Flaska
Flaska er lítið ílát með háls sem er mjórri en meginhlutinn auk stút efst á hálsinum sem er oftast hringlaga og er oft lokað með tappa. Flöskur eru oftast gerðar úr gleri, plasti eða áli og eru venjulega notaðar til að geyma vökva til dæmis vatn, mjólk, gosdrykki, vín, eldsneyti og svo framvegis
Neðst á flösku er botn hennar, það er flöskubotninn. Undir honum er stundum böðlastaup sem er dæld sem gengur upp í botninn. Upp af botninum tekur við bolur flöskunnar, en þar sem hún mjókkar upp á við eru axlir hennar (sbr. axlafull flaska). Þá tekur við háls og efst er stúturinn.
Böðlastaup
breytaÁ léttvínsflöskum og ýmsum flöskum öðrum er böðlastaup sem er dæld neðan í flöskubotni. Böðlastaupið er hugsað sem vörn gegn því að flaskan springi þegar hún er lögð á borð þar sem fyrir er aðskotahlutur. Einnig er talið að það styrki flöskuna almennt. Ýmsar aðrar útskýringar eru til sem útskýra böðlastaupið. Þar má til dæmis nefna:
- Það auðveldi hvort tveggja gerjun og komi í veg fyrir að á botni hennar myndist botnfall.
- Það auðveldi stöflun flaskna, til dæmis á þetta við um kampavínsflöskur.
- Það auðveldi þeim sem helli úr flöskunni, bæði hvað varðar grip (þumalgrip) og jafnvægi.