Gladys Knight & the Pips

bandarísk hljómsveit

Gladys Knight & the Pips voru bandarísk ryþmablús-/sálartónlistar-/fönkhljómsveit frá Atlanta í Georgíu sem starfaði í um þrjá áratugi við mikinn orðstír. Meðal þekktustu smella hljómsveitarinnar eru lögin „I heard it through the grapevine“ frá 1967 og „Midnight train to Georgia“ frá 1974.

Gladys Knight & the Pips um borð í flugmóðurskipinu USS Ranger árið 1981.

Hljómsveitin var stofnuð árið 1952 af systkinunum Gladys Knight, Merald „Bubba“ Knight, Brendu Knight og frændsystkinum þeirra Eleanor og William Guest og hét þá einfaldlega „The Pips“. Hljómsveitin komst á samning hjá Brunswick Records árið 1957 og tóku þar upp tvær smáskífur sem seldust illa. Eleanor og Brenda yfirgáfu hljómsveitina 1959, en í þeirra stað komu Edward Patten og Langston George. Þau tóku upp fyrsta smell sveitarinnar „Every beat of my heart“ árið 1961 en árið eftir hættu bæði Gladys og Langston í hljómsveitinni. Gladys gekk svo aftur til liðs við hana árið 1964. Hljómsveitin varð snemma þekkt fyrir æfða sviðsframkomu og dansspor sem tryggðu henni vinsældir.

Árið 1966 tók Motown hljómsveitina upp á sína arma sem „Gladys Knight and the Pips“ og þar náði hún mestum vinsældum. Fyrsti smellur hennar hjá Motown var „I heard it through the grapevine“ eftir lagasmíðadúóið Norman Whitfield og Barrett Strong. Hljómsveitin tók upp fjölda vinsælla laga fyrir útgáfuna, eins og „If I were your woman“ og „Neither one of us (wants to be the first to say goodbye)“. Árið 1973 hvarf hljómsveitin frá Motown og til Buddah Records. Þar tók hún upp stærsta smell hljómsveitarinnar „Midnight train to Georgia“ eftir Jim Weatherly sem náði í 1. sæti á bandaríska Billboard-listanum 1974. Árið 1980 fór hljómsveitin til Columbia Records og 1989 hætti hún störfum.

  NODES