Guðspjall (úr fornensku godspell; þýðing á gríska orðinu εὐαγγέλιον evangelion „góð frétt“, „fagnaðarerindi“) er heiti á ritum sem fjalla um ævi Jesú Krists, orð hans og athafnir, réttarhöldin yfir honum, aftöku og endurkomur eftir upprisuna. Þótt flestir biblíufræðingar telji guðspjöllin ekki nákvæmar heimildir um ævi Krists, eru þau þó álitin mikilvæg til að greina elstu hugmyndir manna um Jesús frá síðari guðfræðiritum.

Í kanónu Nýja testamentisins eru aðeins fjögur guðspjöll. Þau eru talin vera samin á milli 66 og 110 e.Kr. Flestir álíta að höfundar þeirra hafi verið nafnlausir í upphafi, en á 2. öld var tekið að nefna þá Markús, Mattheus, Lúkas og Jóhannes („guðspjallamennirnir fjórir“). Nær öruggt er að ekkert þeirra er vitnisburður um ævi Krists frá fyrstu hendi, heldur byggjast þau á eldri munnlegri og ritaðri sagnahefð. Flestir telja að Markúsarguðspjall sé elst af þessum fjórum og byggist á nokkrum heimildum. Þar á eftir koma Mattheusarguðspjall og Lúkasarguðspjall, sem bæði nýta sér Markúsarguðspjall, en bæta við safni orðskviða og fleiri atriðum. Jóhannesarguðspjall er talið byggt á svokallaðri Semeion-heimild („jarteinaguðspjallinu“) sem gæti hafa verið í umferð hjá Jóhannesarsöfnuði í frumkristni.

Mörk apókrýf guðspjöll eru til, en þau eru öll yngri en kanónísku guðspjöllin fjögur. Líkt og þau eldri, ganga þessi guðspjöll út á að færa rök fyrir tiltekinni guðfræðilegri afstöðu. Fræg apókrýf guðspjöll eru meðal annars Tómasarguðspjall, Pétursguðspjall, Júdasarguðspjall og Maríuguðspjall; frumguðspjöll eins og Jakobsguðspjall (það fyrsta sem minnist á skírlífi Maríu) og samræmisguðspjöll eins og Diatessaron.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.
  NODES