Mengistu Haile Mariam

Einræðisherra í Eþíópíu

Mengistu Haile Mariam (amharíska: መንግሥቱ ኀይለ ማሪያም; f. 21. maí 1937) er eþíópískur stjórnmálamaður og fyrrum herforingi sem var einræðisherra í Eþíópíu frá 1977 til 1991. Mengistu leiddi kommúníska herforingjastjórn sem gekk undir nafninu Derg.

Mengistu Haile Mariam
መንግሥቱ ኀይለ ማሪያም
Forseti Eþíópíu
Í embætti
10. september 1987 – 21. maí 1991
ForsætisráðherraFikre Selassie Wogderess
Hailu Yimenu
Tesfaye Dinka
VaraforsetiFisseha Desta (1987–1991)
Tesfaye Gebre Kidan (1991)
ForveriHann sjálfur sem formaður Derg
EftirmaðurTesfaye Gebre Kidan (starfandi)
Formaður bráðabirgðaherstjórnar Eþíópíu
Í embætti
3. febrúar 1977 – 10. september 1987
ForveriTafari Benti
EftirmaðurHann sjálfur sem forseti
Persónulegar upplýsingar
Fæddur21. maí 1937 (1937-05-21) (87 ára)
Galla-Sidamo, Ítölsku Austur-Afríku (nú Eþíópíu)
ÞjóðerniEþíópískur
StjórnmálaflokkurVerkamannaflokkur Eþíópíu (1984–1991)
MakiWubanchi Bishaw
Börn3
BústaðurHarare, Simbabve

Eftir langvarandi uppreisn gegn stjórn Mengistu hrökklaðist hann frá völdum árið 1991 og flúði til Simbabve. Hann hefur búið þar alla tíð síðan þrátt fyrir að eþíópískur dómstóll hafi dæmt hann sekan að honum fjarstöddum fyrir þjóðarmorð.

Æviágrip

breyta

Mengistu Haile Mariam var einn af forsprökkum herforingjabyltingar sem gerð var gegn stjórn Haile Selassie Eþíópíukeisara árið 1974. Þremur árum eftir byltinguna varð Mengistu óumdeilanlegur leiðtogi byltingarráðs herforingjastjórnarinnar, sem gekk undir nafninu Derg. Mengistu hafði þá látið taka af lífi 57 embættismenn keisarans og rutt úr vegi öllum helstu keppinautum sínum.[1] Herferð Mengistu gegn stjórnarandstæðingum sínum var kölluð „rauða ógnarstjórnin“.[2]

Árið 1975 lét Mengistu þjóðnýta allar jarðir Eþíópíu og samyrkjuvæða landbúnaðinn. Um svipað leyti hófust mótmælaaðgerðir stúdenta gegn stjórninni og gamlar aðskilnaðarhreyfingar juku virkni sína. Árið 1977 hófst Ogadenstríðið þegar Sómalía gerði innrás í Eþíópíu. Stjórn Mengistu var því í afar viðkvæmri stöðu.[3]

Árið 1977 hlaut stjórn Mengistu ríkulega fjárhags- og hernaðaraðstoð frá Sovétríkjunum og Kúbu sem gerði henni kleift að sigrast á Sómölum í Ogadenstríðinu.[4] Með þessari aðstoð varð Eþíópíuher einn sterkasti her í Afríku. Mengistu tók æ marxískari stefnu vegna bandalags síns við Austurblokkina og þáði hjálp austur-þýsku leyniþjónustunnar til að hreinsa burt andóf úr háskólum landsins. Af um 5.000 stúdentum í Háskólanum í Addis Ababa voru um 3.500 drepnir.[3]

Mengistu reyndi að framfylgja byggðastefnu sem átti að stuðla að frekari þéttbýlismyndun í Eþíópíu. Stjórn hans sendi því hermenn til að safna saman fólkum úr ýmsum smáþorpum og þvinga það til að flytjast að fyrirhuguðum bæjarstæðum þar sem áttu að rísa nýir bæir. Sameining þorpa í smærri byggðir átti að auðvelda framkvæmd samyrkjubúskaparins. Stefnan leiddi til þess að víða var ræktað land skilið eftir óhirt. Alls er talið að um fjórar milljónir fólks hafi verið þvingaðar frá heimilum sínum á þennan hátt.[3]

Árin 1984 til 1985 fylgdi Mengistu einnig byggðastefnu sem fól í sér að um 600.000 manns voru fluttir nauðunarflutningum með herflugvélum frá norðurhluta landsins, þar sem uppreisnarhópar höfðu töluverð ítök, til suðurhlutans. Samkvæmt mati Lækna án landamæra lést um einn af hverjum sex í flutningunum. Stjórn Mengistu hætti þessum nauðungarflutningum eftir áköf mótmæli frá alþjóðasamfélaginu árið 1986 en byrjaði aftur árið 1988 og tilkynnti fyrirætlanir um flutninga á um 300.000 manns.[3]

Hungursneyð reið yfir Eþíópíu á stjórnarárum Mengistu frá 1984 til 1985 vegna samyrkjuvæðingar og byggðastefnu stjórnarinnar og yfirstandandi styrjaldar gegn uppreisnarhópum. Um ein milljón manns lést í hungursneyðinni.[5]

Eftir því sem leið á níunda áratuginn versnaði staða stjórnar Mengistu í stríði gegn tveimur uppreisnarhreyfingum, Þjóðfrelsishreyfingu Tígra og Frelsisfylkingu Eritreuþjóðar (sem barðist fyrir sjálfstæði Eritreu undan Eþíópíu). Í nóvember 1989 tilkynnti Mengistu að haldið yrði til friðarviðræðna við stærstu uppreisnarhópana en hvatti jafnframt til herútboðs í landinu, hóf þjálfun fólks í meðferð skotvopna og gaf hverfasamtökum boð til að útvega 60 menn hvert í hernaðinn.[1]

Í maí árið 1991 tókst bandalagi byltingarhópa í Eþíópíu, Lýðræðis- og byltingarhreyfingu eþíópísku þjóðarinnar, að sigra stjórn Mengistu. Mengistu flúði til Simbabve og fékk hæli hjá stjórn Roberts Mugabe í Harare.[6]

Eftir að ný stjórn tók við í Eþíópíu setti hún á fót sérstakan stríðsglæpadómstól til að fara með mál Mengistu og samverkamanna hans.[6] Mengistu var fundinn sekur um þjóðarmorð árið 2006 og dæmdur í lífstíðarfangelsi. Eftir áfrýjun þyngdi Hæstiréttur Eþíópíu dóminn og dæmdi Mengistu til dauða.[2]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 Halldór Guðjónsson (26. nóvember 1989). „Harðstjóri á fallanda fæti“. Morgunblaðið. bls. 14-15.
  2. 2,0 2,1 „Mengistu dæmdur til dauða“. Vísir. 26. maí 2008. Sótt 23. desember 2022.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 Andrés Magnússon (7. september 1988). „Hungurpólitík“. Morgunblaðið. bls. 46-47.
  4. Þórarinn Þórarinsson (21. september 1979). „Mengistu minnist fimm ára afmælis“. Tíminn. bls. 6.
  5. „Réttað í málum marxista í Eþíópíu Keisarinn var kæfður með kodda Addis Ababa“. mbl.is. 15. desember 1994. Sótt 2. janúar 2022.
  6. 6,0 6,1 Ágúst Ásgeirsson (9. mars 1995). „Leiðtogarnir sakaðir um þjóðarmorð“. Morgunblaðið. bls. 31.
  NODES
languages 1