Jón Arason

kaþólskur biskup, skáld og athafnamaður (1484-1550)

Jón Arason (14847. nóvember 1550) Hólabiskup var síðasti kaþólski biskupinn á Íslandi fyrir siðaskipti. Hann var einnig skáld og athafnamaður og flutti til Hóla fyrstu prentsmiðjuna á Íslandi. Hann var tekinn af lífi ásamt tveimur sonum sínum í Skálholti 1550.

Jón Arason biskup. Mósaíkmynd á vegg yfir gröf hans í turni Hóladómkirkju.

Uppruni og frami

breyta
 
Stytta af Jóni Arasyni á Munkaþverá, gerð af Guðmundi Einarssyni frá Miðdal.

Jón var sonur Ara Sigurðssonar, bónda á Laugalandi í Eyjafirði, sonar Sigurðar Jónssonar, sem var príor í Möðruvallaklaustri 1439-1492, og konu Ara, Elínar bláhosu Magnúsdóttur. Ari dó þegar Jón var ungur og ólst hann upp með móður sinni á Grýtu, kotbýli skammt frá Munkaþverárklaustri, en þar var ábóti Einar Ísleifsson frændi Elínar og hafa mæðginin líklega verið þar í skjóli hans. Löngu seinna orti Jón gamansama vísu þar sem hann lét sem Grýta hefði verið mikil kostajörð samanborið við helstu höfuðból Eyjafjarðar: Ýtar buðu Grund við Grýtu / Gnúpufell og Möðruvelli / en ábótinn vill ekki láta / aðalból, nema fylgi Hólar.

Oft mun þó hafa verið þröngt í búi hjá mæðginunum á Grýtu en Einar ábóti liðsinnti frænda sínum, lét hann vinna fyrir mat sínum í klaustrinu og veitti honum menntun. Ekki er þó víst hve mikil sú menntun var og að minnsta kosti þótti latínukunnátta hans ekki mikil en sagt að þeim mun meiri þekkingu hafi hann haft á norrænum fræðum. Frændi hans var líka með lærðustu mönnum og rak skóla í klaustrinu. Líklega hefur Jóni líkað vistin þar vel því að hann setti börn sín þar til mennta síðar.

Árið 1507, þegar Jón var 23 ára gekk hann í þjónustu Gottskálks biskups Nikulássonar á Hólum. Sama ár var hann vígður til prests á Helgastöðum í Reykjadal og kynntist þar Helgu, sem varð fylgikona hans. Ári síðar fékk hann Hrafnagil, sem þótti eitt besta brauð í Eyjafirði. Innan tíðar var hann orðinn prófastur í Eyjafirði og um tíma var hann einnig sýslumaður þar. Árið 1514 varð hann Hólaráðsmaður. Hann var mjög handgenginn Gottskálk biskupi, var til dæmis svaramaður þegar Kristín dóttir hans giftist Jóni Einarssyni 1515, og fór tvisvar til útlanda í erindum biskups.

Biskupsefni

breyta

Gottskálk andaðist 28. desember 1520 og má segja að Jón hafi þá þegar tekið öll völd á Hólum. Hann var svo kosinn biskup en vígsluför hans dróst næstu árin. Hann tók við ýmsum óloknum málum Gottskálks, meðal annars deilu um eignir Jóns Sigmundssonar lögmanns, sem reyndar lést sama ár og Gottskálk, en Jón reyndi að ná eignum af Einari syni hans. Einar leitaði ásjár hjá Teiti Þorleifssyni lögmanni í Glaumbæ og urðu átök á milli manna þeirra biskups og Teits í Sveinsstaðareið, þar sem einn biskupsmanna féll og nokkrir særðust en Grímur Jónsson lögmaður á Stóru-Ökrum skaut ör í handlegg Teits lögmanns og hélt Teitur því fram að Jón Arason hefði haldið sér föstum.

Árið 1522 kom Ögmundur Pálsson til landsins, nývígður Skálholtsbiskup, og var hann andsnúinn Jóni og vildi fá sinn mann, Jón Einarsson, sem Hólabiskup. Hann kom norður með sveina sína og ætlaði að handtaka Jón en hann flúði út í þýskt skip sem lá í Kolbeinsárósi og varð Ögmundur frá að hverfa. Jón sigldi svo út og fékk biskupsvígslu 1524 þótt Ögmundur sendi Jón Einarsson og léti hann ásaka Jón um ýmsa glæpi, þar á meðal stórþjófnað. Erkibiskup valdi fremur Jón Arason en hann útvegaði nafna sínum Odda, eitt besta prestakall landsins, í sárabætur og voru þeir vinir þaðan í frá.

Biskupstíð

breyta
 
Hóladómkirkja. Turninn var reistur til minningar um Jón Arason árið 1950.

Þegar Jón kom heim 1525 reið hann með 900 manna lið til alþingis en Ögmundur var með enn fjölmennara lið og lá við að til bardaga kæmi en því tókst þó að afstýra. Sættust biskuparnir svo og héldu sáttina upp frá því. Fljótlega eftir heimkomuna tók Jón aftur upp mál sitt við Teit og fékk hann dæmdan sekan og útlægan og eignir hans hálfar til konungs. Teitur var rekinn frá Glaumbæ en Hrafn Brandsson tengdasonur Jóns settist þar að. Teitur hélt þó eftir eignum sínum á Austurlandi, svonefndum Bjarnaneseignum, og seldi þær Ögmundi biskupi, en Jón taldi hann ekkert umboð hafa til þess.

Þegar Gissur Einarsson tók við Skálholtsbiskupsdæmi árið 1542 gerðu þeir Jón með sér samkomulag um að halda frið. Kristján 3. Danakonungur hélt einnig frið við Jón og gerði ekkert til að koma á siðaskiptum í Hólabiskupsdæmi, enda var markmið hans fyrst og fremst að hnekkja veldi Þjóðverja á hafinu við Ísland og fá yfirráð yfir helstu útróðrastöðvum landsins, sem voru flestar í Skálholtsbiskupsdæmi. Einnig samdi konungur við Hólabiskup um að fá brennistein hjá honum úr brennisteinsnámunum fyrir norðan. Og árið 1542 sendi Jón Sigurð son sinn og Ólaf Hjaltason prest í Laufási, skjólstæðing sinn, á konungsfund og dvöldust þeir við hirðina um veturinn.

Ekki sat Jón þó alveg á friðarstóli, hann ákvað að ná undir sig Bjarnaneseignum og fór austur þeirra erinda í svonefndri Bjarnanesreið og náði eignunum, þrátt fyrir andstöðu Gissurar, en konungur studdi Jón.

Uppreisnarbiskup

breyta

Gissur Einarsson dó snemma árs 1548 og þá ákvað Jón að grípa tækifærið og gaf út bréf 21. apríl þar sem hann tók sér erkibiskupsvald yfir Íslandi. Hann reið svo til Skálholts til að hertaka biskupssetrið og láta kjósa nýjan biskup. En heimamenn voru við öllu búnir og eftir fimm daga umsátur gafst Jón upp á þófinu og hélt burt. Hann lét í leiðinni kjósa Sigvarð Halldórsson ábóta í Þykkvabæ sem biskupsefni og sendi hann út til að fá vígslu, sem hann fékk vitaskuld ekki; Sigvarður lést ytra 1550 og er sagt að hann hafi þá verið búinn að taka lútherstrú. Biskupsefni mótmælenda, Marteinn Einarsson, var aftur á móti vígður.

Marteinn kom heim 1549 en þá brá Jón við, sendi syni sína, Ara og Björn, að handtaka hann og færðu þeir hann til Hóla þar sem hann var í varðhaldi næsta árið. Og vorið 1550 fór Jón í Skálholt, lét grafa lík Gissurar biskups upp og dysja hann utangarðs sem villutrúarmann. Um sumarið reið hann svo til alþingis og fékk þar samþykkt að Íslendingar skyldu taka upp kaþólsku að nýju. Hann og synir hans fóru líka um, handtóku marga helstu forystumenn lútherskra, þvinguðu þá til að taka aftur upp kaþólskan sið eða hröktu þá úr landi. Jón sagði þá að hann hefði nú undir sér allt Ísland nema hálfan annan kotungsson - og átti þá við Gleraugna-Pétur Einarsson, bróður Marteins biskups, og Daða Guðmundsson í Snóksdal, mág Marteins.

Endalok

breyta
 
Kirkjugarðurinn á Sauðafelli, þar sem feðgarnir voru handteknir.

Haustið 1550 hugðust þeir feðgar svo útrýma síðustu andspyrnunni innanlands og höfðu búið sig undir átök við sendimenn Danakonungs, meðal annars með því að reisa virki á Hólum. Þeir riðu austur í Dali og hugðust ná Daða í Snóksdal á sitt vald, annaðhvort með vopnavaldi eða samningum. Þeir settust upp á Sauðafelli og var lið þeirra ekki fjölmennt. Þar biðu þeir átekta í nokkra daga en á meðan safnaði Daði liði og kom að þeim. Þeir feðgar hörfuðu inn í kirkjuna og voru handteknir þar eftir stutt átök.

 
Minnisvarði um Jón í Skálholti þar sem hann var hálshöggvinn ásamt sonum sínum.

Daði kom þeim feðgum svo í Skálholt í hendur Kristjáns skrifara, umboðsmanns konungs. Öll skip voru farin frá landinu og ekki hægt að senda þá út undir dóm konungs. Til stóð að halda þeim föngnum til næsta alþingis á Bessastöðum en Kristján vildi það ekki því að von var á fjölda norðlenskra útróðrarmanna þar í nágrennið um veturinn og eins víst að þeir mundu freista þess að bjarga feðgunum. Jón Bjarnason Skálholtsráðsmaður sagðist þá þekkja ráð sem mundi duga; öxin og jörðin geymdu þá best. Þetta varð úr, enda sagði Kristján að á meðan þeir lifðu yrði aldrei friður á Íslandi, og voru þeir feðgar hálshöggnir 7. nóvember 1550. Þar með lauk kaþólskum sið á Íslandi allt þar til trúfrelsi komst á á Íslandi með stjórnarskránni 1874.

Þeir feðgarnir voru grafnir við kórbak í Skálholti en í apríl næsta voru kom flokkur Norðlendinga, gróf líkin upp, setti í kistur og héldu á brott. Þeir þvoðu líkin á Laugarvatni en fluttu þau síðan norður til Hóla og var hvarvetna hringt kirkjuklukkum þar sem líkfylgdin fór hjá. Þjóðsagan segir að aðalklukka dómkirkjunnar, Líkaböng, hafi farið að hringja sjálfkrafa þegar líkfylgdin kom á Hrísháls, þar sem fyrst sér heim til Hóla, og rifnað þegar hún nálgaðist kirkjuna. Á Hólum voru þeir feðgar svo jarðsungnir.

Skáld og prentfrömuður

breyta
 
Forn prentpressa.

Jón Arason var gott skáld og hefur töluvert varðveist af kveðskap hans. Hann orti ýmis trúarljóð en er þó þekktastur fyrir veraldlegan kveðskap sinn, tækifærisvísur og danskvæði eða viðlög úr þeim og gerir þá oft gys að sjálfum sér eða andstæðingum sínum. Hann og þeir feðgar virðast hafa verið miklir gleðimenn, vinsælir og höfðingjar í lund. Ljóð Jóns komu út árið 2006 í bókinni Jón Arason biskup: Ljóðmæli.

Jóns er líka minnst fyrir það að hann flutti fyrstu prentsmiðjuna til landsins. Ekki er fullvíst hvaða ár það var en líklega hefur það verið um eða laust fyrir 1530 og hefur verið miðað við það ártal. Hann fékk sænskan mann, Jón Matthíasson eða Mattheusson, til landsins sem prentara. Aðallega voru prentaðar guðsorðabækur í Hólaprentsmiðju á dögum Jóns.

Fjölskylda

breyta

Fylgikona Jóns var Helga Sigurðardóttir (um 1485 - eftir 1559), dóttir Sigurðar prests í Múla í Aðaldal, sonar Barna-Sveinbjarnar Þórðarsonar prests í Múla. Helga hafði áður fylgt öðrum presti og átti með honum dóttur, Þóru Ólafsdóttur, sem ólst upp sem dóttir Jóns og varð fylgikona Tómasar Eiríkssonar, prests á Mælifelli og seinna ábóta á Munkaþverá. Börn Jóns og Helgu voru:

Ari Jónsson (f. um 1508, d. 7. nóvember 1550), lögmaður í Möðrufelli í Eyjafirði. Kona hans var Halldóra, dóttir Þorleifs Grímssonar sýslumanns á Möðruvöllum í Eyjafirði.

Magnús Jónsson (d. 1534), prestur á Grenjaðarstað. Fylgikona hans var Kristín dóttir Vigfúsar Erlendssonar hirðstjóra.

Björn Jónsson (d. 7. nóvember 1550), prestur á Melstað í Miðfirði. Fylgikona hans var Steinunn, dóttir Jóns ríka Magnússonar á Svalbarði og konu hans, Ragnheiðar á rauðum sokkum Pétursdóttur.

Þórunn Jónsdóttir (f. um 1511, d. 13. desember 1593). Fyrst giftist hún Hrafni Brandssyni lögmanni í Glaumbæ og var þá aðeins 14-15 ára. Hrafn dó 1528 og 1533 giftist Þórunn Ísleifi Sigurðssyni sýslumanni á Grund. Hann dó 1549 og tveimur árum síðar giftist Þórunn Þorsteini Guðmundssyni, lögréttumanni á Grund, sem dó 1571.

Helga Jónsdóttir, húsfreyja í Stóradal undir Eyjafjöllum. Maður hennar var Eyjólfur Einarsson lögréttumaður í Stóradal.

Sigurður Jónsson (f. um 1520, d. 1595), prestur á Grenjaðarstað. Fylgikona hans var Sesselja, dóttir Péturs Loftssonar í Stóradal í Eyjafirði, sem var einhver auðugasti maður á Íslandi um sína daga.

Fjölnir

breyta

Í fyrsta hefti Fjölnis 1835 segir svo frá skiptum Jóns Arasonar við lúterska trú:

„Biskuparnir [kaþólsku] á Hólum og í Skálholti risu upp í móti þvílíkri umbreytingu [þ.e. lútherskri boðun], því bæði var hún gagnstæð sannfæringu þeirra, og hlaut að spilla fyrir þeim tekjum og áliti; en ýmsir dugandi menn í landinu og fjörugustu unglingarnir voru með lútherskunni, sem fram var haldið af Kristjáni konungi þriðja. Ögmundur biskup í Skálholti, gamall maður, var handtekinn og fluttur suðrí Danmörk, og kom í hans stað lútherskur maður. En Jón Arason Hólabiskup, djarfur maður og ákafur, dró að sér Norðlinga sína, réðist á Suðurland og fangaði Martein biskup. Þessum og öðrum yfirgangi reiddust þeir seinast Sunnlendingar. Biskup og synir hans tveir, Björn og Ari, voru teknir eftir skamma vörn á bæ einum, er þeir höfðu náð, en vildu ekki uppgefa. Enginn þorði að takast á hendur að geyma þá feðga, og hlýddu menn til þess er sagði Einar prestur, að öxin og jörðin geymdi þá best. Ari átti kost griða, hefði hann viljað lofa að hefna sín ekki, en hvorki kaus hann það, né biskup að lifa nema þyrmt væri sonum hans; og þegar Björn beiddist griða, var honum svarað: að þegar tveir dugandismenn, slíkir sem voru faðir hans og bróðir, skyldu deyja, væri ekki meir en mátulegt, þóað slíkur vesælingur yrði þeim samferða. Síðan voru þeir höggnir þrír saman, og næsta vor drápu Norðlingar í hefnd nokkra og tuttugu Dani. Uppfrá þeim tíma hafa lútherskir biskupar hjálpast að við veraldleg yfirvöld í landinu, að eyða páfadóminum, og ekki leið á löngu áður horfnar voru allar hans menjar.“ [1]

Tengt efni

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Fjölnir 1835

Heimildir

breyta
  • Ásgeir Jónsson (inngangur) (2006). Jón Arason biskup: Ljóðmæli. JPV útgáfa. ISBN 978-9979-798-03-3.
  • „Eimreiðin, 2. tbl. 1911“.
  • „Hvaða bækur voru prentaðar í prentsmiðju Jóns Arasonar biskups?“. Vísindavefurinn.
  • „Var böðull Jóns Arasonar íslenskur glæpamaður eða danskur embættismaður?“. Vísindavefurinn.
  • Jón Arason biskup og ætt hans
  • Jón Arason í vitund Íslendinga
  • Páll Eggert Ólason, Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi, I. bindi Jón Arason (1919)


Fyrirrennari:
Gottskálk grimmi Nikulásson
Hólabiskup
(15241550)
Eftirmaður:
Ólafur Hjaltason
Fyrirrennari:
Dietrich van Bramstedt
Hirðstjóri
með Ögmundi Pálssyni
(15341536)
Eftirmaður:
Kláus von Marwitzen


  NODES
languages 1
os 5