Átök Araba og Ísraelsmanna

Átök Araba og Ísraelsmanna eru pólitískar deilur milli Ísraels og nágrannaríkja í Mið-Austurlöndum sem stundum hafa leitt til vopnaðra átaka. Pólitísk spenna, hernaðarátök og deilur milli Arabaríkja og Ísraels stigmögnuðust á 20. öldinni, en fjöruðu út að mestu í byrjun 21. aldarinnar. Rætur átakanna má rekja til stuðnings aðildarríkja Arababandalagsins við Palestínumenn, sem eru aðilar að bandalaginu, í átökunum milli Ísraela og Palestínumanna, sem aftur hafa verið rakin til samhliða uppgangs síonisma og arabískrar þjóðernishyggju undir lok 19. aldar, þó að þjóðernisstefnurnar tvær hefðu ekki rekist á fyrr en á 1920.

Kort sem sýnir helstu aðila átakanna.

Hluti af átökum Palestínumanna og Ísraels stafar af því að báðir aðilar gera tilkall til landsins sem áður myndaði Bresku Palestínu, sem gyðingar litu á sem sögulegt heimaland sitt, á sama tíma og Arabahreyfingin leit svo á að það tilheyrði arabískum Palestínumönnum, bæði í samtíð og fortíð,[1] og væri múslimaland í íslömsku samhengi. Trúarbragðadeilur innan breska umboðssvæðisins milli palestínskra gyðinga og Araba endaði með borgarastyrjöld í Palestínu árið 1947. Nágrannaríkin tóku málstað palestínskra Araba, sérstaklega í kjölfar sjálfstæðisyfirlýsingar Ísraels, og réðust inn í fyrrum umboðssvæðið í maí 1948 og hófu þar með fyrsta stríð Araba og Ísraela. Stríðsátökum lauk að mestu með vopnahléssamningum eftir Yom Kippur-stríðið 1973. Friðarsamningar voru undirritaðir milli Ísraels og Egyptalands árið 1979, sem urðu til þess að Ísraelar drógu sig frá Sínaískaga og afléttu yfirráðum hersins á Vesturbakkanum og Gasasvæðinu, gegn því að koma á borgaralegri ísraelskri stjórn á Gólanhæðum og Austur-Jerúsalem, og þar með einhliða innlimun þeirra svæða.

Eðli átakanna hefur breyst í gegnum árin frá umfangsmiklum svæðisbundnum átökum Araba og Ísraelsmanna í staðbundin átök milli Ísraela og Palestínumanna sem náðu hámarki í borgarastyrjöldinni í Líbanon 1982 þegar Ísrael greip inn í borgarastyrjöldina til að hrekja Frelsissamtök Palestínumanna frá Líbanon. Árið 1983 náðu Ísraelar samkomulagi við kristin stjórnvöld í Líbanon, en samningurinn var ógiltur næsta ár með yfirtöku herja múslima og drúsa í Beirút. Þegar dró úr fyrstu Intifada Palestínumanna 1987–1993 leiddu Óslóarsamningarnir til stofnunar palestínsku heimastjórnarinnar árið 1994, sem hluti af friðarferli milli Ísraela og Palestínumanna. Sama ár gerðu Ísrael og Jórdanía friðarsamkomulag. Árið 2002 bauð Arababandalagið viðurkenningu arabísku ríkjanna á Ísrael sem hluta af lausn deilunnar milli Palestínu og Ísraels í Friðarumleitun Araba.[2] Umleitunin, sem hefur verið staðfest síðar, kallaði eftir eðlilegum samskiptum Arababandalagsins og Ísraels, gegn því að Ísraelar hverfi að fullu frá herteknu svæðunum (þar með talið Austur-Jerúsalem) og „sanngjörnu uppgjöri“ á flóttamannavanda Palestínumanna sem byggist á Ályktun Sþ nr. 194. Á tíunda áratugnum og snemma á fyrsta áratug 21. aldar hafði vopnahlé að mestu haldið milli Ísraels og Sýrlands undir stjórn Ba'ath-flokksins, eins og við Líbanon. Þrátt fyrir friðarsamningana við Egyptaland og Jórdaníu, bráðabirgðasamningana við palestínsk yfirvöld og almennt vopnahlé, ríkti ósætti milli Arababandalagsins og Ísraels um mörg mál fram á miðjan 2. áratug 21. aldar. Meðal arabískra stríðsaðila í átökunum eru Írak og Sýrland einu ríkin sem hafa ekki gert formlegt friðarsamkomulagt við Ísrael, en bæði hallast að stuðningi frá Íran.

Borgarastyrjöldin í Sýrlandi breytti ástandinu við norðurhluta landamæra Ísraels og skapaði ósætti milli Sýrlandsstjórnar, Hizbollah og sýrlenskrar stjórnarandstöðu og flækti samskipti þeirra við Ísrael vegna upprennandi átaka við Íran. Átökin milli Ísraels og Gasastrandarinnar, sem stjórnað er af Hamas, eru einnig rakin til deilna milli Írans og Ísraels á svæðinu. Árið 2017 mynduðu Ísrael og nokkur arabísk súnní-íslömsk ríki undir forystu Sádi-Arabíu hálfopinbert bandalag gegn Íran. Þessi ráðstöfun og viðurkenning Ísraela af hálfu Persaflóaríkjanna þykja sumum vera merki um að átök Araba og Ísraelsmanna séu hverfandi.[3]

Tilvísanir

breyta
  1. „The Palestinian National Charter – Article 6“. Mfa.gov.il. Sótt 19. janúar 2013.
  2. Scott MacLeod (8. janúar 2009). „Time to Test the Arab Peace Offer“. Time. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. janúar 2009.
  3. „The Arab-Israeli conflict is fading“. The Economist. ISSN 0013-0613. Sótt 2. ágúst 2024.
  NODES
Done 1