Evrópski flóttamannavandinn

Evrópski flóttamannavandinn vísar til mikilla þjóðflutninga fólks yfir Miðjarðarhafið sem hófust árið 2015 en þá jókst til muna för flóttafólks yfir hafið og til Evrópu.

Kort af flóttamannavandanum árið 2015
Upprunalönd flóttamanna árið 2015
Írska strandgæslan bjargar flóttamönnum á Miðjarðarhafi
Biðraðir á Westbahnhof lestarstöðinni í Vínarborg

Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum höfðu í október 2015 komið yfir 740.000 manns sjóleiðis til Evrópu. Þar af 53% frá Sýrlandi, 18% frá Afghanistan, 6% frá Írak og 5% frá Erítreu. Um 65%% voru fullorðnir karlmenn, 14% konur og 20% börn.[1]

Í víðara samhengi var uppruni flóttamanna frá Miðausturlöndum, Afríku og Suður-Asíu og Balkanskaga og 60 milljónir á heimsvísu eru á flótta.[2] Stríð og átök í heimalöndum flóttamanna höfðu áhrif á fólksflutninga þeirra til Evrópu, þar á meðal sýrlenska borgarastyrjöldin.

Aðalbrottfararstaðir flóttamanna voru frá mið-Miðjarðarhafi, aðallega frá Líbýu til Ítalíu og frá austur- Miðjarðarhafi, frá Tyrklandi yfir til Grikklands. Grísku eyjarnar í námunda við Tyrkland, þar á meðal Lesbos og Kos, voru algengir áfangastaðir. Um 750% aukning var í straumi flóttamanna til Grikklands árið 2015.[3] 2000 manns drukknuðu á leið sinni um hafið árið 2015.[4]

Evrópulönd komu sér ekki saman um hvernig leysa ætti vandann. Fjögur lönd: Þýskaland, Svíþjóð, Ítalía og Frakkland tóku á móti 2/3 af flóttamönnum sem hafa fengið dvalarleyfi.[5] Lagt hefur verið til að lönd í Evrópusambandinu dreifi flóttamönnum um svæði sambandsins. Tékkland, Ungverjaland, Pólland, Lettland og Slóvakía lýstu því yfir að þau vildu ekki taka á móti skyldukvóta flóttamanna.[6] Ungverjaland og Búlgaría byggðu girðingu við landamæri sín til að hefta straum flóttamanna. Önnur ríki íhuguðu það sama t.d. Austurríki[7] og Slóvenía.[8] Evrópusambandið reiknaði með að 3 milljónir flóttamanna í viðbót til loka ársins 2017.[9]

Albanía, Makedónía, Svartfjallaland, Serbía, Bosnía og Hersegóvína og Tyrkland voru talin örugg upprunalönd af Evrópusambandinu og var umsækjendum þaðan hafnað á þeim grundvelli.[10]

Landhelgisgæslan tók þátt í Frontex landamærastofnun ESB við að bjarga flóttamönnum frá Miðjarðarhafi.[11] Fjallað var um flóttamannavandann ítarlega í Kastljósi.[12]

Einstök lönd

breyta

Ísland

breyta

Tekið var á móti um hundrað sýrlenskum flóttamönnum úr flóttamannabúðum í Líbanon í desember 2015, fjölskyldufólki.[13] Félagsmálaráðherra og bæjarstjórar Akureyrarkaupstaðar, Hafnarfjarðarkaupstaðar og Kópavogsbæjar undirrituðu samninga um móttöku 55 sýrlenskra flóttamanna.[14]

Kanada

breyta

Upphaflega ætlaði Kanada að taka við 25.000 flóttamönnum fyrir árslok 2015 en minnkaði fjöldann í 10.000. Afgangurinn kom eftir áramót.[15]

Danmörk

breyta

Flestir flóttamenn fóru í gegnum Danmörku á leið sinni til Svíþjóðar. Dönsk stjórnvöld höfðu hugmyndir uppi að taka verðmæti af flóttafólki til að greiða fyrir kostnað. Þessi áform voru gagnrýnd sem öfgafull og grimmdarleg.[16]

Noregur

breyta

Alls komu yfir 30 þúsund flóttamenn og hælisleitendur komið til Noregs árið 2015. Stjórnvöld í Noregi ákváðu að vísa öllum flóttamönnum til baka sem komu til landsins frá Rússlandi. Útlendingastofnun landsins óskaði eftir landrými fyrir bragga í Osló þar sem þrjú þúsund manns gætu búið. Borgarstjórinn taldi misráðið að láta svo marga flóttamenn búa á sama stað. Erna Solberg forsætisráðherra sagði að Norðmönnum væri virkilegur vandi á höndum. Flóttamönnum og hælisleitendum fjölgaði um 350 á dag að meðaltali í lok árs 2015.[17]

Svíþjóð

breyta

Svíar tók upp tímabundið eftirlit á landamærum sínum. Innanríkisráðherra Svíþjóðar sagði að fjöldi þeirra sem leitaði hælis í Svíþjóð um þessar mundir væri fordæmalaus og lögregla óttaðist að hættuástand gæti skapast í landinu. Kveikt var í nokkrum móttökuheimilum flóttamanna víðs vegar um landið. Hátt í 200.000 manns leituðu hælis í Svíþjóð árið 2015.[18] Í byrjun árs 2016 tóku Svíar upp nýjar reglur um vegabréfaeftirlit í lestum, rútum og farþegaflugvélum milli Danmerkur og Svíþjóðar. Kúvending varð í innflytjendastefnu Svíþjóðar í byrjun árs 2016. Landið lofaði öllum hæli sem vildu, en gerði svo allt til að draga úr straumi flóttafólks til landsins.[19]

Áætlað var að vísa um 80.000 manns úr landi.[20]

Finnland

breyta

Finnsk stjórnvöld gerðu ráð fyrir að um það bil 20.000 af þeim 32.000 hælisleitenda sem komu til Finnlands árið 2015 yrði synjað um hæli og þeim vísað úr landi í kjölfarið, eða ríflega 60% þeirra.[21]

Þýskaland

breyta

Talið er að allt að ein milljón hælisleitenda hafi komið til Þýskalands á árinu 2015. Þýskaland gat ekki lofað að taka við fjölskyldum allra þeirra flóttamanna sem þegar voru komnir til landsins. Þá myndi fjöldinn þrefaldast. Innanríkisráðherra landsins sagði að Þýskaland gæti ekki boðið öllu fólkinu nauðsynlega þjónustu eða húsnæði.[22] Angela Merkel, kanslari, hvatti Þjóðverja til að sjá tækifæri í flóttafólki og gagnrýndi hópa fjandsamlega útlendingum.[23]

Í janúar 2016 setti Þýskaland Alsír, Marokkó og Túnis á lista yfir örugg ríki. Tilgangurinn var að draga úr straumi flóttafólks sem flúði bágt efnahagsástand en ekki stríð.[24]

Austurríki

breyta

Í janúar 2016 ákváðu stjórnvöld í Austurríki að einungis leyfa þeim sem óska eftir hæli í Þýskalandi sem eru á landamærum Þýskalands og Austurríkis að halda áfram. Þeir sem ætluðu lengra yrði snúið við.[25] Austurríkismenn stefndu á að vísa um 50.000 manns úr landi á næstu þremur árum.[26]

Austurríska þingið samþykkti í apríl breytingar á flóttamannalögum landsins, sem gerðu þau ein hin ströngustu í Evrópu. Þau heimiluðu stjórnvöldum meðal annars að lýsa yfir neyðarástandi ef flóttamönnum og hælisleitendum fjölgaði skyndilega í landinu. Einnig var yfirvöldum heimilað að neita nánast öllum flóttamönnum um hæli við landamærin ef þeir ættu ekki nána ættingja í Austurríki. Þar á meðal voru Sýrlendingar sem flúið höfðu borgarastyrjöldina.[27]

Flóttamenn sem komu til Sviss voru látnir afhenda verðmæti sem voru umfram 1.000 franka; jafnvirði um 130.000 króna. Verðmætin sem hald var lagt á, voru notuð til að greiða fyrir hluta af kostnaði við uppihald flóttafólks. Þessum aðgerðum Svisslendinga þótti svipa til laga um flóttafólk í Danmörku.[28]

Tékkland

breyta

Forseti Tékklands, Miloš Zeman, fullyrti í jólaávarpi 2015 að fólksflótti frá Írak og Sýrlandi væri skipulögð innrás en ekki leit að hæli. Mögulega væri hægt að sýna þeim samúð sem eru eldri og veikburða sem og börnum en ungir menn ættu að halda sig heima. Forsætisráðherrann Bohuslav Sobotka gaf ekki mikið fyrir ummæli forsetans. Hann sagði jólakveðju hans uppfulla af fordómum og einföldun. Viðhorfskönnun sýndi að um 70 prósent Tékka væru á móti komu flóttamanna og hælisleitenda til landsins. Tékkland hafnaði samkomulagi Evrópusambandsins um kvótaflóttamenn.[29]

Makedónía

breyta

Í byrjun árs 2016 mættu flóttamenn og hælisleitendur meira eftirliti og takmörkunum í Makedóníu. Ungir menn voru grandskoðanir. Þeir sem flúðu átök í Sýrlandi, Afghanistan og Írak var hleypt í gegnum landamærin.[30]

Þróun frá árinu 2016

breyta

Evrópusambandið kynnti í maí ný áform. Tyrkir fengu að ferðast án áritunar um lönd Evrópusambandsins og var það liður í samningi við Tyrki um hjálp við að stöðva straum flóttafólks til Evrópu. Þá yrðu þau Evrópusambandsríki sem tækju ekki á móti sanngjörnum fjölda hælisleitenda og flóttafólks að borga 35 milljóna króna í sekt fyrir hvern hælisleitanda.

Fjögur Mið-Evrópuríki: Pólland, Slóvakía, Tékkland og Ungverjaland gagnrýndu harðlega tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að sekta sambandsríkin. Utanríkisráðherra Ungverjalands sagði framkvæmdastjórnin beita kúgun.[31]

Ferðum flóttamanna sjóleiðina frá Afríku til Evrópu fjölgaði með hlýnandi veðri og var nú aðalleiðin þar sem stemmt hefur verið stigu við fólksflutningum yfir Eyjahaf. Flóttamannaskýli á Sikiley fylltust.[32]

Í lok maí létust um 700 manns í sjóslysum undan ströndum Líbýu.[33]

Evrópusambandið og Tyrkland komust að samkomulagi um að hefta för báta til Grikklands með þeim afleiðingum að ferðum fækkaði um 97% og samningur við Líbíu árið 2017 fækkaði ferðum allnokkuð. [34]

Tilvísanir

breyta
  1. Refugee/migrants emergency response UNHCR Geymt 21 mars 2016 í Wayback Machine, Skoðað 3. nóvember 2015.
  2. A Mass Migration Crisis, and It May Yet Get Worse, Skoðað 3. nóvember 2015
  3. Migrant 'chaos' on Greek islands - UN refugee agency, Skoðað 3. nóvember 2015
  4. Rúmlega tvö þúsund flóttamenn hafa drukknað í Miðjarðarhafi í ár, Skoðað 3. nóvember 2015
  5. Which Countries Are Under the Most Strain in the European Migration Crisis?, Skoðað 3. nóvember 2015
  6. Eastern european leaders defy EU effort to set refugee quotas, Skoðað 3. nóvember 2015
  7. Austurríkismenn reisa girðingu, Skoðað 3. nóvember 2015
  8. Slóvenar íhuga girðingu við landamærin, Skoðað 3. nóvember 2015
  9. Þrjár milljónir til Evrópu, Skoðað 6. nóvember 2015
  10. An EU ,,safe countries og origin list, Skoðað 3. nóvember 2015
  11. Varðskipið Týr heldur til björgunar- og eftirlitsstarfa fyrir Frontex, Skoðað 3. nóvember 2015
  12. Flóttamannavandinn í Evrópu, Skoðað 3. nóvember 2015
  13. Um 200 flóttamenn í desember Skoðað 25. nóvember 2015.
  14. Samið um móttöku flóttamanna í desember Skoðað 25.nóvember 2015.
  15. Einungis 10.000 til Kanada fyrir árslok Skoðað 25. nóvember 2015.
  16. Denmark plan to seize migrants' assets draws protests Skoðað 5. janúar 2016
  17. Braggahverfi fyrir flóttafólk slæm hugmynd Skoðað 25. nóvember 2015.
  18. Svíar taka upp landamæraeftirlit Skoðað 25. nóvember 2015.
  19. Landamæraeftirlit milli Danmerkur og Svíþjóðar Skoðað 4. janúar 2016.
  20. Svíar ætla að vísa tugþúsundum úr landi RÚV. Skoðað 31. janúar 2016.
  21. Meirihluta hælisleitenda vísað frá Finnlandi RÚV. Skoðað 31. janúar, 2016.
  22. Þýskaland takmarkar fjölda flóttamanna Skoðað 25. nóvember 2015.
  23. Migrant crisis: Merkel urges Germans to see 'opportunity' Skoðað 5. janúar 2016.
  24. Alsír, Marokkó og Túnis séu örugg ríki RÚV. Skoðað 31. janúar 2016.
  25. Austuríkismenn herða reglur um hælisleitendur RÚV. Skoðað 15. janúar 2016.
  26. 50.000 vísað frá Austurríki á næstu 3 árum ruv.is. Skoðað 31. janúar 2016.
  27. Austurríkismenn herða flóttamannalögin RÚV, skoðað 4. maí 2016.
  28. Svisslendingar taka fé af flóttafólki RÚV. Skoðað 15. janúar 2016.
  29. Flóttamenn fá kalda kveðju frá Tékklandi Skoðað 15. janúar 2016.
  30. Migrants feel chill as Europe tightens frontier checks BBC news. Skoðað 16. janúar 2016
  31. Saka ESB um kúgun RÚV. Skoðað 4. maí 2016.
  32. 13 þúsund bjargað á Miðjarðarhafinu RÚV, skoðað, 29. maí 2016.
  33. European migrant crisis:: Shipwrecks 'kill up to 700 migrants' BBC. Skoðað 29. maí, 2016
  34. Italy migrants: Interior minister's claims about immigration BBC. Skoðað 11. júní, 2018.
  NODES
languages 1
mac 1
os 9