Atal Bihari Vajpayee
Atal Bihari Vajpayee (25. desember 1924 – 16. ágúst 2018) var indverskur stjórnmálamaður og skáld sem var tvívegis forsætisráðherra Indlands; fyrst í 13 daga árið 1996, síðan í 13 mánuði frá 1998 til 1999, og síðan fullt kjörtímabil frá 13. október 1999 til 22. maí 2004. Vajpayee var einn af stofnendum Bharatiya Janata-flokksins (BJP), hægrisinnaðs stjórnmálaflokks hindúskra þjóðernissinna. Hann var jafnframt fyrsti forsætisráðherra landsins úr flokknum. Hann var fyrsti forsætisráðherra Indlands utan Indverska þjóðarráðsflokksins sem lauk heilu kjörtímabili í embætti.
Atal Bihari Vajpayee | |
---|---|
Forsætisráðherra Indlands | |
Í embætti 16. maí 1996 – 1. júní 1996 | |
Forseti | Shankar Dayal Sharma |
Forveri | P. V. Narasimha Rao |
Eftirmaður | H. D. Deve Gowda |
Í embætti 19. mars 1998 – 22. maí 2004 | |
Forseti | K. R. Narayanan A. P. J. Abdul Kalam |
Forveri | Inder Kumar Gujral |
Eftirmaður | Manmohan Singh |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 25. desember 1924 Gwalior, breska Indlandi (nú Madhya Pradesh, Indlandi) |
Látinn | 16. ágúst 2018 (93 ára) Nýju Delí, Indlandi |
Stjórnmálaflokkur | Bharatiya Janata-flokkurinn (BJP) |
Trúarbrögð | Hindúismi |
Undirskrift |
Æviágrip
breytaAtal Bihari Vajpayee fæddist árið 1924 í Gwalior. Hann náði fyrst kjöri á neðri deild indverska þingsins (Lok Sabha) árið 1957 í kjördæminu Balrampur fyrir flokkinn Bharatiya Jana Sangh. Vajpayee, sem var jafnframt ljóðskáld, vakti fljótt athygli flokksforystunnar með ræðusnilld sinni á þinginu. Eftir andlát flokksleiðtogans Deendayal Upadhyaya árið 1968 var Vajpayee kjörinn nýr flokksforseti Bharatiya Jana Sangh. Vajpayee var meðal stjórnarandstæðinga sem voru handteknir þegar forsætisráðherrann Indira Gandhi lýsti yfir neyðarástandi á Indlandi árið 1975.[1]
Árið 1977 ákváðu ýmsir flokkar stjórnarandstöðunnar, þar á meðal Bharatiya Jana Sangh, að sameina krafta sína í einn flokk til að eiga betri möguleika gegn Indverska þjóðarráðinu í þingkosningum. Flokkarnir mynduðu saman Janataflokkinn, sem vann þingkosningarnar 1977 og myndaði ríkisstjórn undir forsæti Morarji Desai. Vajpayee varð utanríkisráðherra í stjórn Desai en sú stjórn hrundi árið 1979 þegar Janataflokkurinn liðaðist í sundur vegna innanflokksdeilna.[1]
Eftir upplausn Janataflokksins komu fyrrum meðlimir Bharatiya Jana Sangh saman árið 1980 og mynduðu nýjan flokk fyrir hindúska þjóðernissinna, Bharatiya Janata-flokkinn (BJP). Vajpayee varð fyrsti leiðtogi nýja flokksins.[1] Árið 1992 var Vajpayee meðal fárra leiðtoga hindúa sem gagnrýndu eyðileggingu hindúskra öfgamanna á moskunni Babri Masjid í Ayodhya.[2]
Eftir þingkosningar árið 1996 varð BJP stærsti staki flokkurinn á indverska þinginu og Vajpayee tók því við embætti forsætisráðherra. Vajpayee neyddist hins vegar til að segja af sér eftir aðeins 16 daga í embætti þar sem flokkurinn reyndist ekki hafa nægan þingstuðning til að mynda ríkisstjórn. Í aðdraganda þingkosninga sem haldnar voru 1998 leiddi BJP kosningabandalag stjórnarandstöðuflokka undir nafninu Þjóðarlýðræðisbandalagið. Bandalagið náði meirihluta í kosningunum og Vajpayee varð því forsætisráðherra á ný. Bandalagið sat við stjórn Indlands í 13 mánuði, en árið 1999 dró héraðsflokkurinn All India Anna Dravida Munnetra Kazhagam stuðning sinn við stjórnina til baka sem leiddi til þess að kallað var til nýrra þingkosninga.[1]
Í þingkosningunum 1999 vann kosningabandalag BJP rúman meirihluta á þinginu og Vajpayee gat því í þetta sinn setið út heilt fimm ára kjörtímabil sem forsætisráðherra.[1]
Sem forsætisráðherra lét Vajpayee halda kjarnorkutilraunum Indlands áfram árið 1998 þrátt fyrir mikla gagnrýni vesturlanda. Árið 2002 hóf ríkisstjórn Vajpayee einkavæðingu á ýmsum ríkisreknum iðnaðarfyrirtækjum og rak efnahagsstefnu í anda nýfrjálshyggju. Hagvöxtur var stöðugur á stjórnartíð Vajpayee og Indland varð á þessum tíma leiðandi þjóð í upplýsingatæknigeiranum. Aftur á móti töldu margir fátækari Indverjar sig ekki njóta hlutdeildar af efnahagsfarsældinni.[2] Stjórn hans sætti gagnrýni fyrir að bregðast árið 2002 seint við óeirðum milli þjóðernisbrota í Gújarat-fylki, þar sem um 1.000 til 2.000 manns, aðallega múslimar, voru drepnir.[2]
Vajpayee gerði tilraunir til að semja við nágrannaríkið Pakistan og reyna að leysa úr landamæradeilu ríkjanna í Kasmír-héraði. Indland og Pakistan háðu stutt stríð sín á milli í Kasmír árið 1998 sem endaði með sigri Indverja og með því að Pakistanar voru reknir frá bænum Kargil, sem þeir höfðu hertekið.[3] Í júlí árið 2001 fundaði Vajpayee með Pervez Musharraf, forseta Pakistans, í Agra til þess að reyna að ná sáttum milli þjóðanna.[4][5] Leiðtogarnir lögðu drög að samningi um að dregið yrði úr notkun kjarnorkuvopna ríkjanna og ýmsar aðrar ráðstafanir gerðar til að tryggja frið, en samningaviðræðurnar mistókust að endingu og sáttmálinn var aldrei undirritaður.[6]
Árið 2004 tapaði Bharatiya Janata-flokkurinn þingkosningum á móti Sameinaða framfarabandalaginu, kosningabandalagi Þjóðarráðsflokksins og fleiri stjórnarandstöðuflokka. Vajpayee baðst í kjölfarið lausnar úr embætti forsætisráðherra.[7]
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 Kunal Gaurav (25. desember 2020). „Remembering Atal Bihari Vajpayee on his 96th birth anniversary“ (enska). Hindustan Times. Sótt 26. desember 2020.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 „Atal Bihari Vajpayee“ (enska). Encyclopedia Britannica. 21. desember 2020. Sótt 26. desember 2020.
- ↑ Lavoy, Peter René, ritstjóri (2009). Asymmetric Warfare in South Asia: The Causes and Consequences of the Kargil Conflict. Cambridge University Press. bls. 180. ISBN 978-0-521-76721-7.
- ↑ „Musharraf vill ná sáttum um Kasmír“. mbl.is. 11. júlí 2001. Sótt 26. desember 2020.
- ↑ „Fundur Vajpayee og Musharraf framlengdur“. mbl.is. 15. júlí 2001. Sótt 26. desember 2020.
- ↑ NTI. „Lahore Declaration“. Lahore Declaration. Sótt 15. febrúar 2013.
- ↑ „Vajpayee biðst lausnar eftir kosningaósigur“. mbl.is. 14. maí 2004. Sótt 26. desember 2020.
Fyrirrennari: P. V. Narasimha Rao |
|
Eftirmaður: H. D. Deve Gowda | |||
Fyrirrennari: Inder Kumar Gujral |
|
Eftirmaður: Manmohan Singh |