Henrietta Swan Leavitt

Henrietta Swan Leavitt (4. júlí 1868 – 12. desember 1921) var bandarískur stjörnufræðingur. Hún lærði við Harvard-háskóla (Radcliffe College) og starfaði sem reiknari á Stjörnuathugunarstöð Harvard-háskóla. Hún átti að skoða ljósmyndir til að mæla og skrá birtustig stjarna. Í þessari vinnu uppgötvaði hún tengsl milli birtustigs og púlslotu sefíta. Þessi uppgötvun varð til þess að stjörnufræðingar fengu „staðalkerti“ sem hægt var að nota til að mæla fjarlægðir til annarra stjörnuþoka.[1][2]

Henrietta Swan Leavitt.

Áður en Leavitt uppgötvaði lotulýsilögmálið byggðust aðferðir stjörnufræðinga til að mæla fjarlægðir á hliðrun og þríhyrningamælingum. Hægt er að nota slíkar aðferðir fyrir fjarlægðir upp að nokkur hundruð ljósárum. Aðferð Leavitt gerði stjörnufræðingum kleyft að mæla fjarlægðir upp á 20 milljónir ljósára. Meðal annars vegna þessa er nú vitað að okkar eigin stjörnuþoka, Vetrarbrautin, er um 100.000 ljósár í þvermál. Síðar meir notaði Edwin Hubble lotulýsilögmálið ásamt rauðvikum sem Vesto Slipher hafði fyrstur mælt, til að sanna að alheimurinn væri að þenjast út (sjá lögmál Hubbles).

Leavitt barðist við veikindi sem trufluðu vísindastarf hennar við stjörnuathugunarstöðina og hún missti smám saman heyrn.[3][4] Hún lést aðeins 53 ára úr magakrabba. Loftsteinninn 5383 Leavitt og Leavitt-gígurinn á tunglinu heita eftir henni.

Tilvísanir

breyta
  1. Leavitt, Henrietta S. (1908). „1777 variables in the Magellanic Clouds“. Annals of Harvard College Observatory. 60: 87–108. Bibcode:1908AnHar..60...87L.
  2. Leavitt, Henrietta S.; Pickering, Edward C. (mars 1912). „Periods of 25 Variable Stars in the Small Magellanic Cloud“. Harvard College Observatory Circular. 173: 1–3. Bibcode:1912HarCi.173....1L.
  3. Hockey, Thomas (2007). Biographical Encyclopedia of Astronomers. New York: Springer-Verlag. ISBN 978-0-387-35133-9.
  4. Hamblin, Jacob Darwin (2005). Science in the Early Twentieth Century. ABC-CLIO. bls. 181–184. ISBN 978-1-85109-665-7.
  NODES