Mótmælin í Íran 2022

Mótmælin í Íran, einnig kölluð Jina Amini-mótmælin eða Mahsa Amini-mótmælin voru mótmæli gegn klerkastjórn Íslamska lýðveldisins Írans sem hófust í Teheran þann 16. september árið 2022. Mótmælin hófust vegna dauða Jinu Amini, kúrdískrar konu sem var drepin í fangelsi eftir að siðgæðislögregla Írans handtók hana fyrir að hylja hár sitt ekki nógu vel með hijab-slæðu sinni. Mótmælin snúast gegn íslömsku klerkastjórninni, sem hefur ríkt í Íran frá írönsku byltingunni árið 1979.

Mótmælendur andspænis lögreglusveitum í Teheran í september 2022.

Samstöðumótmæli með írönsku mótmælendunum hafa farið fram um allan heim. Írönsk stjórnvöld hafa lokað á internetaðgang í landinu vegna mótmælanna og hafa kennt Bandaríkjunum og Ísrael um að kynda undir þau.

Yfirlit

breyta

Jina Amini (öðru nafni Mahsa Amini, sem var persneskt nafn sem skráð var á vegabréf hennar samkvæmt írönskum lögum[1]) var 22 ára kona af kúrdneskum ættum. Hún var á ferðalagi í Teheran, höfuðborg Írans, í september 2022 þegar siðgæðislögregla ríkisins handtók hana fyrir meint brot hennar gegn lögum sem skylda konur til að bera hijab-slæður á almannafæri. Amini var með slæðu en hluti af hári hennar var sýnilegur og að mati siðgæðislögreglunnar var klæðaburður hennar „ósæmilegur“. Formlega átti að skikka Jinu Amini til að sækja námskeið um klæðaburð.[2]

Amini féll í dá eftir handtöku hennar og lést þremur dögum síðar, þann 16. september 2022, á sjúkrahúsi í Teheran. Írönsk stjórnvöld fullyrtu að hún hefði fengið hjartaáfall sem leiddi til dauða hennar.[2] Vitni og fjölskylda Amini fullyrða hins vegar að hún hafi verið barin til dauða og fæstir Íranar hafa tekið skýringar stjórnvalda trúanlegar.[3]

Dauði Amini leiddi til þess að mótmæli hófust í Kúrdistan, á heimaslóðum hennar. Konur söfnuðust saman á mótmælum og brenndu slæður sínar til þess að mótmæla klerkastjórninni. Mótmælin breiddust fljótt út og undir lok september náðu þær til 80 borga í 31 hér­aði Írans.[2] Dagleg mótmæli hafa verið haldin vikurnar síðan, bæði í Íran og í öðrum löndum. Þótt bæði konur og karlar hafi tekið þátt í mótmælunum hefur það vakið athygli að konur af öllum kynslóðum hafi leitt mótmælahreyfinguna og því hafa stjórnmálaskýrendur skilgreint mótmælin sem fem­íníska bylt­ingu.[1]

Í ávarpi sem Ebrahim Raisi, forseti Írans, flutti þann 28. september sagði hann að öll þjóðin væri sorgmædd vegna andláts Jinu Amini en að stjórn hans gæti ekki leyft fólki að „trufla frið sam­fé­lags­ins með óeirð­u­m“. Í skjali sem lekið var til Amnesty International kom fram að yfirstjórn öryggissveita í Teheran hefði sent fyrirmæli til öryggissveita um allt landið þann 21. september um að tekið skyldi á mótmælendum með hörku.[1] Þann 6. október töldu mannréttindasamtök að alls væru 156 látin vegna aðgerða stjórnvalda til að berja niður mótmælin.[3] Þann 3. október flutti Ali Khamenei, æðstiklerkur Írans, ávarp þar sem hann sagði Bandaríkin og Ísrael hafa skipulagt mótmælin og hvatti öryggissveitirnar áfram.[4]

Um fjórum dögum eftir upphaf mótmælanna höfðu írönsk stjórnvöld alfarið lokað á internetið og komið í veg fyrir að þjóðin hefði aðgang að vinsælum samskiptamiðlum eins og Instagram, Telegram og WhatsApp.[5]

Mótmælin beindust í fyrstu að auknum mannréttindum og gegn kröfum stjórnvalda um að konur yrðu að bera hijab en hafa síðan í auknum mæli falið í sér kröfu um fall klerkastjórnarinnar og nýtt stjórnkerfi í Íran.[6]

Þann 4. desember höfðu íranskir ríkisfjölmiðlar eftir ríkissaksóknara landsins að siðgæðislögreglan hefði verið tekin úr umferð og að stjórnvöld væru að endurskoða reglur um höfuðslæður kvenna.[7] Í júlí næsta ár var siðgæðislögreglan hins vegar aftur tekin til starfa og farin að vakta klæðaburð kvenna.[8]

Eftir að mótmælin höfðu staðið yfir í nokkra mánuði dró nokkuð úr þátttöku í þeim. Mannréttindasamtök Írana, sem hafa höfuðstöðvar í Noregi, telja að 551 mótmælandi hafi fallið í átökum við lögreglu í mótmælunum. Amnesty International telur að rúmlega 22.000 manns hafi verið handteknir.[9]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 Erla María Markúsdóttir (1. október 2022). „Kona, líf, frelsi“. Kjarninn. Sótt 11. október 2022.
  2. 2,0 2,1 2,2 Erla María Markúsdóttir (25. september 2022). „Dauði saklausrar konu kornið sem fyllti mælinn“. Kjarninn. Sótt 11. október 2022.
  3. 3,0 3,1 Anna María Björnsdóttir; Lóa Björk Björnsdóttir (6. október 2022). „Konur fara út á götur vitandi að þær gætu verið drepnar“. RÚV. Sótt 11. október 2022.
  4. Róbert Jóhannsson (3. október 2022). „Sakar Bandaríkin og Ísrael um að skipuleggja mótmælin“. RÚV. Sótt 11. október 2022.
  5. Lovísa Arnardóttir (24. september 2022). „„Ef þú slekkur á Internetinu geturðu gert hvað sem er í þögn". Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 24. september 2022. Sótt 11. október 2022.
  6. Bjarni Pétur Jónsson (2. október 2022). „„Ef lífið verður svona þá er ég tilbúin til að deyja". RÚV. Sótt 11. október 2022.
  7. Kjartan Kjartansson (4. desember 2022). „Sagði að siðgæðislögreglan væri úr myndinni“. Vísir. Sótt 4. desember 2022.
  8. Hólmfríður Gísladóttir (17. júlí 2023). „Sið­ferðis­lög­reglan aftur farin að vakta slæðu­burð kvenna“. Vísir. Sótt 17. júlí 2023.
  9. „Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu“. Varðberg. 16. september 2023. Sótt 21. október 2023.
  NODES
INTERN 5