Micheál Martin

Forsætisráðherra Írlands

Micheál Martin (f. 1. ágúst 1960) er írskur stjórnmálamaður úr flokknum Fianna Fáil sem var forsætisráðherra Írlands (Taoiseach) frá júní 2020 til desember 2022. Hann hefur verið leiðtogi Fianna Fáil frá árinu 2011. Hann hefur setið á neðri deild írska þingsins fyrir kjördæmið Cork South-Central frá árinu 1989. Hann var leiðtogi stjórnarandstöðunnar frá 2011 til 2020, utanríkisráðherra Írlands frá 2004 til 2008, heilbrigðisráðherra frá 2000 til 2004 og menntamálaráðherra og borgarstjóri Cork frá 1992 til 1993.

Micheál Martin
Forsætisráðherra Írlands
Í embætti
27. júní 2020 – 17. desember 2022
ForsetiMichael D. Higgins
ForveriLeo Varadkar
EftirmaðurLeo Varadkar
Persónulegar upplýsingar
Fæddur1. ágúst 1960 (1960-08-01) (64 ára)
Dyflinni, Írlandi
ÞjóðerniÍrskur
StjórnmálaflokkurFianna Fáil
MakiMary O'Shea (g. 1989)
TrúarbrögðKaþólskur
Börn5
HáskóliUniversity College Cork

Á meðan Martin var heilbrigðis- og barnamálaráðherra árið 2004 setti hann bann við tóbaksreykingum á öllum vinnustöðum á Írlandi og stofnsetti nýja ríkisheilbrigðisstofnun (enska: Health Service Executive; írska: Feidhmeannacht na Seirbhíse Sláinte). Írland var fyrsta ríki heims sem setti slíkt allsherjarreykingabann á vinnustöðum. Sem utanríkisráðherra fór Martin til Rómönsku Ameríku í fyrsta sinn árið 2009 og fór fyrstur írskra ráðherra í opinbera heimsókn til Kúbu. Sama ár fór hann til Kartúm til þess að semja um lausn Sharon Commins, írsks hjálparstarfsmanns sem hafði verið rænt af súdönskum skæruliðum. Árið 2010 varð hann fyrstur vestrænna utanríkisráðherra til að heimsækja Gasaströndina síðan Hamas-samtökin komust þar til valda árið 2007.

Í janúar árið 2011 sagði Martin af sér sem utanríkisráðherra en var síðan kjörinn áttundi leiðtogi Fianna Fáil eftir að Brian Cowen sagði af sér. Í þingkosningum ársins 2011 bað Fianna Fáil undir forystu Martins sinn versta ósigur frá stofnun sinni, tapaði 57 þingsætum og vann aðeins 17,4% atkvæða. Flokknum gekk mun betur í kosningum ársins 2016 og hann rúmlega tvöfaldaði fylgi sitt úr 20 þingsætum í 44. Í kosningum ársins 2020 varð Fianna Fáil stærsti þingflokkurin á ný og hlaut 38 þingsæti, einu fleira en Sinn Féin, sem vann 37 sæti.[1][2] Eftir langar stjórnarmyndunarviðræður var Martin útnefndur forsætisráðherra Írlands þann 27. júní 2020. Hann leiddi samsteypustjórn Fianna Fáil við flokkana Fine Gael og Græna flokkinn.[3] Samkvæmt stjórnarsáttmála flokkanna sat Martin sem forsætisráðherra á fyrri hluta kjörtímabilsins en síðan tók leiðtogi Fine Gael, Leo Varadkar, aftur við forsætisráðuneytinu.[4]

Tilvísanir

breyta
  1. https://www.rte.ie/news/election-2020/results/#/national
  2. https://www.oireachtas.ie/en/members/office-holders/ceann-comhairle/
  3. Thomas, Cónal (27. júní 2020). „Fianna Fáil leader Micheál Martin has been elected Taoiseach“. TheJournal.ie. Sótt 27. júní 2020.
  4. Atli Ísleifsson (15. júní 2020). „Martin verður næsti for­sætis­ráð­herra Ír­lands“. Vísir. Sótt 11. september 2020.


Fyrirrennari:
Leo Varadkar
Forsætisráðherra Írlands
(27. júní 202017. desember 2022)
Eftirmaður:
Leo Varadkar


   Þetta æviágrip sem tengist stjórnmálum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.
  NODES