Brandenborgarhliðið

52°30′59″N 13°22′40″A / 52.5163°N 13.3777°A / 52.5163; 13.3777

Brandenborgarhliðið eftir fall múrsins

Brandenborgarhliðið er ein þekktasta bygging Berlínar og eitt þekktasta mannvirki Þýskalands og Evrópu. Það varð jafnframt að tákngervingi friðar og sameiningar þegar Berlínarmúrinn féll.

Lýsing

breyta

Brandenborgarhliðið er 26 metra hátt og 65 metra breitt, en með breiddinni teljast varðhúsin sitthvoru megin við hliðið. Fyrirmyndin var Propylaea, inngangahofið mikla á Akrópólishæðinni í Aþenu. Hliðið stendur á 12 dórískum súlum. Efst trónir hestaeykið Quadriga, en þar keyrir rómverska sigurgyðjan Viktoría á vagni sem dreginn er af fjórum hestum.

Saga hliðsins

breyta
 
Fjóreykið á hliðinu. Upplýst að næturlagi.
 
Ronald Reagan heldur ræðu við Brandenborgarhliðið 1987

Hliðið var reist 1788-1791 af Friðriki Vilhjálmi II Prússakonungi til minningar um fyrirrennara sinn og frænda, Friðrik II (kallaður hinn mikli). Hliðið sneri til vesturs og var útgönguleið úr Berlín í átt til Brandenborgar, þaðan er heitið fengið. 1793 var hestaeykið sett upp. Það er gríðarmikil koparstytta af sigurgyðjunni Viktoríu á fjóreyki en hún var til minningar um sigurvinninga Friðriks mikla. 1806, aðeins 13 árum síðar, hertók Napóleon Berlín. Hann gerði sér lítið fyrir og lét taka fjóreykið niður af hliðinu og senda til Parísar. Þar ætlaði hann að setja það upp á nýjan leik. En 1814 tapaði Napoleon í orrustu fyrir Blücher herforingja, sem við það náði að hertaka París. Blücher pakkaði fjóreykinu saman og sendi það til baka til Berlínar, þar sem það var aftur sett á Brandenborgarhliðið.

Á 7. áratug 19. aldar voru nær allir borgarmúrar í Berlín rifnir og hurfu þá flestöll borgarhlið Berlínar. Brandenborgarhliðið fékk þó að standa.

Í janúar 1933 héldu nasistar uppá það að Hitler varð kanslari Þýskalands með ljósagöngu í gegnum Brandenborgarhliðið. Þegar heimstyrjöldin síðari hófst var gerð gifsafsteypa af fjóreykinu. Hliðið sjálft skemmdist lítið í stríðinu, en varðhliðin sitthvoru megin skemmdust töluvert. Hins vegar nær gjöreyðilagðist fjóreykið efst. Skemmdirnar voru ekki lagfærðar fyrr en 1956-1957. Þá var einnig nýtt fjóreyki smíðað af afsteypunni, en hægt er að skoða höfuðið á gömlu sigurgyðjunni í safninu Märkisches Museum í miðborg Berlínar.

Þegar Berlínarmúrinn var reistur, var hann lagður fyrir aftan Brandenborgarhliðið, þannig að hliðið var austanmegin. Það myndaði nokkurs konar botnlanga í miðborg Austur-Berlínar. Almenningur mátti ekki ganga upp að því, enda stóð hliðið á bannsvæði múrsins. Aðeins austurþýskir varðmenn máttu vera þar, en stöku sinnum fengu erlendir þjóðhöfðingjar að ganga upp að hliðinu austanmegin.

Brandenborgarhliðið var töluvert hærra í loftinu en Berlínarmúrinn og gnæfði því hátt yfir hann. Hliðið sást því vel að vestan og varð að tákngervingi kalda stríðsins. 1987 hélt Ronald Reagan bandaríkjaforseti ræðu vestanmeginn við hliðið og sagði þá meðal annars: „Mr. Gorbachev, open this gate! Mr. Gorbachev, tear down this wall!“ (Herra Gorbatsjov, opnaðu þetta hlið! Herra Gorbatsjov, rífðu niður þennan múr!).

Árið 1989 komst hliðið aftur í heimspressuna þegar tugþúsundir mótmælenda úr Austur-Berlín söfnuðust saman á torginu fyrir framan hliðið, á bannsvæðinu. Mótmæli þessi voru angi af mótmælum víða um Austur-Þýskaland. Einnig tóku íbúar Vestur-Berlínar þátt í mótmælunum, vestan megin við hliðið. Mótmæli þessi fóru að mestu friðsamlega fram. Brandenborgarhliðið varð á þessum tíma tákngervingur friðar og sameiningar. Mótmælunum linnti ekki fyrr en stjórnin ákvað að létta á ferðabanni íbúa Austur-Þýskalands. Múrinn var opnaður á nokkrum stöðum og samstundis flykktust tugþúsundir manna frá Austur-Berlín til vesturhluta borgarinnar. Þetta leiddi að lokum til falls múrsins og (ásamt öðrum atburðum) til falls kommúnismans í Austur-Þýskalandi.

Heimildir

breyta
  • Schneider og Cobbers (1998). Berlin. Jaron.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Brandenburger Tor“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt 30. nóvember 2009.

Tenglar

breyta

Brandenborgarhliðið

  NODES