Demokraatit (íslenska: Demókratarnir) eru grænlenskur stjórnmálaflokkur sem hefur þrjá fulltrúa á landsþinginu (2021). Flokkurinn telst á hægri væng grænlenskra stjórnmála og hefur í seinni tíð tekið við af Atassut sem leiðandi afl þeirra sem vilja ekki stefna að auknu stjórnmálalegu sjálfstæði landsins, en einnig leggur flokkurinn sérstaka áherslu á menntamál og húsnæðismál. Systurflokkur hans í dönskum stjórnmálum er Radikale venstre og núverandi formaður er Jens-Frederik Nielsen.

Saga og stefna

breyta

Demokraatit var stofnað síðla árs 2002, fáeinum dögum fyrir landsþingskosningar, af Per Berthelsen sem skömmu áður hafði verið vikið úr jafnaðarmannaflokknum Siumut vegna andstöðu sinnar við auknar fjárveitingar til byggingar háskólans í Nuuk. Flokkurinn fékk fimm þingmenn í þessum fyrstu kosningum sínum, þar sem sérstök áhersla var lögð á ábyrgð í fjárútgjöldum. Demokraatit gekk enn betur í kosningunum 2005 og bætti við sig tveimur mönnum. Engu að síður var Berthelsen settur af sem formaður árið 2007. Hann freistaði þá inngöngu í Inuit Ataqatigiit án árangurs, en gekk á ný liðs við Siumut fyrir kosningarnar 2009 og náði kjöri á þing.

Árið 2007 tók flokkurinn upp samband við danska Íhaldsflokkinn en því var slitið eftir fáein misseri og frá 2012 hefur Demokraatit verið í samvinnu við Radikale venstre.

Eftir kosningarnar 2009 stóð flokkurinn að myndun meirihlutastjórnar undir stjórn Inuit Ataqatigiit og var það í fyrsta sinn sem Siumut, hinn hefðbundni valdaflokkur á Grænlandi, lenti utan stjórnar. Samstarfið var ekki árekstralaust enda um andstæða póla að ræða í stjórnmálum þar sem Inuit Ataqatigiit er sjálfstæðissinnaður og lengst til vinstri en Demokraatit er hægra megin við miðju og vill halda í sambandið við Dani. Stjórnarsetan lék Demokraatit grátt og fékk flokkurinn sína verstu útkomu, 6,2% atkvæða og tvo þingmenn.

Demokraatit kom aftur að myndun ríkisstjórnar eftir kosningarnar 2018 undir forystu Kim Kielsen leiðtoga Siumut. Deilur um námuvinnslu í landinu urðu til þess að Demokraatit dró sig út úr stjórninni í febrúar 2021. Í kosningunum í kjölfarið missti flokkurinn helming þingmanna sinna, fékk 9,3% og þrjá fulltrúa.

Tenglar

breyta
  NODES