Maria Montessori

ítalskur læknir, kennari og uppeldisfræðingur (1870-1952)

Maria Tecla Artemisia Montessori (31. ágúst 1870 – 6. maí 1952) var ítalskur læknir, kennari og uppeldisfræðingur. Hún er einna helst þekkt fyrir að þróa Montessori-kennsluaðferðina, sem leggur áherslu á að innleiða vísindi í skólastarfi og að börn eigi að fræðast sjálf og læra að velja þroskandi viðfangsefni.

Maria Montessori
Fædd31. ágúst 1870
Dáin6. maí 1952 (81 árs)
ÞjóðerniÍtölsk
MenntunSapienza-háskólinn
StörfLæknir og uppeldisfræðingur
Þekkt fyrirAð þróa Montessori-kennsluaðferðina
TrúKaþólsk
BörnMario Montessori
Undirskrift

Mynd af Montessori var á ítölskum 1.000 líra seðlum áður en evran var tekin upp.[1]

Æviágrip

breyta

Maria Montessori fæddist árið 1870 í bænum Chiaravalle í Marche á Ítalíu. Hún ákvað snemma að feta menntaveg og hafði hug á að gerast verkfræðingur. Þar sem óalgengt var að konur sæktust eftir framhaldsnámi á þessum tíma var Montessori sett í undirbúningsnám fyrir verkfræðina í drengjaskóla. Eftir að hún hóf verkfræðinámið ákvað Montessori hins vegar að skipta um námsgrein og nema læknisfræði. Hún varð fyrst ítalskra kvenna til þess að nema læknisfræði í háskóla og útskrifaðist með doktorsgráðu í þeirri grein árið 1896 úr Sapienza-háskólanum í Róm.[2]

Að loknu doktorsnámi varð hún aðstoðarlæknir á San Giovanni-sjúkrahúsinu í Róm og vann þar með þroskahömluðum börnum.[3] Montessori varð þar fyrst til þess að skilgreina þroskahömlun sem uppeldisfræðilegt viðfangsefni frekar en sem læknisfræðilegt vandamál.[1] Hún var undir áhrifum af kenningum franska taugalæknisins Édouards Séguin og starf hennar hjá sjúkrahúsinu vakti áhuga hennar á uppeldisfræði sem vísindagrein.[3]

Árið 1898 varð Montessori forstöðukona skóla í Róm fyrir kennara barna með þroskahömlun. Þar gerði hún tilraunir með ýmsar af kennsluaðferðum og kennslutækjum Séguins og útfærði þær á nýja vegu.[3] Hún gerði jafnframt tilraunir með barnauppeldi með áður óþektum aðferðum og innleiddi frjálslegri kennsluhætti en tíðkuðust. Hún komst að raun um að mörg börn sem talin voru vanþroska fóru að skara fram úr í námi þegar þeim var gefið aukið frelsi og fór því að leiða hugann að því hvað vantaði upp á uppeldisaðferðir „heilbrigðra“ barna.[2] Árið 1901 hóf hún reglubundið nám á ný í Sapienza-háskóla og varð á tímabilinu 1904-1908 prófessor í mannfræði við háskólann.[1]

Árið 1907 þáði Montessori boð frá stjórnmálamanninum Edoardo Talamo um að taka við stjórn skóla í fátækrahverfinu San Lorenzo í Róm. Skólagangan hjá Montessori í menntastofnuninni Casa dei bambini var sú frjálslegasta sem hafði nokkurn tímann verið reynd. Hvorki var notast við kennaraborð né púlt og þess í stað voru börnin hvött til sjálfstæðra ákvarðana og reynt var að efla skynfæri og skipulagshæfni þeirra og þroska persónuleika þeirra. Kennsluhættir hennar voru mjög frábrugðnir hefðbundnu skólahaldi þar sem lögð var áhersla á aga, undirgefni við kennarann og refsingar fyrir agabrot.[2] Námsárangur nemenda Montessori vakti brátt heimsathygli og fjöldi fræðimanna lagði leið sína til Rómar til að bera starfshætti hennar augum. Montessori fékk tækifæri til að koma aðferðum sínum enn frekar á framfæri á heimssýningunni í San Francisco árið 1915, en þar var sett upp glerkennslustofa þar sem sýningargestir gátu virt fyrir sér kennsluaðferðirnar í Casa dei bambini.[1]

Kennsluhættir Montessori urðu grunnurinn að Montessori-kennsluaðferðinni svokölluðu, sem náði miklum vinsældum á fyrstu áratugum 20. aldar og Montessori-skólar voru reistir í mörgum löndum. Á Íslandi gerðu Aðalbjörg Sigurðardóttir og Jóna Sigurjónsdóttir tilraun með Montessori-skóla og Guðrún Björnsdóttir hélt starfi þeirra áfram um nokkurt skeið.[3]

Auk þess að vera frumkvöðull í uppeldis- og kennslufræði var Montessori virk í kvenréttindahreyfingunni. Hún flutti erindi um atvinnuþátttöku ítalskra kvenna á kvenréttindaráðstefnu í Berlín árið 1896 og fjallaði um barnaþrælkun á sömu ráðstefnu í London árið 1900. Hún taldi að tækniframfarir myndu leysa konur af hólmi í heimilisstörfum og færði rök fyrir því að efnahags- og þjóðfélagsbreytingar 20. aldarinnar krefðust þess að konur kæmu inn á atvinnumarkaðinn.[1]

Skólum Montessori á Ítalíu var lokað og aðferðir hennar bannaðar þegar fasistaflokkurinn komst þar til valda árið 1922 vegna þess að Montessori neitaði að láta nemendur sína klæðast fasískum einkennisbúningum. Montessori flúði til Spánar en hraktist þaðan þegar spænska borgarastyrjöldin hófst árið 1936. Hún flutti til Indlands og kenndi þar fræði sín og þróaði grunnskólakennsluaðferðir til ársins 1947, en þá flutti hún til Hollands og bjó þar til dauðadags árið 1952.[1]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 Þórdís Þórðardóttir (5. maí 2011). „Hver var Maria Montessori?“. Vísindavefurinn. Sótt 12. mars 2024.
  2. 2,0 2,1 2,2 „Maria Montessori: Brautryðjandinn í starfi að frjálsu uppeldi barna“. Heimilistíminn. 18. september 1975. bls. 4-9.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 Valborg Sigurðardóttir (1. maí 1952). „Maria Montessori“. Menntamál. bls. 41-45.
  NODES