Dómkirkjan í Aachen

Dómkirkjan í Aachen er keisarakirkja Karlamagnúsar í þýsku borginni Aachen. Í kirkjunni hafa rúmlega 30 konungar þýska ríkisins verið krýndir. Karlamagnús og Otto III keisari hvíla í steinkistum í kirkjunni. Kirkjan er á heimsminjaskrá UNESCO.

Dómkirkjan í Aachen

Saga dómkirkjunnar

breyta

Það var Karlamagnús sem lét reisa dómkirkjuna, a.m.k. elstu hluta hennar. Sá hluti er oft kallaður átthyrningurinn (Oktogon) og er fyrir miðju kirkjunnar. Talið er að hann hafi risið 793-794. Hann var svo vígður 805 af Leó III páfa. Kirkja Karlamagnúsar var í rúm 200 ár stærsta og mesta kirkjan norðan Alpa. Samkvæmt nýjustu rannsóknum þykir sýnt að þessi hluti kirkjunnar hafi verið rauður að utan. Allir litir eru hins vegar löngu horfnir. Í átthyrningi Karlamagnúsar er krýningahásætið fræga, þar sem 30 konungar þýska ríkisins voru krýndir. Karlamagnús sjálfur hvílir í þessum hluta kirkjunnar. Hann var settur í kistu árið 814. Þegar hann var lýstur helgur 1165 af kaþólsku kirkunni, voru bein hans færð í nýja kistu. 1215 negldi Friðrik II keisari síðasta naglann í þá kistu þegar hann sjálfur var krýndur til konungs. Í kirkjunni hvílir einnig Otto III keisari. Byrjað var að reisa turninn 1350 og er hann stakur, ólíkt flestum dómkirkjum. Úr turninum er brú yfir í átthyrninginn. Slíkt er einnig mjög óvenjulegt hjá kirkjum. Kór kirkjunnar var reistur 1355-1414. Hann er í reynd víðáttumesti hluti kirkjunnar í heild. Hann er 25 metra langur, 13 metra breiður og 32 metra hár. Nær allar hliðar eru alsettar stórum gluggum, sem í heildina taka 1.000 m². Þessi hluti var reistur fyrir líkamsleifar Karlamagnúsar og ríkisdjásnin. Nær allt í kringum kirkjuna eru hliðarkapellur sem eru yngri. Þær eru fimm að tölu. 1238 var byrjað á helgigöngum um götur Aachen og voru ríkisdjásnin og helgigripir með í för. Helgiganga þessi fór fram á 7 ára fresti. Sú síðasta fór fram árið 2007 og sú næsta verður 2014. Í brunanum mikla 1656 brunnu öll þök kirkjunnar, en innviðið slapp að öllu leyti. Í kjölfarið fékk kirkjan núverandi þök. Átthyrningurinn fékk þá hið óvenjulega hvolfþak. 1794 rændu Frakkar listaverkum úr kirkjunni, þar á meðal ríkisdjásnunum, og fluttu þau til Parísar. Sum listaverk eru þar enn. Í loftárásum heimstyrjaldarinnar síðari slapp kirkjan ótrúlega vel. Einungis gluggarnir miklu skemmdust verulega, en búið var að fjarlægja marga innanstokksmuni og listaverk til varðveislu. 1978 var kirkjan í heild sinni sett á heimsminjaskrá UNESCO, fyrst þýskra bygginga.

Listaverk og dýrgripir

breyta

Ríkisdjásnin

breyta

Ríkisdjásnin, sem flest eru frá tímum Karlamagnúsar, voru lengi vel geymd í dómkirkjunni. Á hinum og þessum tímum notuðu keisararnir þau, ekki bara í Aachen, heldur einnig á ferðalögum víða um ríkið. Um síðir fóru djásnin á flakk og enduðu í Nürnberg og svo í Vínarborg. Í Vín sat síðasti keisari þýska ríkisins og þar voru djásnin fram á 20. öld. Hitler lét sækja djásnin til Nürnberg, en Bandaríkjamenn fluttu þau aftur til Vínarborgar í lok heimstyrjaldarinnar síðari. Þar eru þau enn. Eftirmyndir af helstu ríkisdjásnunum er í ráðhúsinu í Aachen.

Krýningahásætið

breyta
 
Krýningahásætið

Krýningahásætið er staðsett í elsta hluta dómkirkjunnar og var smíðað á síðustu árum 8. aldar. Hásætið er á litlum súlnapalli og gert úr marmaraplötum sem settar eru saman með fjórum bronsklemmum. Upp á hásætið liggja 6 þrep sem einnig eru gerðar úr marmaraplötum. Sannað er að marmaraplöturnar séu úr Grafarkirkjunni í Jerúsalem sem teknar voru þaðan seint á 8. öld. Hásætið er haldið uppi með fjórum súlum. Tómarúmið milli þeirra er rétt nógu stórt að fólk gæti skriðið þar í gegn og var slíkt tákn um undirgefni. Þar sem gólfið undir súlunum er vel slípað, má reikna með því að margur maðurinn hafi sýnt undirgefni sína með tilheyrandi hætti. Í þessu hásæti voru 30 konungar þýska ríkisins krýndir. Samt var Karlamagnús sjálfur ekki krýndur í því. Síðasta krýningin fór fram 1531 er Ferdinand I var krýndur konungur. Eftir það hefur hásætið ekki verið notað.

Kista Karlamagnúsar

breyta
 
Kista Karlamagnúsar

Karlamagnús lést 814. Lík hans var sett í kistu í dómkirkjunni. 1215 lét Friðrik II keisari búa til skrautkistu fyrir forvera sinn. Hann fylgdist svo sjálfur með því hvernig líkamsleifar gamla keisarans voru flutt úr gömlu kistunni yfir í nýju kistuna. Þetta gerðist 27. júlí. Skrautkista Karlamagnúsar hefur síðan staðið í kirkjunni. Kistan er í líki kirkjuskips og er gerð úr eikarviði. Að utan er hún alsett gullslegnu silfri og kopari, en auk þess ýmsa gimsteinum og eðalsteina. Hliðarnar eru skreyttar myndum af keisurum ríkisins, 8 á hvorri hlið. Á öðrum gaflinum er Karlamagnús ásamt Leó III páfa og erkibiskupinum Turpin frá Reims. Á hinum gaflinum er María mey ásamt erkienglunum Míkael og Gabríel. Á lokinu eru myndir af atvikum úr ævi Karlamagnúsar. 1874 var kistan opnuð og líkið rannsakað. Niðurstaðan var sú að persónan mun hafa verið 2,04 m há. Viðbeinið hafði brotnað og var gróið á ný. Talið er öruggt að hér sé um Karlamagnús að ræða.

Maríuskrínið með helgigripina

breyta
 
Maríuskrínið með dýrmæta helgigripi

Hið fagra Maríuskrín var smíðað 1239 er eitt fegursta helgiskrín heims. Það var biskup kirkjunnar sem lét smíða gripinn fyrir ákveðna helgigripi í eigu kirkjunnar. Hér er um þrenna að ræða:

  • Lendarklæði Jesú
  • Kjóll Maríu meyjar
  • Líkklæði Jóhannesar skírara

Talið er að helgigripir þessir hafi borist til Aachen á tímum Karlamagnúsar. Þeir eru vel og vandlega pakkaðir inn í líndúka og eru ekki sjáanlegir. Skrínið sjálft er í formi eins og kirkjuskip. Það er gullslegið og allsett rúmlega 1000 gimsteinum. Á hliðunum eru myndir af postulunum 12. Á hinum hliðunum eru myndir af Jesú, Maríu mey, Leó III páfa og Karlamagnúsi. Á lokinu eru myndir af atburðum úr ævi Jesú. Skrínið er læst með forláta lás, sem hulinn er blýi. Lykillinn er sagaður í tvennt. Annar hlutinn geymir kirkjan, hinn er geymdur í ráðhúsinu. Reyndar er lykillinn þar með ónýtur. Síðan 1238 hafa þessir helgigripir verið notaðir í helgigöngur um götur Aachen. Er skrínið þá opnað og gripirnir settir á stöng eða pall, sem síðan er borinn í göngunni. Gangan fer ávallt fram á 7 ára fresti. Skrínið er opnað með því að brjóta lásinn með hamri. Í hvert sinn sem skrínið er lokað á ný er búinn til nýr lás og lykillinn sagaður í sundur á ný. Síðasta gangan fór fram 2007 og sú næsta fer fram 2014.

Ljósakrónan

breyta
 
Barbarossakrónan

Hin mikla ljósakróna dómkirkjunnar var smíðuð einhvern tímann á árunum milli 1165 og 1170. Það var Friðrik Barbarossa keisari og Beatrix eiginkona hans sem létu gera krónuna fyrir átthyrning (miðhluta) dómkirkjunnar. Hún var helguð Maríu mey, sem jafnframt er verndardýrlingur kirkjunnar. Eftir að hann var hengdur upp kallaðist hann Barbarossakrónan. Ljósakrónan er gerð úr gullslegnum kopari og er 4,20 metra í þvermáli. Hún hangir niður úr hvolfþakinu á 27 metra langri keðju, þannig að hún svífur í um 4 metra hæð yfir gólfinu. Hringurinn er gerður úr 8 samsettum hlutum, sem jafnframt mynda átthyrning. Sá hluti sem upp snýr á að tákna borgarmúra hins himneska Jerúsalem. Hringinn í kring eru 48 kerti sem tendruð eru enn í dag fyrir sérstaka viðburði. Barbarossakrónan er eina af fjórum rómönskum ljósakrónum sem enn eru til í Þýskalandi.

Klukkur

breyta

Í dómkirkjunni eru 8 kirkjuklukkur. Sú þyngsta heitir María og vegur 6 tonn. Sjö af klukkunum eru frá árinu 1659 og voru smíðaðar í Trier, enda eyðilögðust allar klukkur í brunanum mikla 1656. Aðeins Maríaklukkan er yngri, en hún er frá 1958.

Gallerí

breyta

Heimildir

breyta

Fyrirmynd greinarinnar var „Aachener Dom“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt apríl 2010.

  NODES