Sturlungaöld

ófriðartímabil í Íslandssögunni (1152-1262)
Saga Íslands

Eftir tímabilum

Miðaldir á Íslandi
Nýöld á Íslandi
Nútíminn á Íslandi

Eftir umfjöllunarefni

Sturlungaöld er tímabil í sögu Íslands sem er venjulega talið ná frá 1220 þegar Snorri Sturluson kom út til Íslands frá Noregi og hóf mikla eignasöfnun, til 1262 þegar Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd með Gamla sáttmála.[1] Tímabilið er kennt við Sturlunga, þá ætt sem var mest áberandi framan af. Það einkenndist af miklum átökum milli helstu höfðingjaætta Íslands um eignir og völd svo sumir höfundar hafa jafnvel gengið svo langt að tala um borgarastyrjöld í því samhengi.

Bakgrunnur

breyta

Þegar leið á 12. öld fór stöðugleiki og grunnur íslenska samfélagsins, sem byggðist á jafnvægi milli höfðingja, að raskast. Goðorð erfðust og gengu kaupum og sölum og völdin söfnuðust á færri hendur en áður. Þessi þróun hófst í Skagafirði og Árnesþingi og er hugsanlegt að stofnun biskupsstóla í þessum héröðum hafi haft einhver áhrif á það. Segja má að Ísland hafi smátt og smátt orðið samsafn laustengdra borgríkja, þó án skýrra landfræðilegra marka.

Bændur og búalið neyddust til að beygja sig undir vald stórbænda, sem seildust eftir æ meiri völdum. Um leið lenti höfðingjum æ oftar saman og átökin urðu víðtækari. Í erjum og orrustum sögualdar höfðu bardagamenn hverju sinni yfirleitt ekki verið nema nokkrir tugir en á Sturlungaöld voru háðar stórorrustur á íslenskan mælikvarða, þar sem hundruð eða jafnvel þúsundir manna börðust. Ýmiss konar bandalög urðu til og griðrof og svik urðu algeng.

Aðdragandi

breyta

Sturlungaöld er kennd við Sturlu og afkomendur hans, Sturlunga, sem framan af áttu heimkynni á Vesturlandi, en aðrar helstu ættir Sturlungaaldar voru Haukdælir í Árnesþingi, Oddaverjar í Rangárþingi, Svínfellingar á Austurlandi og Ásbirningar í Skagafirði, auk þess sem Skarðverjar, Vatnsfirðingar og Seldælir á Vestfjörðum eru oft nefndir til.[2]

 
Guðmundur biskup Arason kom mjög við sögu á fyrri hluta Sturlungaaldar.

Hin eiginlega Sturlungaöld er raunar ekki talin hefjast fyrr en um 1220 en ræturnar liggja þó lengra aftur og segja má að fyrsta vísbendingin um rósturnar sem í vændum voru megi sjá í deilum Hvamm-Sturlu Þórðarsonar við Pál Sölvason um 1180. Sturla var höfðingi á uppleið sem ætlaði sér stóra hluti og lét ekki hlut sinn fyrir neinum. Hann þótti sýna mikla óbilgirni í deilum sínum við Pál en þeim lauk með því að Jón Loftsson í Odda, leiðtogi Oddaverja og mikill sáttasemjari, úrskurðaði í málum þeirra og bauðst um leið til að fóstra Snorra, yngsta son Sturlu.

Rétt eftir aldamótin 1200 lét svo Ásbirningahöfðinginn Kolbeinn Tumason kjósa Guðmund Arason til biskups á Hólum og taldi að hann yrði sér leiðitamur en það var öðru nær. Með þeim varð brátt fullur fjandskapur sem lauk með falli Kolbeins í Víðinesbardaga 1208. Ættmenn hans héldu þó áfram fjandskap við biskup og var hann á stöðugum hrakningi um landið og til útlanda næstu áratugi. Einnig má nefna víg Hrafns Sveinbjarnarsonar (1213), sem dró langan hefndarhala á eftir sér.

Snorri og Sturlungar

breyta
 
Snorralaug í Reykholti.

Hvamm-Sturla átti þrjá syni; Þórð, Sighvat og Snorra, sem allir urðu valdamiklir goðorðsmenn, Þórður á Snæfellsnesi, Snorri í Borgarfirði og Sighvatur fyrst í Dölum og síðar í Eyjafirði. Þeir voru mjög áberandi í átökum Sturlungaaldar, einkum Snorri og Sighvatur, ásamt Sturlu og Þórði kakala, sonum Sighvats og Kolbeini unga, leiðtoga Ásbirninga og Gissuri Þorvaldssyni, foringja Haukdæla. Kolbeinn og Gissur voru báðir tengdasynir Snorra um tíma.

Snorri var í Noregi á árunum 1218-1220, gerðist þar handgenginn Skúla jarli Bárðarsyni og tókst á hendur það hlutverk að gera Ísland að skattlandi Noregs. Upphaf Sturlungaaldar er gjarna miðað við heimkomu Snorra til Íslands 1220 en hann aðhafðist þó fátt til að sinna hlutverki sínu næstu árin, heldur stundaði ritstörf og er talið að hann hafi skrifað sín helstu stórvirki á þeim árum.

Sighvatur og Sturla

breyta

Nóg var þó um átök: Sighvatur Sturluson og Sturla sonur hans fóru í Grímseyjarför 1222 til að hefna fyrir víg Tuma Sighvatssonar, sem fylgismenn Guðmundar Arasonar biskups höfðu drepið en biskup hafði svo flúið til Grímseyjar. Björn bróðir Gissurar Þorvaldssonar var drepinn á Breiðabólstað í Fljótshlíð 1221 af Oddaverjum.

 
Maríukirkjan í Róm, Santa Maria Maggiore, ein af fjórum höfuðkirkjum borgarinnar.

Synir Hrafns Sveinbjarnarsonar brenndu Þorvald Vatnsfirðing, tengdasonar Snorra Sturlusonar, inni árið 1228 til að hefna fyrir föður sinn og synir Þorvaldar reyndu svo að hefna hans í Sauðafellsför 1229 en voru sjálfir felldir nokkrum árum síðar.[3] Eftir lát þeirra settist Órækja sonur Snorra að á Vestfjörðum og var yfirgangssamur mjög.

Sturla Sighvatsson fór í suðurgöngu til Rómar árið 1233 til að gera yfirbót fyrir sig og föður sinn vegna illrar meðferðar á Guðmundi Arasyni biskupi í Grímseyjarför og var þar leiddur fáklæddur á milli höfuðkirkja borgarinnar og hýddur fyrir framan þær. Á heimleið kom hann við í Noregi og var þá falið af Hákoni konungi að taka að sér það verk sem Snorri hafði ekki sinnt, sem sé að koma Íslandi undir konung. Sturla lét þegar til sín taka þegar heim kom, hóf þegar að auka við veldi sitt og tókst meðal annars að hrekja Snorra föðurbróður sinn og Þorleif Þórðarson frænda sinn úr landi eftir Bæjarbardaga 1237. Órækju hafði hann áður reynt að blinda og gelda og síðan rekið hann úr landi.

Örlygsstaðabardagi og dauði Snorra

breyta
 
Snorri Sturluson. Teikning eftir Christian Krogh.

Sturla lagði svo til atlögu við Gissur Þorvaldsson 1238 og tókst að ná honum á sitt vald í Apavatnsför og lét hann sverja sér hollustueið en sleppti honum svo. Gissur taldi sig ekki bundinn af nauðungareiðum. Þeir Kolbeinn ungi tóku höndum saman og í Örlygsstaðabardaga í Skagafirði, fjölmennasta bardaga sem háður hefur verið á Íslandi, féllu feðgarnir Sighvatur og Sturla, svo og fjórir aðrir synir Sighvats.

Síðan tóku Gissur og Kolbeinn á sitt vald Eyjafjörð, Þingeyjarsýslu og Vesturland, þar sem Sturlungar hðfðu áður ráðið öllu. Voru þeir valdamestu menn landsins næstu árin en Svínfellingar réðu Austur- og Suðausturlandi og Seldælir hluta af Vestfjörðum.

Snorri var í Noregi og var handgenginn Skúla jarli en þar höfðu orðið umskipti því Skúli jarl og Hákon konungur voru orðnir ósáttir. Eftir að fréttir bárust til Noregs af óförum Sturlunga í Örlygsstaðabardaga og dauða Sighvatar og sona hans vildi Snorri snúa heim en konungur bannaði það. „Út vil ek,“ sagði Snorri og fór heim sumarið 1239 þrátt fyrir bann konungs. Var sagt að Skúli hefði sæmt hann jarlsnafnbót en engar heimildir eru til sem sanna það.

Stuttu síðar, í nóvember 1239 gerði Skúli jarl misheppnaða uppreisn gegn Hákoni konungi, sem lauk með því að Skúli var veginn vorið eftir. Konungur taldi Snorra landráðamann við sig vegna vináttunnar við Skúla og sendi Gissuri Þorvaldssyni boð um að flytja hann til Noregs eða drepa hann ella. Gissur fór að Snorra í Reykholti og lét drepa hann þar haustið 1241. Var það Árni beiskur, liðsmaður Gissurar, sem greiddi honum banahöggið.

Flóabardagi, Haugsnesbardagi og Flugumýrarbrenna

breyta

Þórður kakali, sonur Sighvats Sturlusonar, hafði verið í Noregi en sneri heim 1242 og á næstu árum tókst honum með skæruhernaði gegn Kolbeini unga, sem hafði lagt undir sig allt veldi föður hans og bræðra, að efla styrk sinn. Hápunktur þeirra átaka var Flóabardagi, eina sjóorrusta Íslandssögunnar, árið 1244. Kolbeinn lést ári síðar og gaf í banalegunni Þórði eftir veldi föður hans í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu.

Þórður felldi svo frænda Kolbeins og arftaka, Brand Kolbeinsson, í Haugsnesbardaga árið 1246. Hann réði eftir það öllu Norðurlandi og frá 1247-1250 var hann valdamesti maður landsins því konungur hafði kyrrsett Gissur Þorvaldsson í Noregi. En árið 1250 kallaði konungur Þórð til Noregs og kyrrsetti hann en Gissur kom heim 1252.

Gissur vildi sættast við Sturlunga og samið var um giftingu Halls sonar hans og Ingibjargar dóttur Sturlu Þórðarsonar og var brúðkaup þeirra haldið á Flugumýri haustið 1253, en óvinir Gissurar undir forystu Eyjólfs ofsa, sem var giftur dóttur Sturlu Sighvatssonar, reyndu að brenna Gissur inni í Flugumýrarbrennu en tókst ekki, þótt kona hans og synir létust í brennunni.

Áframhaldandi átök

breyta
 
Gamli sáttmáli.

Næstu árin gekk á með skærum og bardögum, vígum og níðingsverkum. Gissur fór til Noregs og setti hinn unga höfðingja Odd Þórarinsson af ætt Svínfellinga yfir ríki sitt á meðan en Eyjólfur ofsi og Hrafn Oddsson, sem giftur var annarri dóttur Gissurar, fóru að honum í Geldingaholti í Skagafirði í janúar 1255 og drápu hann. Um sumarið börðust svo Þorvarður Þórarinsson, bróðir Odds, og Þorgils skarði, sonarsonur Þórðar Sturlusonar, við Eyjólf ofsa í Þverárbardaga og felldu hann.

Landsmenn voru orðnir mjög þreyttir á átökum höfðingja og sögðu jafnvel að þeir vildu helst engan höfðingja hafa yfir sér. Þórður kakali lést í Noregi 1256. Gissur kom heim með jarlsnafnbót sem konungur hafði veitt honum en hún dugði honum lítið. Þorgils skarði var drepinn 1258, síðastur af hinum herskáu leiðtogum Sturlunga, en föðurbróðir hans, Sturla Þórðarson sagnaritari, lifði eftir og skráði sögu Sturlungaaldar.

Gamli sáttmáli

breyta

Loks kom þar 1262 að Íslendingar samþykktu að ganga Noregskonungi á hönd og þar með lauk þjóðveldistímanum. Um leið sættust þeir Gissur og Hrafn Oddsson, sem þá var helstur andstæðinga hans. Austfirðingar samþykktu raunar ekki að verða þegnar Noregskonungs fyrr en 1264 en þó er alltaf miðað við 1262. Samningurinn sem þá var gerður hefur gengið undir nafninu Gamli sáttmáli og eru elstu varðveittu handrit hans frá 15. öld.

Á síðustu árum hefur komið fram sú kenning að Gamli sáttmáli, að minnsta kosti í þeirri mynd sem hann hefur varðveist, sé alls ekki frá 13. öld, heldur hafi hann verið saminn á 15. öld til að styrkja málstað íslenskra höfðingja vegna ágreinings um verslun við Noregskonung.[4]

Tilvísanir

breyta
  1. Skúli Sæland. „Hvað var Sturlungaöld?“. Vísindavefurinn 28.7.2004. http://visindavefur.is/?id=4429. (Skoðað 20.5.2009).
  2. Skúli Sæland. „Hvað var Sturlungaöld?“. Vísindavefurinn 28.7.2004. http://visindavefur.is/?id=4429. (Skoðað 7.5.2010).
  3. J. Grove „Skaldic verse-making in thirteenth-century Iceland: the case of the Saudafellsferdarvisur. Viking and Medieval Scandinavia 4 (2008), 85-131“.
  4. „Mín köllun er að kynna íslenzkar miðaldir. Lesbók Morgunblaðsins 25. júní 2005“.

Tenglar

breyta
  NODES