Lýðræðisflokkurinn (Ítalía)

Ítalskur stjórnmálaflokkur

Lýðræðisflokkurinn eða Demókrataflokkurinn (ítalska: Partito Democratico) er stjórnmálaflokkur á Ítalíu sem stofnaður var 2007.

Lýðræðisflokkurinn
Partito Democratico
Forseti Stefano Bonaccini
Ritari Elly Schlein
Stofnár 14. október 2007; fyrir 17 árum (2007-10-14)
Höfuðstöðvar Via Sant'Andrea delle Fratte 16
00187 Róm
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Félagslýðræði, evrópismi
Einkennislitur Rauður  
Sæti á fulltrúadeild
Sæti á öldungadeild
Sæti á Evrópuþinginu
Vefsíða partitodemocratico.it

Meðan á 15. löggjafarþingi Ítalíu stóð var Lýðræðisflokkurinn hluti af annarri ríkisstjórn Romano Prodi. Prodi hafði unnið sigur í þingkosningum árið 2006 ásamt Einingarbandalaginu, kosningabandalagi vinstriflokka sem taldi til sín Ítalska vinstri-lýðræðisflokkinn, forvera Lýðræðisflokksins. Lýðræðisflokkurinn var stofnaður eftir sigur Einingarbandalagsins sem samruni aðildarflokka kosningabandalagsins í viðleitni til þess að sameina ítalska vinstriflokka í einn miðvinstriflokk.

Lýðræðisflokkurinn bað ósigur fyrir miðhægribandalagi Silvio Berlusconi í þingkosningum árið 2008 og gekk í stjórnarandstöðu. Í nóvember árið 2011 veitti Lýðræðisflokkurinn nýrri ríkisstjórn Mario Monti þingstuðning eftir hrun ríkisstjórnar Berlusconi. Bandalag miðvinstriflokka vann sigur í þingkosningum árið 2013. Lýðræðisflokkurinn varð stærsti flokkurinn á ítalska þinginu og leiddi þrjár ríkisstjórnir á næsta þingtímabili, undir forystu Enrico Letta, Matteo Renzi og Paolo Gentiloni.

Lýðræðisflokkurinn tapaði þingkosningum árið 2018 og gekk í stjórnarandstöðu á ný. Eftir að ríkisstjórn Fimmstjörnuhreyfingarinnar og Norðursambandsins hrundi í ágúst árið 2019 stofnaði Lýðræðisflokkurinn nýja samsteypustjórn ásamt Fimmstjörnuhreyfingunni með Giuseppe Conte sem forsætisráðherra.

Árið 2019 urðu tveir klofningar úr Lýðræðisflokknum. Sá fyrri varð í ágúst árið 2019 þegar Carlo Calenda sagði sig úr flokknum og stofnaði hreyfinguna Siamo Europei (íslenska: „Við erum Evrópumenn“) til að mótmæla samstarfi flokksins við Fimmstjörnuhreyfinguna. Sú síðari varð í september 2019 þegar Matteo Renzi sagði sig úr flokknum og stofnaði flokkinn Italia Viva.[1] Italia Viva studdi fyrst um sinn ríkisstjórnarsamstarfið og hélt tveimur ráðuneytum í stjórninni. Þann 14. janúar 2021 dró Renzi hins vegar stuðning nýja flokksins við ríkisstjórnina til baka,[2] sem leiddi til afsagnar stjórnar Giuseppe Conte ellefu dögum síðar[3] og til þess að fyrrum seðlabankastjóranum Mario Draghi var boðið að mynda þjóðstjórn.[4] Lýðræðisflokkurinn átti aðild að stjórn Draghi ásamt flestum öðrum helstu þingflokkum Ítalíu.

Árið 2016 taldi Lýðræðisflokkurinn til sín 405.041 meðlimi, sem var 2,5% aukning frá fyrra ári. Á evrópskum vettvangi gekk Lýðræðisflokkurinn formlega til liðs við Flokk evrópskra sósíalista þann 27. febrúar 2014, en hann hafði þegar tekið myndað náið samstarf við þá hreyfingu og myndaði árið 2009 þingflokk Framsóknarbandalags sósíalista og demókrata.

Tilvísanir

breyta
  1. Atli Ísleifsson (17. september 2019). „Renzi stofnar nýjan flokk“. Vísir. Sótt 6. október 2019.
  2. Róbert Jóhannsson (14. janúar 2021). „Stjórnarkreppa á Ítalíu eftir óvinsæla ákvörðun Renzi“. RÚV. Sótt 25. janúar 2021.
  3. Sunna Valgerðardóttir (25. janúar 2021). „Forsætisráðherra Ítalíu hættir á morgun“. RÚV. Sótt 25. janúar 2021.
  4. „Drag­hi verður for­sæt­is­ráðherra Ítal­íu“. mbl.is. 12. febrúar 2021. Sótt 13. febrúar 2021.
   Þessi stjórnmálagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.
  NODES