Laurent-Désiré Kabila

Forseti Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó (1939-2001)

Laurent-Désiré Kabila (27. nóvember 1939 – 16. janúar 2001) var kongóskur herleiðtogi, uppreisnarmaður og stjórnmálamaður. Frá sjöunda áratugnum barðist hann gegn einræðisstjórn Mobutu Sese Seko og tókst loks að steypa honum af stóli árið 1997 eftir fyrra Kongóstríðið. Kabila gerðist í kjölfarið forseti Austur-Kongó (Mobutu hafði breytt nafni landsins í Saír en Kabila breytti því í Lýðstjórnarlýðveldið Kongó) og sat í embætti frá maí 1997 þar til hann var myrtur af lífvörðum sínum í janúar árið 2001.[1] Eftir morðið á Kabila tók sonur hans, Joseph Kabila, við forsetaembættinu og gegndi því til ársins 2019.

Laurent-Désiré Kabila
Kabila arið 1998.
Forseti Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó
Í embætti
17. maí 1997 – 16. janúar 2001
ForveriMobutu Sese Seko
EftirmaðurJoseph Kabila
Persónulegar upplýsingar
Fæddur27. nóvember 1939
Baudouinville (nú Moba), belgíska Kongó
Látinn16. janúar 2001 (61 árs) Kinsasa, Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó
DánarorsökMyrtur
MakiSifa Mahanya
BörnAimée, Jaynet, Joseph, Zoé
HáskóliHáskólinn í Dar es Salaam
StarfHermaður, stjórnmálamaður

Viðurnefni Kabila var Mzee, sem merkir „hinn gamli“ eða „hinn vitri“ á svahílí. Hann hefur í dag titil þjóðhetju í Austur-Kongó.

Æviágrip

breyta

Í Kongódeilunni sem braust út eftir sjálfstæði Kongó frá Belgíu árið 1960 barðist Kabila ásamt stuðningsmönnum forsætisráðherrans Patrice Lumumba gegn aðskilnaðarsinnum í héraðinu Katanga. Eftir að Lumumba var steypt af stóli af Joseph Mobutu í september 1960 gekk Kabila hins vegar í lið með öðrum harðlínustuðningsmönnum Lumumba til að berjast gegn nýju ríkisstjórninni. Sem uppreisnarleiðtogi naut Kabila í nokkurn tíma árið 1965 stuðnings frá Che Guevara og öðrum kúbverskum byltingarmönnum.[2] Che skrifaði um Kabila að af öllum kongósku uppreisnarforingjunum væri hann einn gæddur „eigileikum fjöldaleiðtoga“. Che þótti þó á heildina litið lítið til Kabila koma og fannst hann ekki taka byltinguna nógu alvarlega.[2] Lélegt samstarf þeirra stuðlaði að því að uppreisnin var kveðin í kútinn sama ár.

Eftir að uppreisnin misheppnaðist flúði Kabila land og settist að í Tansaníu, þar sem hann vann sem gull- og timbursmyglari auk þess sem hann rak bar og vændishús. Kabila og stuðningsmenn hans gerðu árið 1967 uppreisn gegn tansanískum stjórnvöldum með stuðningi Kínverja og réðu sem sjálfskipaðir leiðtogar marxísks ríkis yfir litlu svæði sunnan við Tanganjikavatn til ársins 1988. Á þessum tíma kynntist Kabila Yoweri Museveni, síðar forseta Úganda, og Paul Kagame, síðar forseta Rúanda. Þessi tengsl áttu eftir að skipta sköpum árið 1996, þegar Kagame gerði innrás í Kongó og veitti Kabila herstuðning svo innrásin hefði yfirbragð byltingar innfæddra Kongóbúa gegn stjórn Mobutu.

Kabila sneri aftur til Kongó í október árið 1996. Með stuðningi frá Rúanda, Úganda og Búrúndí tókst her hans að sigra stjórnarher landsins og reka Mobutu á flótta þann 16. maí 1997. Kabila lýsti sjálfan sig forseta landsins næsta dag og var formlega viðurkenndur sem forseti í höfuðborginni Kinsasa þann 31. maí.

Eftir að Kabila settist á forsetastól leysti hann upp stjórnarskrá landsins og lýsti yfir að kosningar yrðu ekki haldnar í tvö ár, á meðan stöðugleika væri komið á í landinu á ný. Kabila komst fljótt upp á kant við bandamenn sína í Rúanda og Úganda og svo fór að árið 1997 gerðu ríkin nýja innrás í Kongó. Ríkisstjórn Kabila hlaut hernaðarstuðning frá Angóla, Namibíu og Simbabve og tókst með friðarviðræðum árið 1999 að fá flesta erlendu innrásarherina til að yfirgefa landið.

Kabila var skotinn til bana af lífverði sínum, Rashidi Muzele, þann 16. janúar árið 2001. Tilræðismaðurinn var sjálfur skotinn er hann reyndi að flýja. Ríkisstjórn Kabila hélt velli þrátt fyrir dauða hans og sonur hans, Joseph Kabila, tók við forsetaembættinu.

Tilvísanir

breyta
  1. „For­seti Kongó myrt­ur“. mbl.is. 16. janúar 2001. Sótt 25. maí 2018.
  2. 2,0 2,1 „L'obscur M. Kabila“. L'Express. 25. maí 1998. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. apríl 2017. Sótt 25. maí 2018.


Fyrirrennari:
Mobutu Sese Seko
Forseti Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó
(17. maí 199716. janúar 2001)
Eftirmaður:
Joseph Kabila


  NODES