Guan Yu (關羽) (um 160 e.Kr. - 220 e. Kr.) var kínverskur hershöfðingi á 2. öld og 3. öld, þ.e. á Han-tímabilinu og Þríríkjatímabilinu svokallaða, sem hefur síðar meir verið tekinn í guðanna tölu í kínverskri þjóðtrú, og er víða dýrkaður sem guð í Kína. Hann er einn af þeim guðum í kínverskri trú sem vitað er fyrir víst að hafi upphaflega verið raunveruleg söguleg persóna.

Mynd af Guan Yu úr handritinu Sancai Tuhui frá 17. öld.

Fæðingarár, dauðadagur og sagnfræðilegar heimildir

breyta

Guan Yu var hershöfðingi á 2. og 3. öld, undir lok Han-tímabilsins og í byrjun Þríríkjatímabilsins svokallaða. Ekki er vitað fyrir víst hvenær hann fæddist, en það er talið hafa verið árið 160 e.Kr. Hinsvegar eru nokkuð öruggar sagnfræðilegar heimildir fyrir því að hann hafi látist árið 220, þar sem þess er getið í miðalda-annálnum Zizhi Tongjian (資治通鑑) frá 11. öld.

Þríríkjasaga

breyta

Sem sagnfræðileg persóna er Guan Yu talinn vera einn þekktasti kínverski einstaklingurinn frá fornöld.[1] Það er einkum vegna þess að hann er ein af aðalpersónunum í hinni þekktu sögulegu skáldsögu frá 14. öld sem nefnist Þríríkjasaga, en það er ein af hinum svokölluðu „fjórum klassísku skáldsögum“ frá tímum Mingveldisins og Tjingveldisins. Þríríkjasaga segir frá borgarastyrjöldinni sem geisaði í Kína á þessum tíma á milli mismunandi stríðsherra og þriggja konungsvelda, þeirra Wei, Shu og Wu. Sagan segir meðal annars frá miklum hetjudáðum og einnig af nokkrum af þekktustu orrustum í sögu Kína, eins og orrustunni við Rauðaklett árið 208 e.Kr.[2]

Í Þríríkjasögu berst Guan Yu fyrir Shu-veldið, en sagan hefst á „eiðinum í ferskjugarðinum“ svokallaða, þegar Liu Bei (stríðsherrann sem leiðir Shu-veldið) sver eið með tveimur hershöfðingjum sínum, nefnilega Guan Yu og einnig Zhang Fei, um að verða blóðbræður og fylgja hverjum öðrum til dauðadags. Guan Yu tekur síðan þátt í ýmsum vel kunnugum orrustum og sýnir fram á mikla hernaðarsnilld, hetjudáð og hollustu við sína leiðtoga, eins og við Liu Bei, sem hann sór með eið.[2]

Guan Yu sem guð í kínverskri trú

breyta

Eftir að hafa orðið ein þekktasta persónan úr kínverskri fornöld, vegna frásagnarinnar af honum í Þríríkjasögu, hefur Guan Yu síðar meir verið tekinn í guðanna tölu og hefur verið dýrkaður sem stríðsguð. Sem guð fékk hann titilinn Guandi (eða Kuan Ti) (關帝), sem þýðir nokkurnveginn „hinn heilagi Guan“ eða „Keisari Guan“. Vegna þeirra eiginleika sem eru tileinkaður honum í Þríríkjasögu (sjá kaflann hér fyrir ofan) er Guan Yu, til viðbótar við að vera stríðsguð, m.a. talinn vera guð hollustu og guð hinna réttlátu, þ.e. baráttu hinna réttlátu gegn andstæðingum sínum. Á þeim líkneskjum sem má finna af honum víðsvegar um Kína er hann oft sýndur með blóðbræður sína sér við hlið, þá Liu Bei á hægrihönd og Zhang Fei á vinstri hönd.[3]

Guan Yu er einn vinsælasti guðinn í Kína, sem skýrist meðal annars af því að árið 1614 tilskipaði Ming-veldið að hann skyldi opinberlega tekinn í guðanna tölu, með titilinn Guandi, og árið 1725 gerði Tjingveldið dýrkun á Guandi að nokkurskonar ríkistrú. Á keisara-tímabilinu (fram til ársins 1911) var þess vegna að finna fleiri hundruð hof tileinkuð Guan Yu í öllum héruðum Kína, og yfirvöld gerðu um 1,600 þeirra að opinberum ríkishofum. Guan Yu er yfirleitt tilbeðinn á níunda degi níunda mánaðir í Kínverska tungltímatalinu.[3] Hann er yfirleitt sýndur með einkennisvopn sitt sem þekkt er sem „hálfmánasverð græna drekans,“ nokkurskonar kesju, eða höggsverð á spjótsenda, en þessu goðsagnakennda vopni er lýst í Þríríkjasögu.[4]

Nú á dögum er dýrkun á Guan Yu útbreiddust í suðurhluta Kína, Taívan, Hong Kong og á meðal kínversku díasporunnar, einkum í Indónesíu, Víetnam, Malasíu og Singapúr. Hann má finna sem goð í öllum helstu kínversku trúarbrögðunum, þ.m.t. alþýðutrúnni, Konfúsíusarhyggju, Daóisma og Búddisma.[4] Hof tileinkuð Guan Yu má finna út um allt Kína, og líkneski af honum eru mjög algeng í hefðbundnum kínverskum verslunum og á veitingastöðum. Einnig er að finna Guan Yu líkneski á nánast öllum (ef ekki öllum) lögreglustöðvum í Hong Kong (Zhou, 2021).[1]

Þann 11. júlí 2016 var vígð risastór stytta af Guan Yu í borginni Jingzhou í Hubei-héraði í miðju Kína (rétt hjá Wuhan-borg). Styttan er 58 metra há, 1,320 tonn á þyngd, og þakin í brons. Inni í styttunni er svo að finna safn tileinkað honum, Guan Yu-safnið.[4]

Heimildir

breyta
  • Chang, Stephanie. (2016, 16. júlí). „Monumental 1,320-Ton Sculpture of Chinese War God Watches Over the City.“ My Modern Met. Sótt 28. janúar 2021 af: https://mymodernmet.com/guan-yu-1320-ton-war-god-sculpture-jingzhou-china/
  • Perkins, Dorothy. (2013). Encyclopedia of China: The Essential Reference to China, its History and Culture. London; New York: Routledge.
  • Zhou, Ruru. (2021, 28. janúar). „Guan Yu.“ China Highlights (vefsíða kínversks ferðaþjónustufyrirtækis). Sótt 28. janúar 2021 af:  https://www.chinahighlights.com/travelguide/china-history/guan-yu.htm

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 Ruru Zhou (Janúar 2021). „China History: Guan Yu“. China Highlights. Sótt Janúar 2021.
  2. 2,0 2,1 Dorothy Perkins (2013). Encyclopedia of China: The Essential Reference to China, its History and Culture. Routledge. bls. 436.
  3. 3,0 3,1 Dorothy Perkins (2013). Encyclopedia of China: The Essential Reference to China, its History and Culture. Routledge. bls. 192.
  4. 4,0 4,1 4,2 Stephanie Chang (Júlí 2016). „Monumental 1,320-Ton Sculpture of Chinese War God Watches Over the City“. My Modern Met. Sótt Janúar 2021.
  NODES