddaverja og mikill sáttasemjari, úrskurðaði í málum þeirra og bauðst um leið til að fóstra Snorra, yngsta son Sturlu.

Á næstu áratugum var nokkuð um erjur og deilur og eru þekktust átök þeirra Guðmundar dýra Þorvaldssonar á Bakka í Öxnadal og Önundar Þorkelssonar í Lönguhlíð, sem lauk með Önundarbrennu 1197.

Rétt eftir aldamótin 1200 lét svo Ásbirningahöfðinginn Kolbeinn Tumason kjósa Guðmund Arason til biskups á Hólum og taldi að hann yrði sér leiðitamur en það var öðru nær. Með þeim varð brátt fullur fjandskapur sem lauk með falli Kolbeins í Víðinesbardaga 1208. Ættmenn hans héldu þó áfram fjandskap við biskup og var hann á stöðugum hrakningi um landið og til útlanda næstu áratugi. Einnig má nefna víg Hrafns Sveinbjarnarsonar (1213), sem dró langan hefndarhala á eftir sér.

Snorri og Sturlungar

breyta
 
Snorralaug við Reykholt

Hvamm-Sturla átti þrjá syni; Þórð, Sighvat og Snorra, sem allir urðu valdamiklir goðorðsmenn, Þórður á Snæfellsnesi, Snorri í Borgarfirði og Sighvatur fyrst í Dölum og síðar í Eyjafirði. Þeir voru mjög áberandi í átökum Sturlungaaldar, einkum Snorri og Sighvatur, ásamt Sturlu syni Sighvats og Kolbeini unga, leiðtoga Ásbirninga og Gissuri Þorvaldssyni, foringja Haukdæla.

Snorri var í Noregi á árunum 1218–20, gerðist þar handgenginn Skúla jarli Bárðarsyni og tókst á hendur það hlutverk að gera Ísland að skattlandi Noregs. Upphaf Sturlungaaldar er gjarna miðað við heimkomu Snorra til Íslands 1220 en hann aðhafðist þó fátt til að sinna hlutverki sínu næstu árin, heldur stundaði ritstörf og er talið að hann hafi skrifað sín helstu stórvirki á þeim árum.

Nóg var þó um átök: Sighvatur Sturluson og Sturla sonur hans fóru í Grímseyjarför 1222 til að hefna fyrir víg Tuma Sighvatssonar. Björn bróðir Gissurar Þorvaldssonar var drepinn á Breiðabólstað í Fljótshlíð 1221 af Oddaverjum. Synir Hrafns Sveinbjarnarsonar brenndu Þorvald Vatnsfirðing inni árið 1228 til að hefna fyrir föður sinn og synir Þorvaldar reyndu að hefna hans í Sauðafellsför 1229 en voru sjálfir felldir nokkrum árum síðar.

Sturla Sighvatsson fór í suðurgöngu til Rómar árið 1233 til að gera yfirbót fyrir sig og föður sinn vegna illrar meðferðar á Guðmundi Arasyni biskupi í Grímseyjarför. Á heimleið kom hann við í Noregi og var þá falið af Hákoni konungi að taka að sér það verk sem Snorri hafði ekki sinnt, sem sé að koma Íslandi undir konung. Sturla lét þegar til sín taka þegar heim kom, hóf þegar að auka við veldi sitt og tókst meðal annars að hrekja Snorra frænda sinn og Órækju son hans úr landi. Hann lagði svo til atlögu við Gissur Þorvaldsson og tókst að ná honum á sitt vald í Apavatnsför en Gissur slapp undan og þeir Kolbeinn ungi tóku höndum saman og í Örlygsstaðabardaga, fjölmennasta bardaga sem háður hefur verið á Íslandi, féllu feðgarnir Sighvatur og Sturla.

Árið 1239 sneri Snorri heim frá Noregi þrátt fyrir bann konungs. Konungur áleit hann landráðamann við sig og sendi Gissuri Þorvaldssyni boð um að flytja Snorra til Noregs eða drepa hann ella. Gissur fór að Snorra í Reykholti og lét drepa hann þar haustið 1241.

Þórður kakali og Gissur jarl

breyta

Þórður kakali, sonur Sighvats Sturlusonar, hafði verið í Noregi en sneri heim 1242 og á næstu árum tókst honum með skæruhernaði gegn Kolbeini unga, sem hafði lagt undir sig allt veldi föður hans og bræðra, að efla styrk sinn. Hápunktur þeirra átaka var Flóabardagi, eina sjóorrusta Íslandssögunnar, árið 1244. Kolbeinn lést ári síðar og Þórður felldi arftaka hans, Brand Kolbeinsson, í Haugsnesbardaga árið 1246. Hann réði eftir það öllu Norðurlandi og frá 1247–50 var hann valdamesti maður landsins því konungur hafði kyrrsett Gissur Þorvaldsson í Noregi. En árið 1250 kallaði konungur Þórð til Noregs og kyrrsetti hann en Gissur kom heim 1252.

Óvinir Gissurar reyndu að brenna hann inni í Flugumýrarbrennu 1253 en tókst ekki, þótt kona hans og synir létust í brennunni. Næstu árin gekk á með skærum og bardögum, vígum og níðingsverkum. Landsmenn voru orðnir mjög þreyttir á átökum höfðingja og sögðu jafnvel að þeir vildu helst engan höfðingja hafa yfir sér. Gissur kom heim með jarlsnafnbót en hún dugði honum lítið. Þorgils skarði, sonarsonur Þórðar Sturlusonar, var drepinn 1258, síðastur af hinum herskáu leiðtogum Sturlunga, en föðurbróðir hans, Sturla Þórðarson sagnaritari, lifði eftir og skráði sögu Sturlungaaldar.

Loks kom þar 1262 að Íslendingar samþykktu að ganga Noregskonungi á hönd og þar með lauk þjóðveldistímanum. Austfirðingar samþykktu þetta raunar ekki fyrr en 1264 en þó er alltaf miðað við 1262. Samningurinn sem þá var gerður hefur gengið undir nafninu Gamli sáttmáli og eru elstu varðveittu handrit hans frá 15. öld. Á síðustu árum hefur komið fram sú kenning að Gamli sáttmáli, að minnsta kosti í þeirri mynd sem hann hefur varðveist, sé alls ekki frá 13. öld, heldur hafi hann verið saminn á 15. öld til að styrkja málstað íslenskra höfðingja vegna ágreinings um verslun við Noregskonung.[17]

Skattlandið Ísland

breyta

Á 13. öld var mikið ritað af samtímasögum og heimildir um atburði aldarinnar eru því mun betri en um aldirnar sem á eftir fóru en þó hefur töluvert varðveist af skjölum af ýmsu tagi, auk þess sem annálar voru ritaðir, en þeir eru oft mjög stuttorðir um mikla atburði.

 
Hreyfimynd sem sýnir útbreiðslu svarta dauða á korti af Evrópu

Þótt einstakir höfðingjar söfnuðu miklum auð á 14. og 15. öld fór ástandið almennt versnandi. Þar kom margt til, svo sem kólnandi veðurfar (Litla ísöldin svokallaða hófst um miðja 15. öld), eldgos og ýmis óáran og ekki síst Svarti dauði, sem gekk á Íslandi 1402–03 og felldi stóran hluta landsmanna. Fjöldi jarða lagðist í eyði, leiguverð lækkaði og mikill skortur var á vinnuafli, ekki síst til sjósóknar svo að minna aflaðist af fiski, sem var helsta útflutningsvaran. Í lok 15. aldar (1494–95) gekk svo önnur afar mannskæð sótt um landið, Plágan síðari.

Breytingar á stjórn og þingi

breyta

Með Gamla sáttmála féllust Íslendingar á að greiða Noregskonungi skatt gegn því að hann tryggði frið og reglulegar siglingar til landsins; þó hefur sú kenning komið fram að ákvæðið um siglingar hafi ekki komið inn fyrr en mun seinna því að á 13. öld hafi Íslendingar ekki þurft að hafa miklar áhyggjur af siglingum til landsins. Í samtímaheimildum er heldur ekkert minnst á ákvæði um siglingar.

Í framhaldi af þessu voru lög þjóðveldisins endurskoðuð og árið 1271 sendi Magnús lagabætir Noregskonungur Íslendingum nýja lögbók, Járnsíðu, sem vakti þó enga hrifningu og var ekki samþykt í heild fyrr en 1273. Óánægja var þó áfram mikil og konungur lét þá semja nýja lögbók, Jónsbók (kennd við lögsögumanninn Jón Einarsson gelgju), sem samþykkt var 1281 eftir nokkrar deilur og var í gildi í margar aldir og nokkur ákvæði jafnvel enn í dag.

Þótt sambandið við Noregskonung hafi líklega litlu sem engu breytt fyrir almenning, nema hvað friður komst á í landinu, breyttist ýmislegt í stjórnskipun Íslands með tilkomu konungsvaldsins. Goðar höfðu ekkert vald lengur en í þeirra stað komu embættismenn. Sýslumenn, sem komu úr röðum helstu höfðingja og auðmanna landsins, tóku við héraðsstjórn og sáu um innheimtu skatta, dóma og refsingar, löggæslu og fleira. Yfir þeim var hirðstjóri, æðsti embættismaður konungs á landinu. Framan af voru hirðstjórarnir oftast íslenskir.

Töluverðar breytingar urðu líka á Alþingi. Lögrétta var að vísu áfram löggjafarstofnun og hélt því valdi til 1662, að nafninu til að minnsta kosti, en tók nú einnig við hlutverki dómstóls því fjórðungsdómar og fimmtardómur voru lagðir niður. 36 menn voru valdir til setu í lögréttu og kölluðust þeir lögréttumenn. Í stað lögsögumanns kom lögmaður, sem setti þingið og sleit því, stýrði störfum lögréttunnar og valdi menn til setu í lögréttu ásamt sýslumönnum.

Helsta deilumálið í lok 13. aldar snerist um yfirráð yfir kirkjustöðum, staðamál síðari svokölluð, og tókst Árni Þorláksson Skálholtsbiskup, sem kallaður var Staða-Árni, þar á við veraldlega höfðingja. Þeim málum lauk með sættagerð í Ögvaldsnesi í Noregi og má segja að kirkjan hafi haft betur. Hún fékk vald í málefnum kirkna og presta og kirkjuréttar- og siðferðismálum og í kjölfarið óx vald hennar og eignir.

Norska öldin

breyta

Fjórtánda öldin hefur verið kölluð Norska öldin í sögu Íslendinga því þá voru tengsl Íslands og Noregs mikil. Ýmsir norskir embættismenn og biskupar gegndu embætti á Íslandi og verslun við Noreg var mikil, ekki síst eftir að mikill kippur kom í skreiðarverslun og útgerð. Vísir að fiskiþorpum byggðist upp á sumum helstu útgerðarstöðum Íslands og skreið tók við af vaðmáli sem helsta útflutningsvaran.

Íslendingar urðu stöðugt háðari siglingum útlendinga til landsins; þeir höfðu átt góðan skipastól á landnámsöld og fram eftir öldum en erfitt var að endurnýja hann og skipunum fækkaði smátt og smátt, þannig að utanríkisverslunin færðist öll í hendur útlendinga og þá fyrst til Norðmanna. Þetta kom sér illa, til dæmis þegar siglingar lögðust niður að mestu í nokkur ár á meðan og eftir að Svarti dauði geisaði í Noregi um miðja 14. öld.

 
Drög að samningnum um Kalmarsambandið

Með stofnun Kalmarsambandsins 1397 varð Ísland svo hluti af ríki Margrétar Valdimarsdóttur og því næst Eiríks af Pommern, sem náði yfir Danmörku, Svíþjóð og Noreg. Þá fluttist þungamiðja konungsvalds í Noregi til Danmerkur og tengsl Íslendinga við Noreg minnkuðu mikið og rofnuðu endanlega um 1428.

Enska og þýska öldin

breyta

Snemma á 15. öld hófst svo það tímabil sem hefur verið kallað Enska öldin, þegar verslun og önnur samskipti við Englendinga voru meiri en við aðrar þjóðir og Englendingar sigldu mikið til Íslands til að kaupa skreið og fleira og selja Íslendingum varning, auk þess sem ensk fiskiskip stunduðu veiðar við Ísland. Ekki gekk þetta allt þó slétt og fellt fyrir sig, heldur ekki þótt allmargir Englendingar gegndu hér biskupsembætti á 15. öld og voru þeir skipaðir af páfa en ekki erkibiskupi.

Innanlandsátök á Íslandi á þessum öldum voru oft tengd verslun við útlendinga og yfirráðum yfir útgerðarstöðum því að skreiðarútflutningur var helsta auðlindin. Til dæmis hefur verið sett fram sú kenning að þegar íslenskir höfðingjar fóru að Jóni Gerrekssyni Skálholtsbiskupi árið 1433 og drekktu honum hafi það verið pólitísk aðgerð að undirlagi Englendinga og jafnvel Jóns Vilhjálmssonar Craxton Hólabiskups, sem var enskur. Helsti bandamaður hans var Loftur ríki Guttormsson en Þorvarður sonur hans var annar foringjanna í aðförinni að Jóni Gerrekssyni.

Annálar og aðrar heimildir greina oft frá átökum milli Englendinga og íslenskra höfðingja, til dæmis í Rifi á Snæfellsnesi 1467, þegar Englendingar drápu Björn Þorleifsson hirðstjóra. Kristján 1. Danakonungur lokaði þá Eyrarsundi fyrir enskum skipum, auk þess sem hann hvatti þýska Hansakaupmenn til Íslandssiglinga. Við það hófust átök um einstakar hafnir á Íslandi milli Englendinga og Þjóðverja og er 16. öldin oft kölluð Þýska öldin. Danakonungur og Englandskonungur sömdu um leyfi fyrir Englendinga til að versla og veiða við Ísland en Íslendingar gengu í berhögg við þann samning með Píningsdómi 1490. Englendingar hættu þó ekki Íslandssiglingum og voru hér viðloða fram á miðja 17. öld.

Á seinni hluta 15. aldar fóru biskupar að láta meira til sín taka en áður og skipta sér meira af veraldlegum málefnum, ekki síst siðferðisefnum, og var tilgangurinn þá oft að ná sem mestum eignum undir sjálfa sig og kirkjuna. Ýmsir höfðingjar höfðu gert sig seka um skyldleikagiftingar eða önnur brot og reyndu biskupar þá að fá eignir dæmdar af þeim. Þekktar eru til dæmis deilur Gottskálks Nikulássonar við Jón Sigmundsson lögmann, Stefáns Jónssonar Skálholtsbiskups við Torfa Jónsson í Klofa og síðar Björn Guðnason í Ögri og deilur Jóns Arasonar við Teit Þorleifsson lögmann. Höfðingjarnir reyndu að takast á við biskupana, meðal annars með Leiðarhólmssamþykkt 1513, en það bar takmarkaðan árangur.

Siðaskiptin

breyta
 
Titilblað Guðbrandsbiblíu, 1584

Kristján konungur 3. innleiddi mótmælendatrú í Danmörku 30. október 1536 en ekki verður séð að hann hafi gert neitt til að afla henni brautargengis á Íslandi næstu árin. Áhrif Lúthers voru þó þegar farin að berast til landsins og Þjóðverjar,sem stunduðu veiðar og verslun hér við land, eru sagðir hafa reist lútherska kirkju í Hafnarfirði þegar 1533.

Ögmundur Pálsson biskup í Skálholti, sem var orðinn aldraður, hafði í þjónustu sinni nokkra unga menn sem menntaðir voru erlendis og höfðu kynnst mótmælendahreyfingunni þar og hrifist af henni þótt þeir flíkuðu ekki skoðunum sínum þegar biskup var nærstaddur. Einn þeirra var Oddur Gottskálksson, sonur Gottskálks Nikulássonar Hólabiskups. Hann kom heim frá námi í Þýslandi 1535, þá um tvítugt, og hófst fljótt handa við að þýða Nýja testamentið á íslensku og segir sagan að hann hafi oft verið við iðju sína úti í fjósi. Nýja testamenti Odds var prentað í Hróarskeldu 1540 og er það elsta varðveitta prentaða verkið á íslensku.

Annar ungur menntamaður sem hafði kynnst lútherskunni í Þýskalandi var Gissur Einarsson. Árið 1539 valdi Ögmundur hann sem eftirmann sinn en sá brátt eftir því, þegar skoðanir Gissurar komu berlega í ljós. Vorið 1541 komu svo danskir hermenn undir stjórn Christoffer Huitfeldt til landsins, handtóku Ögmund og fluttu hann með sér út en aðhöfðust ekkert gegn Jóni Arasyni og var Ísland því skipt milli mótmælenda og kaþólskra næstu árin. Það var ekki fyrr en eftir dauða Gissurar 1548, þegar Jón Arason, síðasti kaþólski biskupinn á Norðurlöndum, fór á stúfana og reyndi að leggja Ísland allt undir sig og koma á kaþólsku að nýju sem tekið var í taumana. Jón og synir hans tveir voru handteknir og teknir af lífi í Skálholti 7. nóvember 1550. Eru siðaskiptin oftast miðuð við þann dag þótt þau hafi orðið í Skálholtsbiskupsdæmi átta árum fyrr.

Við siðbreytingu fluttust allar eigur kirkjunnar í hendur Danakonungs og ítök og áhrif Dana jukust til muna hér á landi, ekki síst í verslunarmálum, og lauk þeirri þróun með tilkomu einokunarverslunarinnar 1602. Margt annað breyttist við siðaskiptin. Löggjöf varð strangari og árið 1564 gekk í gildi svonefndur Stóridómur, sem var ströng löggjöf í siðferðismálum.[18] Vitað er um 220 aftökur á Íslandi á tímabilinu frá 1596 til 1830 þegar þeim var hætt. Konum var jafnan drekkt og karlar hálshöggnir.[19]

Eitt meginatriðið í því að breiða út hinn nýja sið var að gera guðsorðið aðgengilegt á íslensku. Jón Arason hafði flutt fyrstu prentsmiðjuna til landsins um 1530 en þegar Guðbrandur Þorláksson varð biskup 1571 hljóp vöxtur í bókaútgáfu, þó fyrst og fremst guðsorðabóka, og árið 1586 kom út Guðbrandsbiblía, fyrsta biblíuþýðingin á íslensku.

Einokun og einveldi

breyta

17. og 18. öldin voru hörmungartímar í íslenskri sögu, veðurfar var hart, grasspretta oft léleg, hafís lagðist að landi og illa fiskaðist og eldgos og önnur óáran gekk yfir. Ekki var þó mikið um ófrið í landinu, að frátöldum Spánverjavígunum 1615 og svo Tyrkjaráninu 1627, þegar sjóræningjar frá Alsír gerðu strandhögg á nokkrum stöðum og þó mest í Vestmannaeyjum, drápu nokkra tugi manna en rændu á fjórða hundrað, fluttu með sér til Alsír og seldu í þrældóm. Nokkrir þeirra komust þó á endanum aftur heim til Íslands og er Guðríður Símonardóttir þeirra þekktust.

Sumarið 1783 urðu Skaftáreldar, þá gusu Lakagígar í einhverju mesta eldgosi sem orðið hefur á sögulegum tíma. Áhrifin urðu skelfileg. Um 75% búfjár landsmanna féll vegna öskufalls, eiturgufa og grasbrests og fimmtungur landsmanna, eða um 10.000 Íslendingar, dóu úr hungri og harðræði í kjölfarið. Hallæri þetta kallaðist Móðuharðindi.

Einokunarverslun

breyta

17. öldin hófst með því að einokunarverslun var komið á árið 1602. Danakonungur hafði á sínum tíma hvatt Þjóðverja til Íslandsverslunar til að vinna gegn áhrifum Englendinga en nú voru Danir sjálfir farnir að láta meira til sín taka í verslun en áður og konungur veitti borgurum Kaupmannahafnar, Helsingjaeyrar og Málmeyjar (sem þá tilheyrðu Danaveldi) einkarétti á Íslandsverslun gegn tiltölulega vægu afgjaldi. Í raun voru margir dönsku kaupmannanna leppar þýskra Hansakaupmanna. Skip annarra þjóða héldu þó áfram að koma að landinu til veiða hundruðum saman og Íslendingar versluðu mikið við þau á laun. Lítið var gert við því framan af.

Verslunin var í höndum ýmissa verslunarfélaga og samtaka á einokunartímanum og fljótlega var tekinn upp einn taxti fyrir allt landið sem varð að fara eftir. Árið 1684 var komið á umdæmaverslun, þannig að einstakir kaupmenn tóku ákveðnar hafnir á leigu, og eftir það var refsað grimmilega fyrir ef einhvern verslaði við erlenda kaupmenn eða verslaði við annan kaupmann en hann átti að versla við. Verslunartaxtanum var líka breytt svo að hann varð Íslendingum meira í óhag en áður og hafði þó þótt slæmur fyrir. Sú breyting gekk þó til baka 1702 og þá voru viðurlög við brotum líka milduð.

Árið 1742 fór verslunin í hendur Hörmangarafélagsins svonefnda, sem virðist hafa staðið sig illa og hefur fengið afar slæm eftirmæli hjá Íslendingum. Konungur yfirtók verslunina 1759, seldi hana aftur á leigu 1764 en yfirtók hana öðru sinni 1774 og hafði hana á sinni könnu þar til einokuninni var aflétt 1787. Þá tók fríhöndlunin við, sem var þó ekki algjört verslunarfrelsi, því Íslendingar máttu einungis versla við þegna Danakonungs.

Lengi framan af höfðu kaupmenn hér einungis viðdvöl á sumrin, þeir komu með skipum sínum snemma sumars og einungis var hægt að versla við þá þar til þeir sigldu út á haustin. Margir byggðu þó vörugeymslur sem jafnframt voru verslunarbúðir og í hallærum kom það fyrir að yfirvöld létu brjóta upp kaupmannsbúðir til að nálgast matbjörg sem þar var að finna og útdeila til sveltandi almúgans. Árið 1777 var þó ákveðið að kaupmenn skyldu hafa hér fasta búsetu en nokkrir voru raunar sestir hér að áður.

Einveldi og upplýsing

breyta

Hlutverki Alþingis sem löggjafarsamkomu lauk þegar Íslendingar samþykktu erfðaeinveldið á Kópavogsfundinum 1662. Erfðahyllingin var þó varla annað en formsatriði. Um svipað leyti var hæstiréttur stofnaður í Kaupmannahöfn og þá var alþingi ekki lengur æðsti dómstóllinn, hlutverk þess var í rauni einungis að vera millidómstig. Stiftamtmaður varð æðsti fulltrúi konungs á Íslandi en raunar sátu stiftamtmenn oftast í Kaupmannahöfn en amtmenn og landfógeti fóru með vald þeirra á Íslandi.

 
Blaðsíða úr Flateyjarbók sem geymd er á Stofnun Árna Magnússonar

Tímabilið frá siðaskiptum til upplýsingaraldar (um 1770) er oft kallað lærdómsöld. Þessi tími einkenndist þó ekki síður af ýmiss konar hjátrú og hindurvitnum. Á seinni hluta 17. aldar voru nokkrir Íslendingar brenndir á báli fyrir ástundun galdra. Þó kom upp mikill áhugi, ekki síst erlendis, á íslenskum fornritum og gömlum bókum og fór Árni Magnússon víða um land og safnaði handritum, bæði skinnbókum og pappírshandritum, og flutti til Kaupmannahafnar. Sumar þeirra töpuðust reyndar í brunanum mikla í Kaupmannahöfn 1728 en flestar björguðust.

Árni fór líka um allt landið á árunum 1702–10 ásamt Páli Vídalín þeirra erinda að skrá ítarlega upplýsingar um hverja einustu bújörð. Afrakstur þess verks er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Þeir skráðu margt fleira um landshagi og létu árið 1703 gera fyrsta íslenska manntalið, sem er fyrsta heildarmanntal yfir heila þjóð sem gert var í heiminum en tilgangur þess var fyrst og fremst að komast að því hver væri fjöldi ómaga og þurfamanna á landinu. Töldust Íslendingar vera 50.358 talsins en fjórum árum síðar fækkaði þeim um þriðjung í Stórubólu 1707.

Upp úr miðri öldinni hélt upplýsingarstefnan innreið sína á Íslandi og þótt á brattann væri að sækja þegar hörmungar dundu yfir þjóðina, ekki síst í Móðuharðindunum á 9. áratug aldarinnar, reyndu ýmsir að koma á framförum í landbúnaði og garðrækt, auk þess sem Innréttingar Skúla Magnússonar voru tilraun til þess að nútímavæða íslenskan iðnað sem gekk ekki alveg sem skyldi. Ýmislegt var þó gert í framfara- og fræðslumálum og bæði danskir áhugamenn um umbætur á Íslandi og ýmsir íslenskir mennta- og embættismenn reyndu að ýta undir framfarir á ýmsum sviðum.

Sjálfstæðisbaráttan

breyta

Þótt Íslendingar gengju Noregskonungi á hönd árið 1262 má segja að þeir hafi að mestu leyti ráðið sér sjálfir næstu aldirnar. Það er ekki fyrr en með siðaskiptunum sem áhrif Dana á innanlandsmál fara að aukast verulega og ná svo hámarki með upptöku einveldis 1662. Eftir það verður þess stundum vart að Íslendingar fari fram á að vera settir jafnt og aðrir þegnar Danakonungs en hvergi er þó hægt að segja að örli á neinum óskum um sjálfstæði. Þótt oft sé talað um illa meðferð Dana á sárafátækum íslenskum almúga er sannleikurinn sá að oftar en ekki voru það íslenskir höfðingjar og stórbændur sem sjálfir fóru illa með landa sína.

Upphaf sjálfstæðisbaráttu

breyta

Með upplýsingarstefnunni og þó ekki síður þegar þjóðernisstefnu óx fiskur um hrygg í Evrópu á fyrri hluta 19. aldar efldist þjóðerniskennd Íslendinga. Áhugi á sögu Íslands, íslensku máli og fornbókmenntum jókst til muna og glæddi þjóðerniskenndina. Tæpast er þó hægt að tala um eiginlega sjálfstæðisbaráttu á fyrri hluta aldarinnar, þótt Jörundur hundadagakonungur lýsti landið að vísu sjálfstætt í skammvinnu valdaráni sínu sumarið 1809. Alþingi, sem orðið var valdalaust og hafði varla annað hlutverk en að dæma í málum sem þangað var vísað úr héraði, hafði verið lagt niður árið 1800 og Landsyfirréttur stofnaður í staðinn.

Þótt flestir gerðu sér grein fyrir því að sjálfstæði Íslands væri ekki raunhæft á þessum tíma var krafan um umbætur sterk. Í kjölfar þjóðernisvakningar og stjórnmálahræringa suður í Evrópu hófu Íslendingar að berjast fyrir endurreisn Alþingis og láta sig dreyma um sjálfstæði þjóðarinnar. Skáld og ungir menntamenn voru þar framarlega í flokki og má þar nefna til Jónas Hallgrímsson og Fjölnismenn. Alþingi var svo endurreist í Reykjavík 1845, að vísu aðeins sem ráðgjafarþing.

Þegar Danakonungur afsalaði sér einveldi árið 1848 urðu ákveðin staumhvörf og þá má segja að hin eiginlega sjálfstæðisbarátta hafi hafist. Jón Sigurðsson birti þá Hugvekju til Íslendinga og lýsti þar rökum fyrir því að Íslendingar ættu að fá að ráða sér sjálfir. Vísaði hann þar í Gamla sáttmála, þar sem Íslendingar hefðu gengið í samband við Noreg sem frjálst land með ákveðnum skyldum og réttindum og skyldi öll stjórn og lög vera innlend. Þar sem Danakonungur hefði nú afsalað sér einveldi hlyti Gamli sáttmáli aftur að vera genginn í gildi og Íslendingar gætu því ekki heyrt undir danskt þing eða ríkisstjórn.[20]

Baráttan ber árangur

breyta

Þjóðfundur var haldinn í Reykjavík sumarið 1851 að frumkvæði dönsku stjórnarinnar og þegar Jón Sigurðsson lagði þar fram frumvarp byggt á Hugvekjunni og ljóst að það yrði samþykkt ákvað fulltrúi konungs, Trampe greifi, að slíta fundi í nafni konungs. Jón mótmælti og þingmenn tóku undir með orðunum: „Vér mótmælum allir.“ Eftir þennan fund var Jón óumdeildur leiðtogi í baráttu Íslendinga fyrir auknum réttindum. Hann barðist líka af mikilli atorku fyrir verslunarfrelsi og benti á slæm áhrif einokunarinnar. Árangurinn varð sá að verslun við Ísland var frjáls öllum þjóðum frá 1. apríl 1855.

Árið 1874 fengu Íslendingar svo sína fyrstu stjórnarskrá og var haldin mikil hátíð á Þingvöllum í ágúst um sumarið, þar sem Danakonungur heimsótti Ísland í fyrsta sinn en Jóni Sigurðssyni var ekki boðið. Þá fékk Alþingi löggjafarvald með konungi, sem hafði neitunarvald og beitti því stundum, og fjárveitingavald, og Íslendingar höfðu því fengið takmarkaða sjálfsstjórn. Landshöfðingi var skipaður til að fara með æðstu stjórn landsins í umboði konungs og er tímabilið til 1904 kallað landshöfðingjatímabilið.

Upphaf þéttbýlismyndunar og vesturfarir

breyta

Um leið urðu hægfara framfarir í atvinnulífi. Þéttbýlismyndun hófst og innlend kaupmannastétt varð til. Á síðari hluta aldarinnar fóru Íslendingar að gera út þilskip. Skútuöldin var þó ekki ýkja löng – hápunktur hennar var á árunum 1890–1910 – og víða fóru menn nánast beint af árabátum á togara úr stáli en togaraútgerð hófst þó ekki fyrr en í upphafi 20. aldar; fyrstur var togarinn Coot, sem keyptur var til landsins 1905. Undir lok 19. aldarinnar fylltust Íslandsmið af breskum togurum sem veiddu nánast uppi í landsteinum og spilltu oft fiskimiðum árabátanna.

Tiltölulega litlar breytingar urðu á sveitabúskap á 19. öld. Að vísu fjölgaði búfénaði nokkuð, einkum sauðfé, en á móti kom að eftir mannfelli og harðindi 18. aldar hófst fólksfjölgun. Íslendingum, sem voru 47 þúsund árið 1801, fjölgaði um nærri 40% til 1850 svo að litlu meira var til skiptanna en áður. Sauðfjárfjölgunin byggðist líka mest á aukinni nýtingu á óræktuðu beitilandi, sem var möguleg í góðu árferði, en þegar nýtt kuldaskeið hófst milli 1850-60, um leið og skæður fjárkláðafaraldur barst til landsins, þrengdist hagur fólks verulega.

Um leið var aldursskipting landsmanna með þeim hætti að mjög margt fólk var á giftingar- og barneignaaldri. Fátæku fólki var gert erfitt fyrir að stofna fjölskyldu; öreigagiftingar voru bannaðar, sem þýddi til dæmis að fólk sem hafði þegið sveitarstyrk á síðustu tíu árum mátti ekki giftast. Einnig var mjög erfitt að fá jarðnæði og í þeim fáu sjávarþorpum sem orðin voru til var litla vinnu að hafa fyrr en útgerð fór að aukast, auk þess sem hömlur á rétti fólks til að setjast að í þurrabúðum við sjó voru enn strangar. Þetta varð til þess að vinnuhjú voru hlutfallslega hvergi fleiri í Evrópu en á Íslandi og þar sem fólk fékk ekki giftingarleyfi varð hlutfall lausaleiksbarna einnig mjög hátt.

Harðindi gengu yfir landið, einkum norðan- og austanlands, á síðasta þriðjungi aldarinnar, og var það að öllum líkindum eitthvert kaldasta tímabil Íslandssögunnar. Þessi harðindi ýttu mjög undir flutninga fólks til Ameríku eftir 1870. Öskjugosið 1875 varð til þess að auka á landflóttann og flutti fólk aðallega til Manitoba í Kanada og nyrstu fylkja Bandaríkjanna. Á síðasta áratug 19. aldar batnaði árferðið á ný og um leið dró mjög úr vesturferðum.

Heimastjórnartímabilið

breyta
 
1908 Björn Jónsson, ráðherra Íslands, flytur ræðu í porti Barnaskólans vegna Sambandsmálsins. Mannfjöldi fylgist með.

Heimastjórn fengu Íslendingar 1904 og varð Hannes Hafstein fyrsti ráðherrann. Heimastjórnartíminn var framfaratími þótt vissulega setti heimsstyrjöldin fyrri með tilheyrandi vöruskorti og dýrtíð svip á síðari hluta hans. Miklar breytingar urðu á atvinnuháttum, vélbáta- og togaraöldin hófst og Íslendingar eignuðust eigin skipafélag, Eimskipafélag Íslands, og eigin banka, Landsbanka Íslands og síðan Íslandsbanka (eldri), en með honum kom erlent fjármagn til landsins. Fyrstu dagblöðin hófu útkomu og sæsími var lagður til landsins, svo að fréttir utan úr heimi bárust nú samdægurs til landsins. Bílar komu til landsins og miklar framfarir urðu í vegagerð. Reykjavík varð að höfuðborg landsins, þangað fluttist fjöldi fólks.

Jafnframt urðu framfarir í landbúnaði, rjómabú og sláturhús risu víða og bændur fóru í auknum mæli að framleiða matvæli til sölu á markaði en ekki aðeins til heimaneyslu. Verslun óx og dafnaði og fjöldi smárra iðnfyrirtækja var stofnaður.

Menntamál breyttust líka mjög til batnaðar. Með fræðslulögunum 1907 var öllum börnum tryggð að minnsta kosti fjögurra ára skólaganga þeim að kostnaðarlausu. Unglingaskólum og verkmenntaskólum af ýmsu tagi var komið á laggirnar og árið 1911 var Háskóli Íslands stofnaður. Félags- og stjórnmál tóku miklum breytingum, grunnur var lagður að núverandi flokkakerfi, fjöldi verkalýðs- og stéttarfélaga var stofnaður og konur fengu kosningarétt og kjörgengi árið 1915. Fyrstu stjórnmálaflokkar landsins voru stofnaðir árið 1916, það voru Framsóknarflokkurinn og Alþýðuflokkurinn. Stofnun þeirra markaði upphaf fjórflokkakerfisins sem einkennir íslensk stjórnmál.

 
Hópur fólks fagnar fullveldinu 1. desember 1918 við Stjórnarráð Íslands

Þann 1. desember árið 1918 varð Ísland svo fullvalda ríki (Konungsríkið Ísland) með eigin þjóðfána en var þó áfram í konungssambandi við Danmörku. Alþingi fékk óskorað löggjafarvald en Danir fóru áfram með utanríkismál og landhelgisgæslu. Lýðveldi var svo stofnað á Þingvöllum 17. júní 1944 og féll þá samband Íslands við Danmörku alfarið úr gildi. Sveinn Björnsson var kosinn fyrsti forseti Íslands.

Meðal áhrifamestu manna í íslensku þjóðlífi á fyrri hluta 20. aldarinnar var Thor Jensen, kaupmaður og útgerðarmaður, sem rak fyrirtækið Kveldúlf. Synir hans urðu margir hverjir þjóðþekktir, má þar helst nefna Ólaf Thors, sem varð formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra Íslands, Kjartan Thors sem varð framkvæmdastjóri Kveldúlfs, og Thor Thors, fyrsta fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Tengdasynir Thors voru líka kunnir og áhrifamiklir, til dæmis Guðmundur Vilhjálmsson, forstjóri Eimskipafélags Íslands, Gunnar Viðar, bankastjóri Landsbanka Íslands, og Hallgrímur Fr. Hallgrímsson, forstjóri olíufélagsins Skeljungs. Sonur Ólafs Thors, Thor Ó. Thors, varð framkvæmdastjóri Íslenskra aðalverktaka og tengdasonur Ólafs, Pétur Benediktsson, bankastjóri Landsbankans.

Hæstiréttur Íslands kom fyrst saman árið 1920 og sama ár var stjórnarskránni breytt þannig að þingmönnum var fjölgað í 42 og ákveðið að Alþingi skyldi koma saman árlega. Árið 1930 var haldið upp á þúsaldarafmæli alþingis með Alþingishátíðinni. Kreppan mikla hafði skollið á haustið 1929 og náði nú til Íslands. Atvinnuleysi á landinu jókst og til óeirða kom 9. nóvember 1932 við Góðtemplarahúsið við Tjörnina, sem hefur jafnan verið nefnt Gúttóslagurinn. Meirihluti fjórða áratugarins var erfiður Íslendingum, togaraútgerðin var rekin með tapi sem leystist ekki fyrr en gengi íslensku krónunnar var fellt árið 1939 og krónan aftengd breska pundinu og þess í stað tengd bandaríska dollaranum.[21] Seinni heimsstyrjöldin hófst með innrás Þýskalands í Pólland í september 1939 en nokkrum mánuðum síðar, í apríl 1940, réðust Þjóðverjar á Danmörku og hertóku.

Lýðveldið Ísland

breyta

Íslendingar slitu einhliða stjórnarsambandi sínu við Dani og tók ný stjórnarskrá lýðveldisins Íslands gildi þann 17. júní árið 1944. Sem sjálfstætt ríki stóð Ísland nokkuð vel í samanburði við önnur lönd eftir hildarleik seinni heimsstyrjaldarinnar. Bandaríkjamenn fengu að hafa herstöð á Miðnesheiði og gerður var varnarsamningur á milli landanna tveggja. Ísland hlaut, eins og önnur Evrópulönd hliðholl Bandamönnum, styrk í formi Marshall-aðstoðarinnar. Styrkurinn skipti sköpum og á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina var Áburðarverksmiðja ríkisins byggð og fjöldi togara keyptur til þess að styrkja íslenskan sjávarútveg. Stefna stóriðju varð mjög áberandi í efnahagsstefnu stjórnvalda og á miðjum sjótta áratugnum var samið um bygginu Búrfellsvirkjunar til þess að sjá Álverinu í Straumsvík fyrir rafmagni.

Öryggismál voru mest áberandi í utanríkisstefnu Íslands eftir seinna stríð og við upphaf kalda stríðsins. Ísland var ekki meðal stofnríkja Sameinuðu þjóðanna, þegar þau voru stofnuð þann 24. október 1945 en tæpu ári seinna samþykkti Alþingi að sækja um aðild og í nóvember 1946 varð Ísland að aðildarríki. Ríkisstjórn Alþýðuflokks- og Framsóknarflokks taldi öryggi landsins best borgið með umdeildri inngöngu í NATO 1949 og varnarsamningi við Bandaríkjamenn. Til að tryggja efnahag landsins var stoðum rennt undir sjávarútveginn með útfærslu íslensku landhelgarinnar. Landhelgismálið varð þó að torleystri milliríkjadeilu milli Breta og Íslandinga og leiddi til Þorskastríða milli ríkjanna. Mikilvægum áfanga í samgöngum á Íslandi var náð árið 1974 þegar hringveginum var lokið með byggingu Skeiðarárbrúar.

Kjördæmakerfinu var gjörbreytt árið 1959 þegar þau 28 ein- og tvímenningskjördæmi, sem verið höfðu frá því að Alþingi var endurreist 1843, voru lögð niður. Í staðinn tók við hlutfallskosning í átta kjördæmum. Breytingin var gerð af Viðreisnarstjórninni, stjórn Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins sem sat við völd á Íslandi frá 1959 til 1971. Hún endurspeglaði þá þéttbýlisvæðingu sem átt hafði sér stað á 20. öld og átt enn eftir að aukast. Frá árinu 1940 til 1970 fjölgaði Reykvíkingum úr 43.841 í 109.238 (149%) á sama tíma og Íslendingum fjölgaði úr 120.264 í 204.042 (70%).[22] Viðreisnarstjórnin vann að því að leggja af það haftakerfi sem komið var á laggirnar á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Evrópusamvinna Íslands hófst formlega er Ísland gekk í Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) þann 5. mars 1970.

Hafist var við byggingu Hallgrímskirkju strax við lok seinni heimsstyrjaldar. Meðal þekktustu listamanna Íslands var án efa Einar Jónsson myndhöggvari. Einar hjó fjölmargar styttur sem eru þekkt kennileiti í Reykjavíkurborg í dag, svo sem styttuna af Ingólfi Arnarsyni á Arnarhóli og styttuna af Jóni Sigurðssyni við Austurvöll. Listasafn Einars Jónssonar var opnað 1923 og var þá fyrsta listasafn landsins. Halldór Laxness hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1955. Hann hafði þá gefið út þekktustu verk sín, Sjálfstætt fólk og Íslandsklukkuna. Handritamálinu lauk árið 1971 eftir að Danir sættust um að afhenda Íslendingum Sæmundareddu og Flateyjarbók.

Tilvísanir

breyta
  1. Gunnar Karlsson. „Hvernig og af hverju skiptist Íslandssagan niður í tímabil?“. Vísindavefurinn 20. janúar 2004. http://visindavefur.is/?id=3957. (Skoðað 7. maí 2010).
  2. RÚV (2. september 2011). „Kvenmannslausar sögubækur“. Sótt 2. september 2011.
  3. „Uppskriftir og myndir frá jarðfrøði-ferðum kring landið (okt. 2004)“. Sótt 21. desember 2006.
  4. „Mauna Loa: Earth's Largest Volcano“. Sótt 22. desember 2006.
  5. Björn Þorsteinsson og Bergsteinn Jónsson (1991). Íslands Saga: til okkar daga. ISBN 9979-9064-4-8., s. 11.
  6. Axel Kristinsson. „Eru til áþreifanlegar sannanir fyrir veru Papa á Íslandi fyrir landnám norrænna manna? “. Vísindavefurinn 22.6.2001. http://visindavefur.is/?id=1732. (Skoðað 7. maí 2010).
  7. Gísli Gunnarsson. „Hvers vegna hefur Náttfara ekki verið hampað sem fyrsta landnámsmanninum?“. Vísindavefurinn 18. september 2000. http://visindavefur.is/?id=920. (Skoðað 7. maí 2010).
  8. ÞV. „Ingólfur Arnarson á að hafa fundið Ísland en hafði enginn komið til Íslands áður?“. Vísindavefurinn 30. október 2000. http://visindavefur.is/?id=1053. (Skoðað 7. maí 2010).
  9. „Ísland numið á árunum 700 til 750“. 16. mars 2009.
  10. „Landnám fyrir landnám?“. Morgunblaðið. 12. maí 2009.
  11. „Var Ísland numið 670?“. Morgunblaðið. 4. nóvember 2009.
  12. Agnar Helgason. „Staðfesta nútíma rannsóknir að Íslendingar séu að mestu leyti komnir af Norðmönnum líkt og segir í fornum ritum?“. Vísindavefurinn 4. desember 2000. http://visindavefur.is/?id=1213. (Skoðað 7. maí 2010).
  13. Sverrir Jakobsson. „Hve lengi var haldið þing á Þórsnesi á Snæfellsnesi?“. Vísindavefurinn 17.4.2001. http://visindavefur.is/?id=1504. (Skoðað 7. maí 2010).
  14. „Alþingi“ (PDF). 2008.
  15. Erlend verslun – stutt yfirlit
  16. Skúli Sæland. „Hvað var Sturlungaöld?“. Vísindavefurinn 28. júlí 2004. http://visindavefur.is/?id=4429. (Skoðað 7. maí 2010).
  17. „Mín köllun er að kynna íslenzkar miðaldir. Lesbók Morgunblaðsins 25. júní 2005“.
  18. Már Jónsson. „Hvað er Stóridómur?“. Vísindavefurinn 23. ágúst 2004. http://visindavefur.is/?id=4476. (Skoðað 7. maí 2010).
  19. Fátækir fórnarlömbin í aftökusögu Íslendinga Vísir.is, skoðað 25. júlí 2018.
  20. „Jón Sigurðsson. Á vef Jónshúss“.
  21. Magnús Sveinn Helgason. „Hin heiðarlega króna”: gengisskráning krónunnar sem viðfangsefni stjórnmálabaráttunnar á kreppuárunum 1931–1939 í Frá kreppu til viðreisnar: þættir um hagstjórn á Íslandi á árunum 1930–1960 (Jónas H. Haralz ritstjóri). Reykjavík. Hið íslenska bókmenntafélag. 2002. s. 81–134.
  22. „Gögn um mannfjölda á vef Hagstofu Íslands“. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. apríl 2010. Sótt 11. apríl 2010.

Heimildir

breyta
  • Agnar Helgason. „Staðfesta nútíma rannsóknir að Íslendingar séu að mestu leyti komnir af Norðmönnum líkt og segir í fornum ritum?“. Vísindavefurinn 4. desember 2000. http://visindavefur.is/?id=1213. (Skoðað 7. maí 2010).
  • Axel Kristinsson. „Eru til áþreifanlegar sannanir fyrir veru Papa á Íslandi fyrir landnám norrænna manna?“. Vísindavefurinn 22. júní. 2001. http://visindavefur.is/?id=1732. (Skoðað 7. maí 2010).
  • Björn Þorsteinsson: Íslensk miðaldasaga, 2. útg., (Reykjavík: Sögufélagið, 1980).
  • Gísli Gunnarsson. „Hvers vegna hefur Náttfara ekki verið hampað sem fyrsta landnámsmanninum?“. Vísindavefurinn 18. september 2000. http://visindavefur.is/?id=920. (Skoðað 7. maí 2010).
  • Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602–1787 (Reykjavík, Örn og Örlygur, 1987).
  • Gunnar Karlsson. „Hvernig og af hverju skiptist Íslandssagan niður í tímabil?“. Vísindavefurinn 20. janúar 2004. http://visindavefur.is/?id=3957. (Skoðað 7. maí 2010).
  • Sigurður Líndal (ritstj.), Saga Íslands I-VII (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1975–2004).
  • Sverrir Jakobsson. „Hve lengi var haldið þing á Þórsnesi á Snæfellsnesi?“. Vísindavefurinn 17. apríl 2001. http://visindavefur.is/?id=1504. (Skoðað 7. maí 2010).

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta
  NODES