Skapandi greinar
Skapandi greinar er hugtak sem er algengt að nota þegar rætt er um efnahagsleg áhrif listgreina, eins og kvikmyndagerðar, myndlistar, byggingarlistar, fjölmiðlunar, tónlistar o.s.frv. Hugtakið komst á flug snemma á 21. öld í samhengi vaxandi markaðar á Internetinu og umræðu um þekkingarhagkerfið, þar sem listsköpun var talin lykilþáttur. Áður var hugtakið menningariðnaður oft notað til að lýsa fjöldaframleiðslu afþreyingarefnis, en þá gjarnan með neikvæðum undirtón í samhengi við menningarlega heimsvaldastefnu bandarískra stórfyrirtækja.
Það getur verið mjög mismunandi eftir löndum og samhengi hvaða greinar teljast til skapandi greina, en algengt er að telja bókaútgáfu, auglýsingar, fjölmiðlun, kvikmyndagerð, byggingarlist, tölvuleikjahönnun, fatahönnun, söfn, tónlistarframleiðslu og -flutning, leikhús og aðrar sviðslistir. Stundum eru aðrar greinar ferðaþjónustu, veitingahúsageirinn og leikfangaframleiðsla líka talin með. Samkvæmt íslensku rannsóknarsetri skapandi greina sem var stofnað árið 2023 eru lykilgreinarnar tölvuleikjagerð, tónlist, sviðslistir, myndlist, menningararfur, listnám, kvikmyndir og sjónvarp, hönnun og arkitektúr, bókmenntir, auglýsingastofur, fjölmiðlar og prentun.[1] Rekstraraðilar í þessum greinum á Íslandi árið 2022 voru rúmlega 5000, starfsmenn um 15.000 og velta um 126 milljarðar, mest í framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis. Áætluð útflutningsverðmæti þjónustuútflutnings voru um 20 milljarðar.
Tilvísanir
breyta- ↑ Rannsóknarsetur skapandi greina (2024). „Lykiltölur um menningu og skapandi greinar“ (PDF).