Afhöfðun er aftökuaðferð þar sem höfuð sakamannsins er skilið frá líkamanum með höggvopni eins og sverði eða öxi, eða þar til gerðu tæki eins og fallöxi. Það að höggva höfuð af manni kallast að hálshöggva eða að afhöfða.

Trérista af afhöfðun með sverði frá árinu 1552.

Frá alda öðli virðist afhöfðun víða hafa verið talin sú líflátsaðferð sem gerði mönnum kleift að „deyja með sæmd“ og var því oftar en ekki beitt þegar sá sem lífláta átti var af háum stigum eða hermaður. Aðrir voru fremur hengdir eða brenndir. Nefna má að Páll postuli var hálshöggvinn þar sem hann var rómverskur borgari en almúgamenn og gyðingar voru krossfestir eða þeim varpað fyrir ljón.

Afhöfðun hefur verið talin skjótari og sársaukaminni aftökuaðferð en flestar aðrar, það er að segja ef sverðið eða öxin er beitt og böðullinn vandanum vaxinn, svo að hinn dauðadæmdi lætur lífið við fyrsta högg. Á því gat þó verið misbrestur og stundum þurfti mörg högg til að afhöfða fólk. Það var ein af ástæðunum til þess að fallöxin var fundin upp, hún átti að svara kalli um skjóta og sársaukalausa aftöku sem ekki krafðist mikillar færni böðulsins. Yfirleitt er hún talin hafa verið fundin upp af Joseph Guillotin lækni skömmu fyrir frönsku byltinguna en svipað tæki hafði þó verið í notkun í Halifax í Yorkshire frá því seint á 13. öld til 1650.

Á Íslandi var afhöfðun ein helsta líflátsaðferðin á fyrri tímum. Það gilti þegar menn voru líflátnir án dóms og laga af óvinum sínum og má finna mörg dæmi um það í Íslendingasögum, Sturlungu og víðar, svo sem þegar fimm menn voru höggnir á Miklabæ eftir Örlygsstaðabardaga. Allt fram á 19. öld voru menn líka dæmdir til að missa höfðuðið fyrir ýmsa glæpi, svo sem morð eða sifjaspell (það gilti þó aðallega um karla, konum var oftast drekkt). Þjófar voru aftur á móti oftast hengdir og galdramenn brenndir. Síðasta aftaka á Íslandi fór fram í Vatnsdalshólum 12. janúar 1830.

Stundum var höfuðið af þeim sem hálshöggvinn var sett á stjaka og látið vera þar uns það rotnaði. Einnig kom fyrir að höfuð var höggvið af mönnum eftir dauðann og „gengið milli bols og höfuðs“ og lík jafnvel grafin upp til að höggva af þeim höfuðið. Var það gert til að koma í veg fyrir að hinn látni gengi aftur og var höfuðið þá oft sett við rassinn áður en líkið var grafið að nýju.

Heimild

breyta
  NODES
languages 1
os 3