Leoníd Kútsjma

2. forseti Úkraínu

Leoníd Danylovytsj Kútsjma (f. 9. ágúst 1938) er úkraínskur stjórnmálamaður sem var annar forseti Úkraínu. Hann gegndi forsetaembættinu í tvö kjörtímabil, frá 1994 til 2005, og var áður forsætisráðherra Úkraínu frá 1992 til 1993. Kútsjma varð forseti eftir að hann sigraði sitjandi forsetann Leoníd Kravtsjúk í forsetakosningum árið 1994. Á stjórnartíð Kútsjma batnaði samband Úkraínu við Rússland en spilling jókst hins vegar og ofsóknir á fjölmiðlum og stjórnarandstæðingum færðust í aukana. Kútsjma var því sakaður um einræðiskennda stjórnarhætti sem forseti. Kútsjma er þaulsætnasti forseti Úkraínu og eini forseti landsins sem hefur gegnt meira en einu kjörtímabili.

Leoníd Kútsjma
Леонід Кучма
Leoníd Kútsjma árið 2001.
Forseti Úkraínu
Í embætti
19. júlí 1994 – 23. janúar 2005
ForsætisráðherraVítalíj Masol
Jevhen Martsjúk
Pavlo Lazarenko
Valeríj Pústovojtenko
Víktor Júsjtsjenko
Anatolíj Kínakh
Víktor Janúkovytsj
ForveriLeoníd Kravtsjúk
EftirmaðurVíktor Júsjtsjenko
Forsætisráðherra Úkraínu
Í embætti
13. október 1992 – 22. september 1993
ForsetiLeoníd Kravtsjúk
ForveriValentyn Symonenko (starfandi)
EftirmaðurJúkhym Zvjahílskyj (starfandi)
Persónulegar upplýsingar
Fæddur9. ágúst 1938 (1938-08-09) (86 ára)
Tsjaíkíjne, Novhorod-Síverskyj rajon, úkraínska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum
ÞjóðerniÚkraínskur
StjórnmálaflokkurKommúnistaflokkur Sovétríkjanna (1960–1991)
MakiLjúdmila Talalajeva
Börn1
Undirskrift

Æviágrip

breyta

Leoníd Kútsjma fæddist árið 1938 í Úkraínu. Hann nam og vann við verkfræði og naut talsverðar velgengni í því starfi. Meðal annars vann Kútsjma tvenn verðlaun fyrir þátt sinn í hönnun og þróun geimflauga og skrifaði fræðigreinar um þau efni. Hann vann frá 1960 til 1982 hjá Pívdenne, stærstu eldflaugaverskmiðju Sovétríkjanna, sem framleiddi margar af öflugustu eldflaugum ríkisins.[1]

Kútsjma hóf afskipti af stjórnmálum þegar hann var kjörinn á úkraínska þingið árið 1990. Hann gegndi embætti forsætisráðherra í ríkisstjórn Leoníds Kravtsjúk forseta frá október 1992 til september 1993.[1] Árið 1994 bauð Kútsjma sig fram á móti Kravtsjúk í forsetakosningum landsins og vann sigur í seinni umferð. Kútsjma hafði í kosningabaráttunni talað fyrir róttækari efnahagsumbótum og brotthvarfi frá áætlanahagkerfi Sovéttímans með aukinni einkavæðingu og bættri fjármálastjórn. Kútsjma talaði jafnframt fyrir því að gert yrði varanlegt samkomulag um orkukaup frá Rússum, en Rússar höfðu þá hægt á innflutningi olíu og gass til Úkraínu vegna skuldavanda Úkraínumanna. Í kosningunum hlaut Kútsjma yfirgnæfandi fylgi í rússneskumælandi iðnaðarhéruðunum í austurhluta Úkraínu og á Krímskaga, en Kravtsjúk naut meira fylgis í vesturhlutanum.[2]

Stjórnartíð

breyta

Þegar Kútsjma tók við forsetaembætti hét hann víðtækum efnahagsumbótum og tókst meðal annars að útvega Úkraínu lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, auk þess sem Úkraína komst efst á forgangslista Bandaríkjanna í fjárfestingum. Umbæturnar gengur hins vegar hægt á stjórnartíð Kútsjma og spilling jókst til muna. Kútsjma átti auk þess í stöðugum deilum við úkraínska þingið, þar sem kommúnistar nutu enn mikilla áhrifa. Árið 1998 hafði einkavæðingarherferð Kútsjma leitt til aukins atvinnuleysis í Úkraínu auk þess sem skuldir höfðu safnast upp í ríkissjóði landsins og landsframleiðsla hafði dregist saman.[3]

Þrátt fyrir lítinn árangur af umbótum Kútsjma tókst forsetanum að ná endurkjöri í forsetakosningum Úkraínu árið 1999. Kútsjma hlaut 56,17% atkvæða á móti kommúnistanum Petro Symonenko, sem hlaut 37,90%. Í kosningabaráttunni beitti Kútsjma hræðsluáróðri og varaði við því að ef Symonenko næði kjöri yrði snúið aftur til sovéskra stjórnarhátta og lýðræðislegri framtíð Úkraínu yrði stefnt í hættu.[4]

Á stjórnartíð Kútsjma var verulega vegið að fjölmiðlafrelsi í Úkraínu og mikið var um ofbeldi gegn blaðamönnum sem fjölluðu með gagnrýnum hætti um ríkisstjórnina. Árið 2000 varð Kútsjma sjálfur bendlaður við ránið og morðið á blaðamanninum Georgíj Gongadse. Gongadse var rænt haustið 1999 og afhöfðað lík hans fannst síðan úti í skógi í útjaðri Kænugarðs í nóvember sama ár. Gongadse hafði stýrt netfréttamiðli sem var mjög gagnrýninn á stjórn Kútsjma og hafði vænt stjórnina um óeðlileg tengsl við úkraínska fjármálajöfra. Spjótin beindust að Kútsjma þegar hljóðupptökur sem lífvörður hans hafði tekið bárust til fjölmiðla þar sem Kútsjma heyrðist krefjast þess að þaggað yrði niður í Gongadse. Meðal annars heyrðist Kútsjma þar stinga upp á því að Gongadse yrði rænt og hann framseldur í hendur téténskra glæpaflokka sem gætu haldið honum gegn lausnargjaldi.[5]

Í nóvember 2000 sakaði Oleksandr Moroz, leiðtogi úkraínska Sósíalistaflokksins, Kútsjma formlega um að hafa staðið fyrir morðinu á Gongadse. Byggði hann ásökun sína á myndbandsupptökum frá lífverði Kútsjma, Mykola Melnytsjenko. Kútsjma neitaði sök í málinu og sagði málið hluta af ráðabruggi erlendra afla um að koma sér frá völdum.[6] Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna komst að þeirri niðurstöðu að upptökurnar af Kútsjma væru ósviknar, meðal annars með vísan til þess að í þeim heyrðist Kútsjma leggja blessun sína á sölu ratsjárkerfis til Íraks sem var gerð árið 2000. Málið spillti sambandi Kútsjma við Vesturlönd og vann gegn viðleitni hans til að auka samstarf við Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið. Þess í stað fór Kútsjma í auknum mæli að halla sér að Rússum.[7]

Appelsínugula byltingin og eftirmálar

breyta

Kútsjma var orðinn afar óvinsæll forseti undir lok seinna kjörtímabils síns og mótmæli gegn stjórn hans voru orðin tíð.[8] Kútsjma bauð sig ekki fram aftur í forsetakosningum ársins 2004 en studdi framboð forsætisráðherra síns, Víktors Janúkovytsj. Andstæðingur Janúkovytsj í kosningunum var Víktor Júsjtsjenko, fyrrum forsætisráðherra sem Kútsjma hafði leyst frá störfum. Þegar seinni umferð forsetakosninganna fór fram 21. nóvember 2004 var Janúkovytsj lýstur sigurvegari samkvæmt opinberum tölum en Júsjtsjenkó neitaði að viðurkenna ósigur og sakaði stjórn Kútsjma um að hafa hagrætt kosningunum til að tryggja sigur Janúkovytsj.[9] Víðtækar ásakanir um kosningasvindl leiddu til fjöldamótmæla sem voru kölluð appelsínugula byltingin. Mótmælin og vísbendingar um kosningasvindl leiddu til þess að Hæstiréttur Úkraínu ógilti síðari kosningaumferðina og kvað á um að hún skyldi endurtekin. Þegar kosningarnar voru endurteknar vann Júsjtsjenkó í þetta sinn öruggan sigur og tók við af Kútsjma sem forseti Úkraínu í byrjun næsta árs.[10]

Júsjtsjenkó hafði verið meðal ötulustu gagnrýnenda Kútsjma en eftir að hann tók við forsetaembættinu var hann fyrst um sinn talinn tregur til að sækja forvera sinn til saka fyrir meinta aðild hans að morðinu á Georgíj Gongadse.[11] Í mars 2005 átti Júríj Kravtsjenko, fyrrum innanríkisráðherra í stjórn Kútsjma, að bera vitni um morðið á Gongadse, en áður en til þess kom fannst Kravtsjenko skotinn til bana. Dauði Kravtsjenkos var opinberlega skýrður sem sjálfsmorð.[12]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 „Óvinur fjölmiðlamanna“. Fréttablaðið. 12. febrúar 2004. bls. 20.
  2. Magnús Torfi Ólafsson (16. júlí 1994). „Nýju forsetarnir mæna vonaraugum til Moskvu“. Dagblaðið Vísir. bls. 14.
  3. Ásgeir Sverrisson (5. apríl 1998). „Örmagna og áttavilltir“. Morgunblaðið. bls. 12.
  4. „Kútsjma öruggur sigurvegari í forsetakosningunum í Úkraínu“. mbl.is. 15. nóvember 1999. Sótt 9. apríl 2022.
  5. „Höfuðlaust lík og forsetinn í lykilhlutverki“. Dagblaðið Vísir. 3. mars 2001. bls. 12.
  6. „Bendlar Leoníd Kútsjma forseta við mannrán og morð“. Morgunblaðið. 14. desember 2000. bls. 32.
  7. „Úkraína á krossgötum“. Morgunblaðið. 3. nóvember 2002. bls. 12.
  8. „Davíð og kaldrifjaði einræðisherrann“. Dagblaðið Vísir. 7. febrúar 2004. bls. 6.
  9. „Úkraína nýtt þrætuepli Rússa og Bandaríkjanna“. Morgunblaðið. 25. nóvember 2004. bls. 14.
  10. „Einn af lokaþáttunum í hruni Sovétríkjanna“. Morgunblaðið. 29. desember 2004. bls. 18.
  11. „Fær Kútsma notið eftirlaunanna?“. Morgunblaðið. 16. febrúar 2005. bls. 15.
  12. „Kröfur uppi um að Leoníd Kútsma verði handtekinn“. Morgunblaðið. 5. mars 2005. bls. 18.


Fyrirrennari:
Valentyn Symonenko
(starfandi)
Forsætisráðherra Úkraínu
(13. október 199222. september 1993)
Eftirmaður:
Júkhym Zvjahílskyj
(starfandi)
Fyrirrennari:
Leoníd Kravtsjúk
Forseti Úkraínu
(19. júlí 199423. janúar 2005)
Eftirmaður:
Víktor Júsjtsjenko


  NODES