Stefán Baldvin Stefánsson

Stefán Baldvin Stefánsson (29. júní 186325. maí 1925) var bóndi og hreppstjóri í Fagraskógi á Galmaströnd við Eyjafjörð og alþingismaður Eyfirðinga í tvo fyrstu áratugi tuttugustu aldar á mótunarárum íslenskra stjórnmála.

Stefán Baldvin hreppstjóri og alþingismaður Fagraskógi við Eyjafjörð naut mikils trúnaðar sveitunga og sýslunga.

Stefán Baldvin var fæddur á Kvíabekk í Ólafsfirði 29. júní 1863. Hann var einn vetur við námi við Möðruvallaskóla og búfræðiprófi frá Eiðum lauk hann árið 1885. Hann var bóndi í Fagraskógi á Galmaströnd frá 1890 til æviloka. Hann var oddviti Arnarneshrepps um langt skeið, hreppstjóri frá 1904 til æviloka. Hann var alþingismaður Eyfirðinga 1900—1902 og 1904—1923. Hann var þingmaður á mótunarárum íslenskra stjórnmála. Hann var í Heimastjórnarflokknum, Sambandsflokknum, Bændaflokknum eldri, Heimastjórnarflokknum, í Framsóknarflokknum og síðast utan flokka. Tæpra 62 ára lést hann úr lungnabólgu á Hjalteyri 25. maí 1925.

Foreldrar og uppeldi

breyta

Stefán Baldvin var fæddur að Kvíabekk í Ólafsfirði þann 29. júní 1863. Foreldrar hans voru þau síra Stefán Árnason (f. 15. júlí 1807, d. 17. júní 1890), er þá var þar prestur, og síðari kona hans Guðrún Jónsdóttir (f. 29. maí 1821, d. 5. mars 1878) húsmóður frá Brúnastöðum í Fljótum, en hún var áður gift Baldvin Magnússyni frá Siglunesi.

Árið 1871 fluttist Stefán Baldvin með foreldrum sínum að Hálsi i Fnjóskadal þar faðir hans varð prestur. Hann ólst þar upp, þar til haustið 1882, að hann fór á Möðruvallaskólann; en sökum þess að piltar gerðu samtök um að koma ekki í skólann árið eftir, vegna óánægju við bóndann á Möðruvöllum út af fæðissölunni, var hann þar ekki nema einn vetur.

Árið 1883 fór Stefán á búnaðarskólann á Eiðum, og útskrifaðist þaðan vorið 1885.

 
Ragnheiður Davíðsdóttir giftist Stefáni Baldvin þegar jörð tók að grænka á Galmaströnd, þann 5. júní 1890.

Lögrétta segir Stefán hafa verið „gerfilegan mann“, fríðan, vel vaxinn og karlmenni að burðum; glaðlyndan og félagslyndan.

Ragnheiður Davíðsdóttir

breyta

Stefán Baldvin kvæntist 5. júní 1890 Ragnheiði Davíðsdóttur (f. 23. nóv. 1864, d. 29. okt. 1937) húsmóðir. Foreldrar hennar voru séra Davíð Guðmundsson alþingismaður og „dannebrogsmanns“ kona hans Sigríður Ólafsdóttir Briem, dóttir Ólafs Briems þfm. Ungu hjónin voru vondjörf og hraust og settu bú í Fagraskógi er hann hafði þá keypt. Þar er skammt til sjávar og gagn af útræði. Þau bjuggu þar rausnarbúi allt til dauðadags. Skömmu fyrir aldamót var búið orðið með miklum blóma.

Forystumaður í Eyjafirði

breyta

Stefán Baldvin var framúrskarandi dugnaðar- og atorkumaður og bar býlið Fagriskógur vel þess vitni; hann sléttaði og stækkaði tún og girti, þannig að þau gáfu 3—4 sinnum meiri töðu af sér en í upphafi búskapar þeirra hjóna. Hann hélt þar myndarbú ásamt Ragnheiði og bjuggu þau alltaf við góð efni.

Í Fagraskógi var margt sauðfjár á út-eyfirskan mælikvarða. Þar var einnig stunduð sjósókn og átti Stefán Baldvin bæði sexæring og fjórróið far.

Árið 1895 galt Stefán mest til almannaþarfa allra bænda í Arnarneshreppi.

Börn Stefáns og Ragnheiðar

breyta

Þau hjón Stefán Baldvin og Ragnheiður eignuðust sjö börn, alin á mjólk og sauðakjöti, fiski sjódregnum og þar með lifur og lýsi. Fyrst fæddust meyjar þrjár með skömmu millibili og síðar fjórir sveinar. Í tímaritinu Óðni segir 1926 þau séu „öll mjög vel gefin og mannvænleg börn.“ Þau voru: Þóra Stefánsdóttir (1891), Sigríður Stefánsdóttir (1892), Guðrún Stefánsdóttir (1893), Davíð Stefánsson þjóðskáld (1895), Stefán Stefánsson alþingismaður(1896), Valgarður Stefánsson (1898), Valdimar Stefánsson saksóknari (1910).

Trúnaðarstöður og þingmennska

breyta

Stefán Baldvin naut mikils trúnaðar sveitunga og sýslunga.

Á tíunda hjúskaparári þeirra Ragnheiðar var hann kosinn á þing, en þar átti hann um það bil tvítuga setu, þó ekki óslitna. Hann varð alþingismaður Eyfirðinga 1900—1902 og 1904—1923. Hann var þingmaður á mótunarárum íslenskra stjórnmála. Hann var í Heimastjórnarflokknum, Sambandsflokknum, Bændaflokknum eldri, Heimastjórnarflokknum, Framsóknarflokknum og síðast utan flokka.

Í tímaritinu Óðni árið 1926 segir:

„Svo mátti heita að Stefán ... væri sístarfandi fyrir aðra, því fjöldamargir komu heim til hans með vandamál sín, og fengu þá góð ráð og hjálp eftir því sem við átti og hægt var, og fjöldamörg opinber störf hafði hann á hendi um æfina. Þingmaður var hann 1901—1902 og svo aftur 1905, og altaf síðan til haustsins 1923. — Að hann fjell við þær kosningar má fremur telja tilviljun eina, því honum voru greidd fleiri atkvæði en keppinaut hans, en hin svokölluðu ógildu atkvæði voru honum dæmd svo mörg, að hann fjell þess vegna. Hann var vinsæll þingmaður, og hjeraðsbúar hans vissu að þeir máttu vel treysta á góðan framgang þeirra mála, er hann tók að sjer að flytja á alþingi, og var það mjög á orði haft, hve honum gengi vel að hafa fram áhugamál sín. Afstaða hans til stærri þingmála var alla jafna heppileg.“

Vísir sagði um þetta í nóvember 1923: „Kosningin er talin stórgölluð og verður vafalaust kærð til Alþingis“. Það gekk ekki eftir.

Stefán Balvin var fulltrúi bænda á þingi, þótti framfarasinnaður um margt. Hann var af gagnrýnendum talinn íhaldssamur og fylgjandi takmörkuðum afskiptum ríkisvaldsins af málefnum atvinuveganna. Hann var gagnrýndur af „jafnaðarmönnum" og síðar af Framsóknarflokknum, enda með skamma viðdvöl í þeim flokki. Hann var áhugamaður um menntamálefni. Stefán Baldvin fylgdi Heimastjórnarflokknum líkt og sveitungi hans Hannes Hafstein.

Stefán Baldvin var hreppsnefndaroddviti Arnarneshrepps kosinn frá upphafi síns búskap. Hreppstjóri varð hann 1904. Sýslunefndarmaður varð hann litlu síðar. Hann var hann formaður „Framfarafjelags Arnarneshrepps“ og formaður Sparisjóðs Arnarneshrepps.

Heimildir

breyta
  NODES
languages 1
os 7