Júlíana Hollandsdrottning

Júlíana (30. apríl 1909 – 20. mars 2004) var drottning Hollands frá 1948 þar til hún sagði af sér árið 1980. Hún var einkabarn Vilhelmínu drottningar og Hinriks prins. Frá fæðingu var hún ríkisarfi að hollensku krúnunni. Hún hlaut einkamenntun og giftist árið 1937 Bernharði af Lippe Biesterfeld. Þau eignuðust fjórar dætur: Beatrix, Írenu, Margréti og Kristínu.

Skjaldarmerki Óraníuættin Drottning Hollands
Óraníuættin
Júlíana Hollandsdrottning
Júlíana
Ríkisár 4. september 1948 – 30. apríl 1980
SkírnarnafnJuliana Louise Emma Marie Wilhelmina
Fædd30. apríl 1909
 Haag, Hollandi
Dáin20. mars 2004 (94 ára)
 Baarn, Hollandi
GröfNieuwe Kerk, Delft, Hollandi
Konungsfjölskyldan
Faðir Hinrik hertogi af Mecklenburg-Schwerin
Móðir Vilhelmína Hollandsdrottning
PrinsBernharður Hollandsprins (g. 1937)
BörnBeatrix, Írena, Margrét, Kristín

Júlíana ríkti í tæp 32 ár. Á valdatíð hennar voru hollensku Austur-Indíur (nú Indónesía og Súrinam) afnýlenduvæddar og hlutu sjálfstæði frá hollenska konungsríkinu. Þegar hún lést, þá 94 ára að aldri, var hún elsti fyrrum einvaldur í heimi.

Æviágrip

breyta

Júlíana var tvisvar ríkisstjóri fyrir hönd Vilhelmínu drottningar áður en hún var sjálf krýnd drottning þann 6. september árið 1948 í nýkirkju Amsterdam, tveimur dögum eftir afsögn móður sinnar. Næsta ár skrifaði Júlíana undir viðurkenningu sem færði fullveldi hollensku Austur-Indía (nú Indónesíu) í hendur lýðveldisstjórnar í Batavíu (nú Jakarta).

Valdataka Júlíönu breytti mjög ímynd krúnunnar í Hollandi: Fólk fór að tala um „einveldi á reiðhjóli“, alþýðlegt viðhorf til krúnunnar sem var Hollendingum mjög að skapi. Júlíana var lítið fyrir hefðir og glysgjarnar athafnir og var jafnan mjög látlaus og einföld í háttum. Hún kunni þó að sýna á sér virðuleika og háttvísi eins og drottningu sæmdi þegar aðstæðurnar kröfðust þess. Júlíana var mjög vinsæl, sérstaklega þegar hún stóð með íbúum Hollands eftir flóðbylgju sem skall á ströndum landsins árið 1953. Hún flutti síðar ræðu við Bandaríkjaþing í Washington þar sem hún fordæmdi kalda stríðið.

Erfiðleikar Júlíönu

breyta

Árið 1956 komu upp deilur innan hollensku konungsfjölskyldunnar vegna vináttu Júlíönu við trúarlegan græðara að nafni Greet Hofmans sem ráðin hafði verið til að lækna augnsjúkdóm Kristínar prinsessu. Hofmans hafði mikil áhrif á Júliönu drottningu og ýtti undir friðarhyggju hjá henni sem var óboðleg hollenskum stjórnvöldum á tíma kalda stríðsins. Vinskapur Júlíönu og Hofmans spillti sambandi hennar og eiginmanns hennar og málið var lengi mjög umdeilt. Bernharður lak upplýsingum um vinskap þeirra í þýska fréttaritið Der Spiegel í von um að losna við Hofmans úr hollensku hirðinni. Der Spiegel birti grein titlaða „Zwischen Königin und Rasputin“, bókstaflega „Milli drottningarinnar og Raspútíns“.[1]

Írena prinsessa giftist árið 1964 Charles-Hugues af Bourbon-Parma, einum Búrbónanna sem gerðu tilkall til spænsku krúnunnar. Ráðahagurinn var umdeildur, sér í lagi þar sem Írena snerist til kaþólskrar trúar til þess að geta gifst.

Í Lockheed-málinu svokallaða árið 1975 var Bernharður sakaður um að þiggja mútur frá flugvélafyrirtækinu Lockheed og forsætisráðherrann Joop den Uyl skipaði rannsóknardómstól til þess að kanna mál hans. Júlíana hótaði að segja af sér nema að eiginmanni hennar yrði hlíft við lögsókn, sem ríkisstjórnin féllst á að gera með því skilyrði að Bernharður léti af ýmsum opinberum skyldum sem drottningarmaður og klæddist ekki einkennisbúningi sínum úr hernum framar. Í viðurkenningu sem birt var eftir dauða Bernharðs staðfesti hann að hann hefði átt hlut að máli í Lockheed-málinu og að hann hefði eignast tvær dætur í lausaleik. Hugsanlega leiddi hneykslið til ákvörðunar Júlíönu um að segja af sér. Þann 30. apríl 1980, á 71. afmælisdegi sínum, sagði Júlíana af sér og leyfði dóttur sinni, Beatrix að gerast drottning Hollands. Gamla drottningin bar þaðan af titilinn „hennar konunglega hátign Júlíana prinsessa af Hollandi“. Hún settist síðan í helgan stein ásamt Bernharði í Soestdijk-höll.

Ævilok

breyta

Frá árinu 2000 birtist Júlíana sjaldnar opinberlega. Hún lést í svefni sínum í Soestdijk-höll þann 20. mars árið 2004, sjötíu árum upp á dag eftir að amma hennar, Emma af Waldeck-Pyrmont, lést. Útför hennar var haldin í Delft við grafhýsi Óraníuættarinnar. Eiginmaður hennar lést tæpu ári síðar, þann 1. desember 2004.

Tilvísanir

breyta
  1. "Die Gesundbeterin : Staatskrise – Zwischen Königin und Rasputin", In: Der Spiegel, vol. 1956, nr. 24, bls. 31–36


Fyrirrennari:
Vilhelmína
Drottning Hollands
(4. september 194830. apríl 1980)
Eftirmaður:
Beatrix


  NODES
Done 1