Võ Nguyên Giáp

Víetnamskur hershöfðingi (1911–2013)

Võ Nguyên Giáp (25. ágúst 1911 – 4. október 2013) var víetnamskur hershöfðingi og stjórnmálamaður. Hann var leiðtogi Alþýðuhers Víetnams á tíma fyrri Indókínastyrjaldarinnar og varnarmálaráðherra á tíma Víetnamstríðsins. Giáp leiddi Víetnam til sigurs í báðum þessum stríðum, fyrst á móti Frökkum og síðan á móti Bandaríkjamönnum.

Võ Nguyên Giáp
Giáp árið 1957.
Ritari hernaðarnefndar Kommúnistaflokks Víetnams
Í embætti
1946–1978
EftirmaðurLê Duẩn (sem aðalritari)
Yfirmaður Alþýðuhers Víetnams
Í embætti
2. mars 1946 – 30. apríl 1975
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurTôn Đức Thắng (sem forseti Víetnams)
Persónulegar upplýsingar
Fæddur25. ágúst 1911
Lệ Thủy, Quảng Bình, franska Indókína
Látinn4. október 2013 (102 ára) Hanoi, Víetnam
StjórnmálaflokkurKommúnistaflokkur Víetnams
MakiNguyễn Thị Quang Thái (g. 1938, lést)
Đặng Thị Bích Hà (g. 1946)
Börn5
Undirskrift

Giáp er sér í lagi kunnur fyrir sigur sinn í orrustunni við Điện Biên Phủ árið 1954, sem leiddi til þess að Frakkar drógu her sinn burt frá Indókína. Giáp skipulagði jafnframt árið 1968 Tet-sóknina, sem er gjarnan talin hafa sannfært Bandaríkjamenn um að Víetnamstríðið væri ekki vinnanlegt á vígvellinum. Sigrar Giáps gegn bæði Frakklandi og Bandaríkjunum gerðu hann að einum frægasta hershöfðingja síns tíma.[1]

Æviágrip

breyta

Võ Nguyên Giáp fæddist árið 1912 í Quảng Bình-héraði í Annam. Faðir hans var skólakennari sem ræktaði hrísgrjón meðfram vinnu til að sjá fyrir fjölskyldunni. Giáp gekk í franskan skóla í Hue og vakti þar athygli bæði fyrir góðar gáfur og fyrir andúð á frönsku nýlendustjórninni. Þetta leiddi til þess að franska öryggislögreglan hafði auga með honum frá unga aldri.[2] Hann gekk fimmtán ára gamall í „Nýja Annam-byltingarflokkinn“, sem barðist fyrir sjálfstæði undan Frökkum. Þegar Giáp var 18 ára gamall létu Frakkar handtaka hann. Honum var sleppt árið 1933 og gekk þá fljótt í indókínverska kommúnistaflokkinn.[3]

Giáp flutti frá Hue til Hanoi eftir lausnina og hélt áfram námi í lögfræði. Hann kenndi sögu við einkaskóla og var virkur í flokksstarfi kommúnistaflokksins. Hann lauk lögfræðiprófi árið 1938 og kvæntist dóttur eins kennara síns. Á tíma seinni heimsstyrjaldarinnar létu Frakkar banna kommúnistaflokkinn og margir leiðtogar hans flúðu til Kína, þar á meðal Giáp.[3] Eiginkona Giáps var hins vegar handtekin vegna starfa hennar fyrir kommúnistaflokkinn og lét lífið í fangabúðum Frakka nokkrum árum síðar.[2]

Árið 1938 hitti Giáp byltingarleiðtogann Hồ Chí Minh í fyrsta sinn í Suður-Kína. Þar tók hann þátt í stofnun hernaðarhreyfingarinnar Việt Minh og var falið að skipuleggja skæruhernað hreyfingarinnar í Norður-Víetnam.[2] Hồ Chí Minh sneri aftur úr útlegð til Víetnams árið 1941 kom sér fyrir í helli nálægt þorpinu Pac Bo. Giáp fór til hans ásamt fleiri meðlimum hreyfingarinnar stuttu siðar. Þeir fengu til liðs við sig afskekkta ættflokka í grendinni og Giáp kom á fót skæruliðahópum til að verja liðskjarnana. Frakkar hröktu hópana inn í frumskóga Víetnams og á stríðsárunum börðust skæruliðar Việt Minh bæði gegn Frökkum og gegn Japönum.[4]

Á aðfangadag árið 1944 réðst Giáp ásamt 34 skæruliðum sem dulbúnir voru sem smábændur á tvær herstöðvar Frakka, drápu hermennina og stálu vopnum þeirra. Gjarnan hefur verið talað um þennan atburð sem upphaf víetnamska alþýðuhersins.[4] Sumarið 1945 hlaut Giáp sæti í miðstjórn kommúnistaflokksins og í þjóðlegri byltingarnefnd hans. Her Việt Minh náði stjórn á Hanoi árið 1945 og Hồ Chí Minh lýsti í kjölfarið yfir sjálfstæði Víetnams.[5] Giáp varð þá yfirmaður heraflans og innanríkisráðherra.[4]

Fyrri Indókínastyrjöldin

breyta
 
Giáp (til vinstri) ásamt Hồ Chí Minh árið 1939.

Fyrri Indókínastyrjöldin braust út árið 1946 vegna tilrauna Frakka til að endurheimta stjórn í Indókína. Eftir sigur kommúnista í kínversku borgarastyrjöldinni fékk Giáp þungvopn frá Kína og byggði upp öflugan her, auk þess sem flutningaleiðir til Kína voru opnaðar. Næstu þrjú ár urðu litlar breytingar á hernaðarstöðunni í Víetnam. Giáp vildi tryggja sigur á vígvellinum til þess að geta tryggt hagstæða skilmála í samningum. Hann tók því ákvörðun um að ráðast á Điện Biên Phủ í afskekktum dal í norðuvesturhluta Víetnams. Franski marskálkurinn Henri Navarre hafði sent einvalalið þangað til að verja leiðina til Laos en bjóst ekki við árás.[4]

Her Giáps vann úrslitasigur gegn Frökkum í orrustunni við Điện Biên Phủ árið 1954. Í orrustunni misstu Frakkar um 16.000 manns og glötuðu trú um að hægt væri að vinna stríðið.[6] Frakkar gáfust upp þann 7. maí og um leið hófst friðarráðstefna í Genf um framtíð Indókína. Á ráðstefnunni var fallist á að skipta Víetnam í tvennt fram að kosningum sem áttu að fara fram. Kosningarnar voru hins vegar aldrei haldnar í suðurhlutanum og því varð til langvarandi skipting milli Norður-Víetnams, sem laut stjórn kommúnista í Hanoi, og hinnar hægrisinnuðu stjórnar Suður-Víetnams, sem hafði aðsetur í Saígon.[4]

Víetnamstríðið

breyta

Giáp tók ákvörðun um að beita fastaher sínum gegn stjórninni í Saígon í árslok 1964, þrátt fyrir að Bandaríkjamenn væru þá farnir að blanda sér í átökin í Víetnam. Þar áður höfðu Norður-Víetnamar háð baráttu gegn suðurhlutanum óbeint í gegnum skæruliðahreyfinguna Víet-Kong, sem var sjálfstæð að nafninu til en fór í reynd eftir fyrirmælum stjórnarinnar í Hanoi.[4]

Vegna síaukinnar viðveru Bandaríkjahers í landinu var Giáp orðinn vondaufur um fullnaðarsigur í Víetnamstríðinu árið 1967. Giáp var hins vegar var við vaxandi andstöðu við stríðið í Bandaríkjunum og ólgu í borgum Suður-Víetnams og sá þar tækifæri til að hafa áhrif á gang mála. Hann skipulagði því meiriháttar samhæfða hernaðaraðgerð, hina svokölluðu Tet-sókn í desember þetta ár. Hin eiginlega sókn hófst í janúar næsta ár með árás um 70.000 hermanna kommúnista á suður-víetnamskar borgir. Sjálfsmorðssveit gerði jafnframt árás á bandaríska sendiráðið í Saígon og það tók Bandaríkjamenn margar vikur að [4]

Tet-sóknin misheppnaðist að mestu hernaðarlega en engu að síður er almennt talið að hún hafi átt mikinn þátt í að snúa almenningsáliti í Bandaríkjunum gegn frekari þátttöku í Víetnamstríðinu.[7] Giáp lagði áherslu á að með henni hefðu Víetnamar fært stríðið heim í stofur bandarískra fjölskyldna og sýnt fram á styrk sinn og aga. Þó féllst hann á að Tet-sóknin hefði ekki ráðið úrslitum stríðsins, enda var barist í sjö ár í viðbót.[4]

Árið 1972, eftir að Bandaríkjamenn voru farnir að leita leiða til að yfirgefa Víetnam, hóf Giáp víðtæka sókn til að treysta samningsstöðu Norður-Víetnams. Sóknin misheppnaðist vegna loftárása Bandaríkjahers en Richard Nixon Bandaríkjaforseti samþykkti þó vopnahlé þar sem hann vildi ná fram friði fyrir forsetakosningarnar þetta ár. Vopnahlé var undirritað í Víetnamstríðinu í janúar 1973 en það fór smám saman út um þúfur og stríðið hélt áfram.[4]

Her Norður-Víetnams vann að endingu fullnaðarsigur gegn suðrinu árið 1975, eftir að bandaríski herinn hafði dregið sig frá landinu. Víetnam var sameinað undir einni stjórn kommúnista eftir fall Saígon þetta ár.[4]

Síðari æviár og andlát

breyta
 
Giáp árið 2008.

Giáp lét af embætti varnarmálaráðherra Víetnams eftir hreinsanir í ríkisstjórn landsins árið 1980.[8]

Giáp lést í Hanoi árið 2013, þá 102 ára gamall.[9] Hundruð þúsunda fólks vottuðu honum virðingu sína við útför hans.[10]

Tilvísanir

breyta
  1. Egill Helgason (5. október 2013). „Giap – hershöfðinginn sem sigraði stórveldi“. DV. Sótt 17. febrúar 2024.
  2. 2,0 2,1 2,2 Max Cles (4. september 1964). „Sterki maðurinn bak við Vietcong“. Tíminn. bls. 7; 13.
  3. 3,0 3,1 „Vo Nguyen Giap“. Alþýðublaðið. 13. febrúar 1965. bls. 7.
  4. 4,00 4,01 4,02 4,03 4,04 4,05 4,06 4,07 4,08 4,09 Guðmundur Halldórsson (29. júlí 1990). „Giap talar“. Morgunblaðið. bls. 14-15.
  5. „Alþýðan er styrkurinn í baráttu okkar“. Þjóðviljinn. 31. október 1971. bls. 6; 13.
  6. „Skæruhernaður“. Réttur. 1. janúar 1968. bls. 18-19.
  7. „Stríðið í Víetnam“. Tíminn. 4. nóvember 1972. bls. 11.
  8. „Giap víkur í víðtækum hreinsunum í Víetnam“. Morgunblaðið. 9. febrúar 1980. bls. 22.
  9. „Vo Nguyen Giap látinn“. RÚV. 5. október 2013. Sótt 17. febrúar 2024.
  10. „Fjölmenni vottaði Giap virðingu sína“. RÚV. 13. október 2013. Sótt 17. febrúar 2024.
  NODES
Done 1