Kristófer 1. (121929. maí 1259) var konungur Danmerkur frá 1252 til dauðadags. Hann var síðastur af þremur sonum Valdimars sigursæla og Berengaríu af Portúgal til að setjast á konungsstól.

Þegar Abel konungur var drepinn 29. júní 1252 var elsti sonur hans, Valdimar, við nám í Frakklandi. Hann hafði verið lýstur ríkiserfingi að föður sínum lifandi og flýtti sér heim til að reyna að tryggja erfðarétt sinn en var hnepptur í varðhald af erkibiskupinum af Köln og haldið föngnum þar til móðurbræður hans, greifarnir af Holtsetalandi, greiddu lausnargjald fyrir hann ári síðar. En þá hafði hann misst af lestinni, Kristófer föðurbróðir hans hafði verið valinn konungur og krýndur í Lundi á jóladag 1252. Þar með hófst togstreita milli tveggja ættleggja sem stóð í marga áratugi.

Kristófer reyndi að fá bróður sinn, Eirík plógpening, tekinn í helgra manna tölu en raunverulegur tilgangur hans mun hafa verið að fá Abel fordæmdan sem bróðurmorðingja og ættlegg hans útilokaðan frá ríkiserfðum. Þetta tókst honum þó ekki. Hann átti í erjum við Jakob Erlandsen, erkibiskup í Lundi, sem var af hinni voldugu Hvide-ætt, en hún fylgdi Abel og ættmönnum hans að málum. Kristófer krafðist þess að aðalsmenn og biskupar sameinuðust í baráttu gegn afkomendum Abels en erkibiskupinn hótaði með bannfæringu.

Kristófer og Valdimar sættust þó 1254 og Valdimar fékk Slésvík að léni en þegar hann dó 1257 og Kristófer tók Slésvík aftur og neitaði að láta Eiríki bróður hans lénið eftir fór allt í bál og brand á ný. Veturinn 1257-1258 réðust holsteinsku greifarnir á Danmörku en árásinni var hrundið. Nokkru áður hafði komið til átaka milli Dana og Norðmanna og Hákon gamli réðist inn í Halland. Friður var þó saminn 1257. Í febrúar 1259 var Jakob erkibiskup handtekinn, hæddur, bundinn og varpað í dýflissu. Kristófer konungur var þá bannfærður. Jaromar fursti af Rügen, sem var tengdafaðir Eiríks Abelssonar, réðist svo á Sjáland og hertók Kaupmannahöfn. Kristófer náði ekki að bregðast við innrásinni því að hann dó um vorið og var sagt að ábóti nokkur hefði byrlað honum eitur. Hann var grafinn í dómkirkjunni í Ribe þrátt fyrir bannfæringuna.

Kona Kristófers var Margrét Sambira, dóttir Sambors og Mechtilde af Mecklenburg. Þau áttu sex börn, þar á meðal Eirík klipping, sem tók við ríki eftir föður sinn.

Heimildir

breyta


Fyrirrennari:
Abel
Konungur Danmerkur
(1252 – 1259)
Eftirmaður:
Eiríkur klipping


  NODES