Tomáš Masaryk

Forseti Tékkóslóvakíu (1850-1937)

Tomáš Garrigue Masaryk (7. mars 1850 – 14. september 1937) var tékkóslóvakískur stjórnmálamaður og heimspekingur sem var fyrsti forseti Tékkóslóvakíu frá 1918 til 1935. Hann er gjarnan álitinn stofnfaðir Tékkóslóvakíu.

Tomáš Masaryk
Masaryk árið 1925.
Forseti Tékkóslóvakíu
Í embætti
14. nóvember 1918 – 14. desember 1935
Forsætisráðherra
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurEdvard Beneš
Persónulegar upplýsingar
Fæddur7. mars 1850
Hodonín, Mæri, austurríska keisaradæminu
Látinn14. september 1937 (87 ára) Lány, Tékkóslóvakíu
ÞjóðerniTékkóslóvakískur
StjórnmálaflokkurRaunsæisflokkurinn
MakiCharlotte Garrigue (g. 1878; d. 1923)
Börn5
HáskóliVínarháskóli
Undirskrift

Æviágrip

breyta

Tomáš Masaryk fæddist árið 1850 í Hodonin í Mæri, sem þá var innan austurrísk-ungverska keisaradæmisins. Faðir hans var Slóvaki og vann fyrir sér sem ekill en móðir hans var tékknesk og af þýskum ættum. Masaryk var á barnsaldri sendur í járnsmíðanám en honum féll það illa og tókst þegar hann var 15 ára gamall að ná inngöngu í latínuskólann í Brno. Að loknu námi í Brno flutti hann til Vínar og hóf nám við Vínarháskóla árið 1872. Hann nam þar heimspeki, latínu og grísku og lagði áherslu á heimspeki Platós. Masaryk tók doktorspróf í heimspeki árið 1877 með ritgerðinni „Sálarlíf Platós“.[1]

Eftir doktorsnám sitt ferðaðist Masaryk til Leipzig til að hlýða á fyrirlestra. Hann snerist þar til mótmælendatrúar eftir að hafa íhugað afstöðu mótmælenda til heimspekinnar sem hann hafði stundað. Í Leipzig kynntist Masaryk bandarískri konu að nafni Charlotte Garrigue og kvæntist henni árið 1878.[1]

Árið 1881 gaf Masaryk út bókina Sjálfsmorðafjöldin og nútímamenningin, sem gerði hann frægan. Hann hlaut kennarastöðu við Vínarháskóla og kenndi jafnframt utan skóla. Þegar Háskólinn í Prag var stofnaður árið 1882 varð Masaryk prófessor þar.[1]

Á næstu áratugum vann Masaryk sem kennari og fræðimaður í Prag og skrifaði fjölda bóka, aðallega um heimspeki og trúfræði. Um þetta leyti varð Masaryk jafnframt helsti leiðtogi tékkóslóvakísku sjálfstæðishreyfingarinnar.[1] Í þjóðernispólitískum skrifum sínum lagði Masaryk áherslu á að tímabil hússíta frá fimmtándu öld fram á sautjándu öld hefði verið gullöld tékknesku þjóðarinnar. Á þeim tíma hefðu Tékkar verið frumkvöðlar í hugmyndum um frelsi mannsins, jafnrétti og bræðralag. Masaryk lagði áherslu á að hnignunartímabil hefði hafist þegar tékkneskir aðalsmenn báðu ósigur gegn her Habsborgara í orrustunni við Hvítafjall árið 1620.[2]

Masaryk komst upp á kant við suma tékkneska þjóðernissinna þegar hann færði rök fyrir því að Königshofer-handritið svokallaða, sem margir Tékkar álitu eins konar þjóðlegan helgidóm, væri falsað. Masaryk hafði jafnframt afskipti af Hilsner-málinu, þar sem Gyðingur að nafni Leopold Hilsner hafði verið ranglega sakaður um morð. Þrátt fyrir að þekkja ekki manninn kynnti Masaryk sér málið og komst að þeirri niðurstöðu að Hilsner væri saklaus og hefði verið sakaður vegna Gyðingahaturs.[3]

Þegar fyrri heimsstyrjöldin hófst árið 1914 flúði Masaryk úr landi og reyndi að vinna stuðning fyrir sjálfstæði Tékkóslóvakíu meðal andstæðinga Austurríkis í styrjöldinni. Hann fór til Englands og var þar ráðinn sem prófessor í slavneskum fræðum við King's College London. Á stríðsárunum ferðaðist hann mikið á milli Bretlands og Frakklands og til Bandaríkjanna og Sviss til að tala máli Tékkóslóvakíu. Masaryk tókst að fá ákveðin vilyrði bandamanna um að Tékkóslóvakía yrði sjálfstætt ríki ef bandamenn ynnu stríðið.[1]

Eftir sigur bandamanna í stríðinu sneri Masaryk aftur til Prag þann 21. desember 1918 og varð forseti Tékkóslóvakíu í bráðabirgðastjórn sem Tékkóslóvakar höfðu myndað eftir sjálfstæðisyfirlýsingu sína fyrr sama ár. Tékkóslóvakía samþykkti fyrstu stjórnarskrá sína árið 1920 og var Masaryk þá kjörinn forseti á ný.[1] Kjörtímabil forsetans var sjö ár en lítil samkeppni var við Masaryk meðan hann sóttist eftir embættinu.[3] Hann varð sameiningartákn og vinsæll landsfaðir meðal Tékkóslóvaka á meðan hann gegndi forsetaembættinu.[4]

Á stjórnartíð Masaryks varð Tékkóslóvakíu áfangastaður margra flóttamanna sem flúðu ofsóknir vegna pólitískra skoðana frá öðrum Evrópuríkjum. Masaryk gegndi forsetaembættinu til ársins 1935, þegar hann var 85 ára gamall.[5]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 „Tómas Masaryk“. Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags. 1. janúar 1933. bls. 25-29.
  2. Sigríður Matthíasdóttir (1. janúar 1998). „Endurreisn lýðræðisins: Þjóðernisgoðsagnir Íslendinga og Tékka“. Ný saga. bls. 65-69.
  3. 3,0 3,1 „Æfintýrið um Masaryk“. Fálkinn. 30. júní 1934. bls. 4-5.
  4. Dag Halvorsen (31. október 1968). „Tomas Masaryk Stofnandi Tékkóslóvakíu“. Alþýðublaðið. bls. 3.
  5. „Masaryk, frelsisforseti Tékkoslovakíu“. Sunnudagsblað Alþýðublaðsins. 5. janúar 1936. bls. 1.


Fyrirrennari:
Fyrstur í embætti
Forseti Tékkóslóvakíu
(14. nóvember 191814. desember 1935)
Eftirmaður:
Edvard Beneš


  NODES