Alessandro de' Medici

Alessandro de' Medici (22. júlí 15106. janúar 1537), kallaður il moro eða márinn, var fyrsti hertoginn af Flórens frá 1530 til dauðadags.

Alessandro de' Medici

Hann fæddist í Flórens og var samþykktur sem óskilgetinn sonur Lorenzo di Piero de' Medici hertoga af Úrbínó þótt ýmsir telji að hann hafi í raun verið launsonur Giulio de' Medici sem síðar varð Klemens 7. páfi. Talið er að móðir hans hafi verið þeldökk vinnukona Medici-fjölskyldunnar. Vegna þess hve hann var dökkur yfirlitum var hann kallaður il moro. Þegar Karl 5. keisari rændi Róm árið 1527 gripu borgarbúar tækifærið og stofnuðu skammlíft lýðveldi. Medici-fjölskyldan flúði þá frá borginni. Klemens páfi samdi síðan um frið við keisarann og fékk hann til að koma Medici-fjölskyldunni aftur til valda í Flórens með hervaldi. Eftir umsátrið um Flórens, sem stóð frá október 1529 til ágúst 1530, náði fjölskyldan aftur völdum og Klemens gerði hinn nítján ára gamla Alessando að hertoga. Hann tók við völdum í borginni 5. júlí 1531.

Hann átti sér marga óvini og var sagður harðstjóri, en sagnfræðingar hafa lýst efasemdum um að sá dómur standist skoðun. Frændi hans, Ippolito de' Medici, var sendur af stjórnarandstöðunni til keisarans til að klaga undan stjórn hertogans en hann lést á leiðinni. Karl 5. studdi Alessandro gegn lýðveldissinnum. Hann hafði þegar árið 1527 lofað honum hönd dóttur sinnar, Margrétar af Parma og þau giftust árið 1536. Þau áttu engin börn en Alessandro átti tvö börn með ástkonu sinni, markgreifynjunni Taddea Malaspina: Giulio de' Medici og Giulia de' Medici.

Árið 1537 lokkaði fjarskyldur frændi hans, Lorenzino de' Medici, hann í gildru og myrti hann með aðstoð morðingjans Scoroncolo. Hann lýsti því yfir að hann hefði gert það í þágu lýðveldisins en engin uppreisn hófst og hann flúði til Feneyja þar sem hann var myrtur. Stuðningsmenn Medici-ættarinnar í borginni sáu til þess að Cosimo de' Medici, af annarri grein ættarinnar, var gerður að eftirmanni Alessandros.


Fyrirrennari:
Fyrstur í embætti
Hertogi af Flórens
(1530 – 1537)
Eftirmaður:
Cosimo 1.


  NODES