Barn

(Endurbeint frá Stelpa)

Barn er ófullvaxinn einstaklingur, og er orðið yfirleitt aðeins notað um ófullvaxna menn. Yfirleitt er æviskeiði manna þannig skipt í tvennt, þannig að einstaklingurinn telst vera barn þar til hann er orðinn fullvaxinn, og telst hann þá fullorðinn. Þó er til í dæminu að rætt sé um að unglingar séu þeir einstaklingar sem eru ekki lengur börn, en eru þó ekki orðnir fullorðnir.

Tvær ungar stúlkur

Ekki er til nein ákveðin skilgreining á því hvenær menn hætta að teljast börn, og fer það að miklu leyti eftir samfélögum. Á Íslandi teljast allir einstaklingar undir 18 ára aldri vera börn, en sums staðar myndu einstaklingar allt niður í 14 ára aldur teljast fullorðnir. Karlkyns barn nefnist strákur eða drengur, en kvenkyns barn stelpa eða stúlka.

Barn sem afkvæmi

breyta

Í íslensku er orðið barn einnig notað til að lýsa því að tiltekinn einstaklingur sé afkvæmi annars einstaklings, annaðhvort karlkyns sonur hans eða kvenkyns dóttir. Þegar orðið er notað í þeim skilningi er ekki alltaf um sérstaka aldursskiptingu að ræða, þótt oftast sé orðið einnig notað um ófullvaxta einstaklinga þegar það er notað í þessari merkingu.

 
Ungbarn

Ungbarn, kornabarn, hvítvoðungur eða smábarn, er mjög ungt barn, yfirleitt ekki eldra en eins til tveggja ára gamalt. Enska orðið „infant“, sem oft er notað í svipuðum skilningi, er komið af latneska orðinu infans: „getur ekki talað“, og er sú merking í samræmi við þann skilning að þegar börn hafi lært að tala séu þau ekki lengur ungbörn.

Orðið barn

breyta

Íslenska nafnorðið barn kemur af 2. kennimynd sagnarinnar að bera, en hún fer eftir 4. hljóðskiptaröð: bera-bar-bárum-borið. Samsvarandi orð um afkvæmi mannsins eru í mörgum náskyldum málum. Gotneska var að þessu leyti alveg eins og íslenska og önnur Norðurlandamál, en í ensku hefur samsvarandi orð týnst. Í máli Hjaltlendinga var barn bjadni (orðið til úr barnit, segir Jan de Vries), og minnir á þann framburð sem tíðkaðist víða hér á landi. Skaftfellingar segja sumir barnið með rödduðu r-i og löngu a-i. Af 4. kennimynd sagnarinnar að bera, sem í forneskju hafði stofnsérhljóðið u, kemur nafnorðið bur = sonur, sömuleiðis buri eins og í tvíburi og þríburi. Orðið nýburi er einnig af þessum meiði, en fyrir eru til jóð eða ungbarn sem merkja það sama.

Tengt efni

breyta
  NODES
Done 1