Burgenland (burgenlandkróatíska: Gradišće; ungverska: Felsőőrvidék, Őrvidék eða Lajtabánság) er yngsta og fámennasta sambandsland Austurríkis, myndað 1921. Það er jafnframt austasti hluti Austurríkis. Höfuðborgin er Eisenstadt. Í Burgenland er töluð þýska, ungverska og burgenlandkróatíska.

Fáni Burgenlands Skjaldarmerki Burgenlands
Fáni
Fáni
Skjaldarmerki
Upplýsingar
Höfuðborg: Eisenstadt
Flatarmál: 3.961,803 km²
Mannfjöldi: 287.416 (1. janúar 2014)
Þéttleiki byggðar: 72,55/km²
Vefsíða: www.burgenland.at
Lega

Lega og lýsing

breyta

Burgenland er mjó landræma austast í landinu, sem nær frá Neusiedler See í norðri og suður til slóvensku landamæranna. Gjörvöll austurhliðin snýr að Ungverjalandi. Í norðvestri er Neðra Austurríki og í suðvestri er Steiermark. Sambandslandið er afar fámennt. Þar eru eingar stærri borgir. Stærsta borgin er höfuðborgin sjálf með aðeins 12 þús íbúa.

Skjaldarmerki og fáni

breyta

Skjaldarmerki Burgenland sýnir rauðan örn á gulum bakgrunni. Fyrir framan örninn er minni skjöldur. Örninn er tákn greifanna af Mattersdorf-Forchtenstein, en minni skjöldurinn tákn greifanna af Güssing-Bernstein. Segja má að skjaldarmerkið vísi til sameiningu landsvæðisins í norðri og í suðri. Merkið var formlega tekið upp 1922, eftir stofnun Burgenlands. Fáninn samanstendur af tveimur láréttum röndum, rauðri að ofan og gulri að neðan. Litirnir voru einfaldlega teknir úr skjaldarmerkinu.

Orðsifjar

breyta

Burgenland heitir eftir þremur borgarvirkjum sem Ungverjar réðu til að stjórna héraðinu: Wieselburg (Moson), Ödenburg (Sopron) og Eisenburg (Vas). Austurríki gerði auk þess tilkall til fjórða borgarvirkisins og því var stungið uppá að sambandslandið héti Vierburgenland (Fjórborgaland). Þegar sýnt þótti að fjórða borgarvirkið myndi haldast í Ungverjalandi var stungið upp á Dreiburgenland (Þríborgaland). 1919 var stungið uppá Burgenland og var það samþykkt 1921.

Söguágrip

breyta
 
Vegaskilti á þýsku og ungversku

Síðan Habsborgarar erfðu krúnu Ungverjalands 1526 hafa bæði Ungverjar og þýskumælandi fólk búið í héraðinu. Tyrkir (osmanir) rústuðu stórum svæðum þess meðan þeir sátu um Vín 1683, en eftir að Tyrkir yfirgáfu landið settist fólk að á svæðinu sem talaði mismunandi tungumál, en þó voru ívið fleiri þýskumælandi. Síðla á 19. öld hóf ungverska stjórnin í Búdapest að flytja Ungverja inn á svæði þar sem þeir voru í minnihluta, til að geta gert tilkall til stærra svæða. 1907 var ungversku fólki í Burgenland bannað að tala önnur tungumál en ungversku. Þetta leiddi til mikillar spennu við þýskumælandi íbúa héraðsins. 1918 tapaði Austurríki (og Þýskaland) í heimstyrjöldinni fyrri og leystist þá konungssambandið milli Austurríkis og Ungverjalands upp. Bæði löndin gerðu tilkall til héraðsins Burgenland. 1919 ákváðu bandamenn að þýskumælandi hluti Vestur-Ungverjalands skyldi sameinast Austurríki. Eftir nokkra tregðu réðist austurríski herinn inn í Burgenland 1921 og hertók svæðið. Í desember fór fram aðkvæðagreiðsla íbúanna um sameiningu við Austurríki eða Ungverjaland. Flestir hreppirnir kusu sameiningu við Austurríki, en aðeins fáeinir við Ungverjaland. Þessi niðurstaða var látin gilda, þannig að meirihluti Burgenland var formlega sameinað Austurríki og varð að eigið sambandslandi. Í upphafi var gert ráð fyrir að borgin Ödenburg (Sopron) yrði höfuðborg. En borgin kaus sameiningu við Ungverjaland og því varð smáborgin Bad Sauerbrunn höfuðborg til bráðabirgða. 1922 kom þing sambandslandsins saman í fyrsta sinn og 1926 ákvað þingið að flytja til Eisenstadt. Burgenland var leyst upp sem sambandsland við sameiningu við Þýskaland Hitlers 1938 og sameinað Steiermark. Í lok heimstyrjaldarinnar síðari hertóku Sovétmenn Burgenland. Þeir endurstofnuðu Burgenland sem sambandsland og var það hluti af sovéska hernámssvæðinu til 1955. 1956 flúðu tugþúsundir Ungverja til Burgenland eftir misheppnaða byltingu gegn kommúnismanum. Eftir það voru gjörvöll austurlandamæri Burgenlands hluti af járntjaldinu milli austurs og vestur allt til 1989. 27. júní það ár lét Austurríki opna landamærin og flúðu þá þúsundir Austur-Þjóðverjar um Ungverjaland til Austurríkis. Í dag er Burgenland enn langfámennasta sambandsland Austurríkis. Þar er, auk þýsku, ungverska viðurkennt tungumál, sem og burgenlandkróatíska.

Engar eiginlegar borgir eru til í Burgenland. Jafnvel höfuðborgin er lítil annað en þokkalegur bær. Stærstu bæir Burgenlands:

Röð Bær Íbúar Ath.
1 Eisenstadt 12.663 Höfuðborg sambandslandsins
2 Oberwart 7.018
3 Mattersburg 6.878
4 Neusiedl am See 6.517

Heimildir

breyta

Fyrirmynd greinarinnar var „Burgenland“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt 29. nóvember 2011.

  NODES