Theobald von Bethmann-Hollweg

Kanslari Þýskalands (1856-1921)

Theobald Theodor Friedrich Alfred von Bethmann-Hollweg (29. nóvember 1856 – 1. janúar 1921) var þýskur stjórnmálamaður sem var kanslari þýska keisaraveldisins frá 1909 til 1917. Sem kanslari beitti Bethmann-Hollweg sér fyrir bættu sambandi Þjóðverja við Breta en honum tókst þó ekki að koma í veg fyrir að ríkin tvö lentu í stríði þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út árið 1914. Þegar leið á styrjöldina sviptu Vilhjálmur 2. Þýskalandskeisari og síðar hershöfðingjarnir Paul von Hindenburg og Erich Ludendorff Bethmann-Hollweg og borgaralega ríkisstjórn hans flestum völdum. Svo fór að árið 1917 kröfðust Hindenburg og Ludendorff, sem þá höfðu tekið við flestum völdum í Þýskalandi, afsagnar Bethmann-Hollweg úr kanslaraembættinu.

Theobald von Bethmann-Hollweg
Bethmann-Hollweg árið 1914.
Kanslari Þýskalands
Í embætti
14. júní 1909 – 13. júlí 1917
ÞjóðhöfðingiVilhjálmur 2.
ForveriBernhard von Bülow
EftirmaðurGeorg Michaelis
Persónulegar upplýsingar
Fæddur29. nóvember 1856
Hohenfinow, Prússlandi
Látinn1. janúar 1921 (64 ára)
MakiMartha von Pfuel
StarfStjórnmálamaður
Undirskrift

Æviágrip

breyta

Theobald von Bethmann-Hollweg fæddist í bænum Hohenfinow í Brandenborg til prússneskrar aðalsfjölskyldu. Hann gekk í heimavistarskóla í Pforta og í háskólana í Strassborg, Leipzig og Berlín. Hann gekk í prússnesku stjórnsýsluna árið 1882 og varð forseti Brandenborgarsýslu árið 1899. Hann var innanríkisráðherra Prússlands frá 1905 til 1907 og innanríkisráðherra þýska keisaraveldisins frá 1907 til 1909. Þegar kanslarinn Bernhard von Bülow sagði af sér árið 1909 var Bethmann-Hollweg útnefndur til að taka við af honum.[1]

Sem kanslari reyndi Bethmann-Hollweg að bæta samskiptin við Bretland og hægja á hafvígbúnaðarkapphlaupi ríkjanna. Honum tókst ekki að bæta samband ríkjanna að ráði, ekki síst vegna andstöðu þýska flotaforingjans Alfreds von Tirpitz gegn áætlunum kanslarans. Eftir að Frans Ferdinand erkihertogi var myrtur í Sarajevó þann 28. júní 1914 átti Bethmann-Hollweg þátt í því að lofa Austurríkismönnum skilyrðislausum stuðningi Þjóðverja í stríði við Serbíu. Utanríkisráðherra Bretlands, Sir Edward Grey, hafði boðist til að gerast milliliður í friðarviðræðum Serba og Austurríkismanna í kjölfar morðsins en Bethmann-Hollweg vildi ólmur að Austurríkismenn færu í stríð gegn Serbíu. Því gerði hann breytingar á bréfum Grey til þýsku ríkisstjórnarinnar og strokaði út setningu þar sem Grey ráðlagði Þjóðverjum að koma í veg fyrir að Austurríkismenn tækju „glannalega stefnu“ gegn Serbum.[2]

Austurríkismenn lýstu yfir stríði gegn Serbum þann 28. júlí 1914. Í kjölfarið bjuggust Rússar til þess að fara í stríð gegn Austurríki til að hjálpa Serbum og Þjóðverjar lýstu síðan yfir stríði gegn Rússum og bandamönnum þeirra í Frakklandi. Í samræmi við Schlieffen-áætlunina réðust Þjóðverjar á Frakkland í gegnum Belgíu, en með þessu rufu þeir samning sem gerður hafði verið við Bretland um hlutleysi Belgíu og Bretar lýstu í kjölfarið yfir stríði gegn Þjóðverjum. Bethmann-Hollweg, sem hafði lengi reynt að vingast við Breta, sagðist gáttaður yfir því að þeir skyldu fara í stríð gegn Þýskalandi út af „pappírssnifsi“ (ein fetzen Papier).[3]

Eftir því sem stríðið dróst á langinn færðust æ meiri völd úr höndum ríkisstjórnarinnar til miðstjórnar hersins. Bethmann-Hollweg lenti upp á kant við yfirmenn hersins, hershöfðingjana Paul von Hindenburg og Erich Ludendorff, sérstaklega vegna mótmæla sinna gegn notkun óhamins kafbátahernaðar á Atlantshafi. Svo fór að þann 12. júlí 1917 kröfðust Hindenburg og Ludendorff afsagnar kanslarans við Vilhjálm keisara.[4] Bethmann-Hollweg neyddist til að segja af sér þann 13. júlí.

Tilvísanir

breyta
  1. „Kanslaraskiptin á Þýskalandi, v. Bülow – v. Bethmann-Hollweg“. Ísafold. 28. júlí 1909. Sótt 6. júní 2018.
  2. Fritz Fischer: Griff nach der Weltmacht: Die Kriegzielpolitik des kaiserlichen Deutschland 1914–1918. Frankfurt am Main 1961, bls. 71.
  3. Theobald von Bethmann Hollweg: Betrachtungen zum Weltkriege. 2. Teil: Während des Krieges. Berlín 1921, bls. 180.
  4. Franz Sontag, Deutsche Reichspolitik seit 14. Juli 1909., 1916; Eberhard von Vietsch, Bethmann Hollweg. Staatsmann zwischen Macht und Ethos (= Schriften des Bundesarchivs, t. 18, Boppard, Boldt, 1969.


Fyrirrennari:
Bernhard von Bülow
Kanslari Þýskalands
(14. júní 190913. júlí 1917)
Eftirmaður:
Georg Michaelis


  NODES