Vladímír Lenín

Rússneskur byltingarmaður og stofnandi Sovétríkjanna (1870-1924)

Vladímír Íljítsj Lenín (22. apríl 187021. janúar 1924, rússneska: Владимир Ильич Ленин), fæddur sem Vladímír Íljítsj Úljanov (rússneska: Владимир Ильич Ульянов) var leiðtogi bolsévísku hreyfingarinnar í Rússlandi snemma á 20. öld. Árið 1917 leiddi hann októberbyltinguna, sem varð til þess að Rússland varð fyrsta kommúníska ríki í heimi. Lenín var fyrsti leiðtogi Sovétríkjanna og af mörgum talinn einn merkasti stjórnmálamaður sögunnar.

Vladímír Lenín
Владимир Ленин
Vladímír Lenín í júlí árið 1920.
Formaður þjóðfulltrúaráðs Sovétríkjanna
Í embætti
6. júlí 1923 – 21. janúar 1924
ForveriFyrstur í embætti
EftirmaðurAleksej Rykov
Formaður þjóðfulltrúaráðs rússneska sovétlýðveldisins
Í embætti
8. nóvember 1917 – 21. janúar 1924
ForveriFyrstur í embætti
EftirmaðurAleksej Rykov
Persónulegar upplýsingar
Fæddur22. apríl 1870
Símbírsk, Rússlandi
Látinn21. janúar 1924 (53 ára) Gorkí Lenínskíje, rússneska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum
StjórnmálaflokkurBolsévikaflokkurinn (1898–1912)
Rússneski kommúnistaflokkurinn (1912–1924)
MakiNadezhda Krúpskaja (g. 1898–1924)
ForeldrarÍlja Níkolajevítsj Úljanov og María Aleksandrovna Blank
StarfStjórnmálamaður, lögmaður, byltingarsinni
Undirskrift

Ævisaga

breyta

Lenín fæddist 22. apríl 1870 í bænum Símbírsk, Rússlandi. Foreldrar hans hétu Ílja Níkolajevítsj Úljanov (1831-1886) og María Aleksandrovna Blank (1835-1916) og var hann þeirra þriðja barn af þeim fimm sem þau áttu. Fjölskylda Leníns var ágætlega efnuð og var hann skírður til grísk-kaþólskrar trúar. Árið 1887 þegar Lenín var sautján ára að aldri var eldri bróðir hans, Aleksandr Úljanov, hengdur fyrir að eiga aðild að morðtilræði á keisaranum. Eftir þetta varð Lenín mjög róttækur, sem varð til þess að stuttu seinna var hann rekinn úr háskóla fyrir mótmæli, eftir að hafa fengið orð á sig sem nokkuð góður námsmaður, þá sérstaklega í latínu. Hann hélt þó áfram að læra sjálfstætt og árið 1891 fékk hann réttindi til þess að stunda lögmennsku.[1]

Lenín starfaði þó stutt sem lögmaður og fór hann að stunda vinstriáróður og læra um marxisma í Pétursborg. Það leiddi þó til þess að árið 1895 sat hann í fangelsi í heilt ár og var síðan sendur í refsivist til þorpsins Shúshenskoje í Síberíu. Þar kynntist hann stúlku að nafni Nadezhda Krúpskaja, þau giftust stuttu síðar og átti hún eftir að standa með honum í gegnum súrt og sætt. Hann gaf svo út ritið Þróun Kapítalisma í Rússlandi.[1]

Byltingarsinni

breyta

Þegar útlegðinni var lokið eyddi hann þónokkrum tíma í að ferðast innan Rússlands og víðar í Evrópu og var þá duglegur að gefa út tímarit og bækur og var þar meðal annars í slagtogi með mönnum eins og Georgíj Plekhanov og Lev Trotskíj. Það var á þessum tíma sem hann tók upp byltingarnafnið Lenín og er talið að það sé í eftir ánni Lenu sem rann við Shúshenskoje.[1]

Árið 1903 klofnaði sósíaldemókrataflokkurinn í bolsévíka og mensévíka. Lenín hafði þá verið duglegur undanfarin ár að útbreiða boðskap sinn um byltingu og kommúnisma. Hann var foringi bolsévíka sem þýðir „stuðningsmenn meirihlutans“ en nafnið var dregið af því að í kosningum um aldamótin fengu þeir meirihluta atkvæða, það átti þó ekki eftir að vera svo alltaf. Júlíus Martov leiddi svo mensévíka sem þýðir „stuðningsmenn minnihlutans“ af sömu ástæðu. Bolsévíkar voru mun róttækari í hugsun en mensévíkar og vildu stofna til byltingar verkalýðsins í Rússlandi en mensévíkar vildu búa til sterkan lýðræðislegan stjórnmálaflokk og fannst Lenín vera með einræðistilburði. Í hvert skipti sem menn reyndu að sameina sósíaldemókrataflokkinn var Lenín alltaf þar til að stöðva það með kröfum um byltingu. Það fór þó þannig að bolsévíkar töpuðu miklu fylgi og mensévíkar voru komnir með mun meira af fólki á bak við sig.[2][1]

Lenín hélt áfram að ferðast um Evrópu og útbreiða boðskap kommúnismans, mestmegnis útlægur frá Rússlandi. Á ferðum sínum hitti hann annan útlægan Rússa í París að nafni Inessa Armand, en hún átti eftir að verða hjákona hans síðar. Þegar fyrri heimsstyrjöldin hófst árið 1914 var Lenín staðsettur í Sviss. Flestir leiðtogar rússneskra sósíalista vildu þá ganga til friðarsamninga en Lenín hvatti verkalýðinn til að stofna til byltingar og kollvarpa kapítalískum stjórnvöldum sínum með vopnum og valdi.[1]

Rússneska byltingin

breyta
 
Lenín á tíma fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Árið 1917 varð svokölluð Febrúarbyltingin í Rússlandi, en þeir voru reyndar með öðruvísi dagatal heldur en almennar vesturþjóðir og því gerðist hún í rauninni í mars. Í þessar byltingu var keisaranum steypt af stóli og við tók bráðabirgðastjórn Aleksandr Kerenskíj sem ætlaði að klára stríðið á mun skemmri tíma heldur en allt stefndi í. Það gekk þó ekki allt upp sem skildi og í apríl kom Vladímír Lenín aftur til Rússlands frá Sviss til að leiða bolsévíka. Fyrsta verk hans var að lýsa yfir því að önnur bylting, bylting verkalýðsins, væri yfirvofandi og var þar með vitað að ekki náðist eining á meðal stjórnamanna í Rússlandi strax.[2] Lenín flúði þó aftur frá Rússlandi til Finnlands eftir að hafa verið sakaður um að vera handbendli Þjóðverja en hann fékk fjármagn frá þeim. Lenín var þó ekki lengi fjarverandi en hann sneri aftur í nóvember. Nóvember í hinum vestræna heimi var reyndar október í Rússlandi og eftir því nefnist Októberbyltingin sem Lenín leiddi og steypti endanlega bráðabirgðastjórn Kerenskíj af stóli. Sú bylting byggðist á því að byltingarmennirnir, undir stjórn Trotskíj, réðust á mikilvægustu staði stjórnvalda og náðu þannig að þvinga bolsévíka til valda.[3]

Í kjölfarið bönnuðu bolsévíkar alla stjórnmálaflokka og blöð frá þeim, þjóðnýttu banka og einkaeignir og bönnuðu nánast öll viðskipti. Fyrrverandi eigendur þessara eigna fengu engar bætur og Lenín sagði að hann ætlaði að koma peningunum og eignum til bændasamfélagsins. Hann var viss um að hægt væri að koma á sósíalísku stjórnarkerfi í Rússlandi og var tilbúinn að beita öllum brögðum til þess. Andstæðingar hans voru þessu mjög mótfallnir og bentu á hættuna á að þetta gæti leitt til einræðis.[1]

Langstærsta vandamál Rússlands átti hins vegar eftir að leysa og það var staða Rússlands í fyrri heimsstyrjöldinni. Það var hins vegar eitt fyrsta verk bolsévísku stjórnarinnar, með Lenín í forystu, að semja vopnahlé við Þjóðverja. En margir telja að með því hafi Rússar svikið Bandamenn, sem voru aðallega Bretar og Frakkar. Lenín var búinn að vera í góðu sambandi við Þjóðverja og má segja að hann hafi verið ákveðið vopn í þeirra höndum gegn Bandamönnum en þeir höfðu styrkt hann með fjármagni og fleiru til að tryggja að hann kæmist til valda. Það varð svo að friðarsamningar voru undirritaðir í pólsku borginni Brest-Litovsk í mars 1918 og þurftu Rússar að gangast undir harða friðarskilmála Þjóðverja.[4][1]

Rússneska borgarastyrjöldin

breyta

Í kjölfar friðarsamningana blossaði upp mikill hiti í Rússlandi og fannst andstæðingum bolsévíka að samningarnir væru afar óhagstæðir fyrir Rússland. Í kjölfarið varð borgarastyrjöld þar sem rauðliðar (her bolsévíka) og hvítliðar (her andstæðingana) börðust í hörðum bardaga í þrjú ár. Þrátt fyrir að hvítliðar nytu stuðnings Bandamanna, fór það svo að rauðliðar báru sigur úr býtum og var það ekki síst fyrir tilstilli herkænsku Trotskíjs og pólitískrar visku Leníns. Í þessu stríði voru mörg ódæðisverk framin af hálfu beggja aðila. Það sýndi þó betur fram á að Lenín var tilbúinn að beita öllum brögðum til þess að sjá Rússland sem sósíalískt ríki. Bolsévíkar stofnuðu sérstaka leynilögreglu sem nefndist Tsjeka en var einnig kölluð rauða ógnvaldið. Hennar verkefni voru að elta niðri pólitíska andstæðinga og í raun alla sem bolsévíkar töldu óvini sína og taka þá af lífi. Ekki er vitað með vissu hversu mörg mannslíf þetta ógnvald kostaði en tölur á bilinu 13 þúsund til 140 þúsund hafa verið nefnd.[1]

Vald Leníns hafði stóraukist á frekar skömmum tíma og þann 30. ágúst, árið 1918 var hann skotinn. Hann lifði þó af en mjög líklegt er að þessi meiðsl hafi átt þátt í dauða hans nokkrum ára seinna.[1]

Eftir að Lenín og hans menn voru komnir með völdin í Rússlandi fóru þeir að líta til Evrópu til þess að breiða út boðskap sinn og stofnaði hann til þess Alþjóðasamband kommúnista. Árið 1918 breyttu þeir nafni sósíaldemókrataflokksins í Rússneska kommúnistaflokkinn. Árið 1919 reyndi Lenín að boða byltinguna með því að ráðast inn í Pólland en þar töpuðu þeir illa og ákváðu því að bíða með að breiða út byltinguna til betri tíma.[3]

Nýja efnahagsstefnan

breyta

Eyðilegging rússnesku borgarastyrjaldarinnar og misheppnaðar tilraunir Sovétstjórnarinnar til að samyrkjuvæða landbúnað Rússlands stuðluðu að hungursneyð á árunum 1920 til 1921. Í mars árið 1921 gerðu sjóliðar í Kronstadt, sem höfðu verið meðal tryggustu stuðningsmanna byltingarinnar, misheppnaða uppreisn gegn stjórn Leníns. Uppreisnin og efnahagslegt hrun Rússlands sannfærðu Lenín um að tilraunin til að gera Rússland að sósíalísku ríki í einu vetfangi hefði mistekist og að taka þyrfti upp hófsamari stefnu. Þetta varð til þess að árið 1921 kynnti Lenín „nýju efnahagsstefnuna“ svokölluðu, eða NEP, sem fól í sér afturhald til auðvaldsskipulags í ýmsum málum.[5]

Á tíma nýju efnahagsstefnunnar átti ríkið áfram allan helsta iðnað landsins og hafði einokun á erlendri verslun en einkaverslun og einkaframtak bænda var aftur leyfð. Þessi stefna með kapítalísku ívafi mætti mikilli mótspyrnu innan Kommúnistaflokksins og hefði líklega aldrei náð fram að ganga ef neinn annar en Lenín hefði talað fyrir henni, en Lenín braut gagnrýnina á bak aftur og fékk sínu framgengt. Með þessu blandaða hagkerfi heppnaðist sovétstjórninni að reisa við efnahag Rússlands á þriðja áratugnum. Nýja efnahagsstefnan var síðasta meiriháttar framlag Leníns til stjórnarinnar þar sem heilsu hans tók að hraka á svipuðum tíma og hún var tekin upp.[5]

Endalok Leníns

breyta
 
Lenín (til vinstri) og Jósef Stalín árið 1922.

Eftir banatilræðið árið 1918 þorðu menn ekki að fjarlægja kúluna úr Lenín vegna þess hve nálægt hún var mænunni og er talið afar líklegt að það hafi átt sinn þátt í veikindum Leníns. Árið 1922 fékk hann heilablóðfall sem lamaði hann hægra megin.

Eftir þessi meiðsl dró Lenín sig að mestu úr sviðsljósinu en hélt áfram að skrifa leiðbeiningar að heiman um hvernig átti að stjórna hlutunum. Þar mátti til að mynda finna gífurlega mikla gagnrýni á þann sem átti eftir að taka við af honum, Jósef Stalín. Þar talaði hann sérstaklega um að Stalín væri ekki efni í leiðtoga og menn þyrftu að passa sig á honum. Eftir að Lenín hafði fengið nokkur heilablóðföll í viðbót lést hann árið 1924. Þá var Stalín búinn að tryggja sér það mikil völd að ekki var hægt að stöðva hann í að verða næsti leiðtogi kommúnista Sovétríkjanna. Margir hafa leitt hugann að því eftir á að ef Lenín hefði ekki látist, hvort hann hefði haldið áfram sem leiðtogi Sovétríkjanna. Ef marka má hversu mikið hann var búinn að mildast í skrifum síðustu ár sín, þá má leiða líkur að því að Sovétríkin hefðu sennilega farið allt aðra leið heldur en þá leið sem Stalín leiddi þau. Allt er það þó getgátur og er staðreyndin sú að Stalín tók upp einhverjar öfgafyllstu stefnur bolsévíka frá því fyrir 1921 eins og ógnvald og efnahagsstjórn.[3][1]

Jarðneskar leifar Leníns

breyta
 
Grafhýsi Leníns fyrir framan Kreml við Rauða torgið í Moskvu.

Í erfðaskrá sinni hafði Lenín farið fram á að hann yrði jarðsettur í gröf í kirkjugarði í Sankti Pétursborg við hlið móður sinnar en fylgismenn hans fóru ekki eftir þessu. Þess í stað var lík Leníns smurt og það sett til sýnis í grafhýsi við Rauða torgið í Moskvu.[6]

Þrátt fyrir að Sovétríkin hafi liðið undir lok árið 1991 og Rússland sé ekki lengur kommúnistaríki er lík Leníns enn haft til sýnis í grafhýsinu á Rauða torginu. Hugmyndir um að fjarlægja líkið og láta grafa Lenín hafa verið viðraðar öðru hverju eftir endalok Sovétríkjanna en slíkar fyrirætlanir hafa jafnan mætt andstöðu rússneskra kommúnista.[7] Árið 2016 eyddu rússnesk stjórnvöld um 13 millj­ón­um rúblna (eða um 24 millj­ónum ís­lenskra króna) í að varðveita lík Leníns og halda því í „sem raun­veru­leg­asta ástandi“.[8]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,00 1,01 1,02 1,03 1,04 1,05 1,06 1,07 1,08 1,09 Skúli Sæland. „Hver var Vladimir Lenín?“. Vísindavefurinn 2.6.2005. (Skoðað 21.4.2010).
  2. 2,0 2,1 Poulsen (1985), bls. 43-45.
  3. 3,0 3,1 3,2 Berndl (2008), bls. 480-481.
  4. Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson (2008), bls. 217.
  5. 5,0 5,1 „Vladímír Lenín“. Samvinnan. 1. apríl 1970. bls. 12-18.
  6. „Lenín undir græna torfu?“. Vísir. 17. október 2005. Sótt 9. maí 2023.
  7. Ásgeir Sverrisson (14. febrúar 1998). „Hvað ber að gera – við leifar hins liðna?“. Morgunblaðið. bls. 24.
  8. „Viðhalda Lenín fyrir margar milljónir“. mbl.is. 13. apríl 2016. Sótt 9. maí 2023.

Heimildir

breyta
  • Berndl, Klaus, Markus Hattstein, Arthur Knebel, Hermann-Josef Udelhoven, Saga mannsins frá örófi fram á þennan dag. Ásdís Guðjónsdóttir o.fl. (þýð.), Illugi Jökulsson (ritstj.) (Reykjavík: Skuggi, 2008).
  • Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson, Nýir tímar. Saga Íslands og umheimsins frá lokum 18. aldar til árþúsundamóta (Reykjavík: Mál og menning, 2008).
  • Poulsen, Henning, Saga mannkyns ritröð AB. 13. bindi. Stríð á stríð ofan. 1914-1945. Gunnar Stefánsson (þýð.) (Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1985).


Fyrirrennari:
Fyrstur í embætti
(Aleksandr Kerenskíj sem forsætisráðherra bráðabirgðastjórnar)
Formaður þjóðfulltrúaráðs rússneska sovétlýðveldisins
(8. nóvember 191721. janúar 1924)
Eftirmaður:
Aleksej Rykov
Fyrirrennari:
Fyrstur í embætti
Formaður þjóðfulltrúaráðs Sovétríkjanna
(6. júlí 192321. janúar 1924)
Eftirmaður:
Aleksej Rykov


  NODES