Kópavogskirkja

kirkja í Kópavogi

Kópavogskirkja er elsta kirkja Kópavogs. Hún stendur á Borgarholti í vesturbæ Kópavogs, oft nefnt Kirkjuholt af íbúum. Kirkjan var reist á árunum 1958-1962 eftir teikningum Harðar Bjarnasonar húsameistara ríkisins og Ragnars Emilssonar arkitekts hjá embætti húsameistara. Grunnur kirkjunnar var helgaður þann 16. ágúst 1958 og biskup Íslands lagði hornstein að kirkjunni þann 20. nóvember 1959. Sigurbjörn Einarsson, þáverandi biskup Íslands, vígði svo kirkjuna þann 16. desember 1963.

Kópavogskirkja
Kópavogskirkja
Kópavogur (29. maí 2015) Jóhannes Birgir Jensson
Almennt
Byggingarár:  1958-1963
Kirkjugarður:  nei

Fyrsti sóknarprestur Kópavogskirkju var Gunnar Árnason sem starfaði frá 1962-1971. Árið 1971 hófu þeir Árni Pálsson og Þorbergur Kristjánsson störf. Árni lét af störfum árið 1990 en Þorbergur 1994. Ægir Fr. Sigurgeirsson var sóknarprestur frá 1990 til 2009 en þá tók Sigurður Arnarsson við starfi sóknarprests. Þrír prestar hafa verið settir sóknarprestar við Kópavogskirkju til skemmri tíma, þeir Lárus Halldórsson í 3 mánuði 1971, Guðmundur Örn Ragnarsson í hálft ár 1985-1986 og Guðni Þór Ólafsson 1999-2000.

Árið 1955 var orgel Kópavogskirkju vígt en það var síðan selt Óháða söfnuðinum í Reykjavík árið 1962. Árið 1964 var keypt orgel frá Alfred E. Davis & sön Ltd og var það vígt þann 24. apríl. Það orgel var viðkvæmt og viðhald þess kostnaðarsamt. Árið 1991 var farið að undirbúa kaup á nýju orgeli og var að lokum ákveðið að taka tilboði frá P. Bruhn & Sön Orgelbyggeri. Þann 12. janúar 1997 var nýja orgelið vígt við hátíðlega athöfn.

Klukkur kirkjunnar voru settar upp á vígsluári hennar, 1963. Þær eru tvær og vegur sú stærri 330 kíló og hefur tóninn b. Sú minni er 205 kíló og hefur tóninn des. Klukkunum var handhringt allt til ársins 1989 en þá var rafstýring sett upp. Klukkurnar voru steyptar í Þýskalandi hjá Engelbert Gebhard. Ásgeir Long hannaði umgjörð klukknanna en vélaverkstæði Jóhanns Ólafssonar annaðist smíðina.

Kirkjan stendur á stað sem nefnist Borgir eða Borgarholt og er umhverfi hennar friðað. Kópavogskirkja er krosskirkja og hefðbundin að því leyti en bogar hennar einkenna hana og gera hana sérstaka. Frá kirkjunni er mikið og fagurt útsýni og koma margir þangað til að njóta þess og um leið skoða kirkjuna. Altaristaflan í kirkjunni var sett upp árið 1990 og er eftir listakonuna Steinunni Þórarinsdóttur. Hún er byggð á frásögn í 13. kafla Jóhannesarguðspjalls um það hvernig Kristur laugaði fætur lærisveina sinna. Listakonan Barbara Árnason gerði ýmsar myndir sem eru í kirkjunni. Gluggarnir í Kópavogskirkju þykja einstaklega fallegir. Þá hannaði Gerður Helgadóttir myndhöggvari en gluggasmiðja Oidtmann-bræðra í Þýskalandi smíðaði. Kópavogskirkja þykir vel heppnuð og vekur athygli bæði Íslendinga og erlendra ferðamanna og hafa myndir af henni birst víðs vegar um heiminn. Kirkjan hefur lengi verið tákn Kópavogs og hana er að finna á merki Kópavogsbæjar.

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta


64°06.737′N 21°54.777′V / 64.112283°N 21.912950°V / 64.112283; -21.912950

  NODES
languages 1
mac 2
os 2