Náhvalur (fræðiheiti: Monodon monoceros) er tegund tannhvala og er önnur af tveimur tegundum í hvíthvalaætt (Monodontidae). Hin er mjaldur (Delphinapterus leucas). Latneska fræðiheitið þýðir: "hvalurinn með eina tönn og eitt horn".

Náhvalur
Karldýr náhvals að slást
Karldýr náhvals að slást
Stærðarsamanburður við meðalmann
Stærðarsamanburður við meðalmann
Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Hvalir (Cetacea)
Ætt: Hvíthvalaætt (Monodontidae)
Ættkvísl: Monodon
Tegund:
M. monoceros

Tvínefni
Monodon monoceros
Linnaeus, 1758
Útbreiðsla náhvals
Útbreiðsla náhvals

Lýsing

breyta

Sérkenni náhvalsins er skögultönn sem vex fram úr höfðinu á fullvöxnum törfum. Tönnin verður allt að 2,7 metrar á lengd, hún vex vinstra megin fram úr efri gómi og snýst í spíral til vinstri. Það er með öllu óljóst hvaða hlutverki tönnin gegnir en sennilegt virðist að hún tengist samkeppni milli tarfa.

Náhvalurinn er fremur lítill hvalur, 4,2 til 4,7 metrar á lengd og um 1000 kg. Við fæðingu eru kálfarnir gráir eða dökkbrúnir en við tveggja ára aldur myndast ljósir flekkir á skrokknum, þeir aukast eftir því sem dýrið eldist þannig að fullorðin dýr eru dröfnótt, dökk á baki og að mestu ljós á kviði. Nafn hvalsins á íslensku og öðrum norrænum málum er talið vera dregið af líkindum dröfnóttrar húðarinnar við sjórekið lík.[2] Náhvalurinn hefur ekkert trýni og ennið nær aðeins fram fyrir munninn. Hvalurinn hefur ekkert horn á baki, bægslin eru fremur stutt og á fullorðnum dýrum sveigjast þau upp við endana. Sporðurinn er sérkennilegur í laginu, fremri brún sporðblökunnar er bein en aftari jaðar hvors sporðhelmings sveigist frá miðju að hliðarjaðri.

Útbreiðsla og hegðun

breyta
 
Útbreiðslusvæði náhvals, dökki liturinn sýnir aðalútbreiðslusvæðið en strikaði þar sem hvalurinn er sjaldgæfur

Útbreiðsla náhvals er að mestu bundin við Atlantshafshluta Norður-Íshafsins. Suðurmörkin eru við Hudsonsund í Kanada, norður Diskóflóa, meðfram austurströnd Grænlands og austur fyrir Svalbarða. Náhvalurinn heldur sig að mestu langt norðan við Ísland en hans hefur oft orðið vart við land, sérlega sem hvalreka. Tegundin hefur hins vegar aldrei fundist í talningarleiðöngrum Hafrannsóknastofnunar.

Náhvalur heldur sig við strendur þegar íslaust er orðið í ágúst og fram eftir hausti. Þegar ís fer að leggja færir hvalurinn sig utar og heldur sig í rekís yfir veturinn. Þegar vorar færa þeir sig aftur nær landi[3].

Hvalurinn getur haldið til í mjög þéttum rekís ef einhverjar vakir er að finna. Hann getur brotið þunnan ís með skögultönninni eða snjáldrinu. Vitað er að náhvalur getur kafað niður á 1000 metra dýpi en er þó ekki lengur í kafi en 25 mínútur.[4]

Fæðuvalið er mjög fjölbreytt, smokkfiskar, rækjur og fiskar, til dæmis ískóða, ísþorskur, grálúða og karfi.

Náhvalir eru oftast í litlum hópum, 5 til 10 dýr. Þess eru þó dæmi að hópar tengist í eina stóra en dreifða hjörð með hundruðum eða þúsundum dýra. Sé náhvalur einn á ferð er það nánast undantekningarlaust tarfur.[5]

Veiðar og fjöldi

breyta

Inuítar á Grænlandi og í Kanada hafa stundað veiðar á náhval í margar aldir. Sérlega þykir húðin, sem er mjög þykk og sterk, vera lostæti meðal inuíta og er nefnd mattak. Einnig hefur skögultönnin verið eftirsótt. Veiðar Norðmanna og Rússa og annarra hvalveiðiþjóða á náhval hafa aldrei verið umfangsmiklar og eru nú algjörlega lagðar af. Áætlað er að heildarstofninn geti verið um 50 þúsund dýr.

Goðsögn og saga

breyta

Skögultennur náhvals hafa gengið kaupum og sölum um aldir og voru tengdar goðsögninni um einhyrninga. Vitað er að náhvalstennur voru ein verðmætasta útflutingsvara hinna norrænu Grænlendinga til forna og þóttu miklar gersemar. Bárust meðal annars náhvalstennur til Miklagarðskeisara á 12. öld og 1621 færði Guðbrandur biskup Þorláksson Kristjáni IV Danakonungi náhvalstönn.[6]

Neðanmálsgreinar

breyta
  1. Jefferson, T.A., o.fl. 2008
  2. Hay og Mansfield, 1989
  3. Heide-Jørgensen o.fl., 2003
  4. Heide-Jørgensen o.fl., 2003
  5. Heide-Jørgensen , 1994
  6. Lúðvík Kristjánsson, 1986

Heimildir

breyta
  • Ásbjörn Björgvinsson og Helmut Lugmayr, Hvalaskoðun við Ísland (Reykjavík: JPV Útgáfan, 2002).
  • Bjarni Sæmundsson, Íslensk dýr II: Spendýrin (Reykjavík: Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar, 1932).
  • Hay K.A. og A.W. Mansfield, Narwal - Monodon monocerus. Í: Ridgway S.A. og R. Harrison (ritstjórar) Handbook of marine mammals, 4 bindi. (London: Academic Press, 1989).
  • Heide-Jørgensen M.P., „Distribution, expoitation and population status of white whales (Delphinapterus leucas) and narwals (Monodona monceros) in West Greenland“, Medd. Grønland, Bioscience 39 (1994): 135-149.
  • Heide-Jørgensen M.P., R. Dietz, K.L Laidre, P. Richard, J. Orr og H.C. Schmidt. „The migratory behaviour of narwals (Monodon monoceros)“, Canadian Journal of Zoology 81 (2003): 1293-1305.
  • Jefferson, T.A., Karczmarski, L., Laidre, K., O’Corry-Crowe, G., Reeves, R.R., Rojas-Bracho, L., Secchi, E.R., Slooten, E., Smith, B.D., Wang, J.Y. & Zhou, K.„Monodon monoceros“, 2008 IUCN Red List of Threatened Species (IUCN 2008).
  • Jóhann Sigurjónsson og Gísli A. Víkingsson, „Seasonal abundance of and estimated food consumption by cetaceans in Icelandic and adjacent waters“, Journal of Northwest Atlantic Fishery Science 22 (1997): 271-287.
  • Lúðvík Kristjánsson, Íslenskir sjávarhættir V (Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1986).
  • Páll Hersteinsson (ritsj.), Íslensk spendýr (Vaka-Helgafell 2005). ISBN 9979-2-1721-9
  • Reeves, R., B. Stewart, P. Clapham og J. Powell, National Audubon Society Guide to Marine Mammals of the World (New York: A.A. Knopf, 2002). ISBN 0-375-41141-0.
  • Sigurður Ægisson, Jón Ásgeir í Aðaldal, Jón Baldur Hlíðberg, Íslenskir hvalir fyrr og nú (Reykjavík: Forlagið, 1997).
  • Stefán Aðalsteinsson, Villtu spendýrin okkar (Reykjavík: Bjallan, 1987).
  • Tausti Einarsson, Hvalveiðar við Ísland 1600-1939. Sagnfræðirannsóknir, Studia Historica 8. bindi (ristjóri Bergsteinn Jónsson) (Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1987).

Tenglar

breyta
  • „Hver er sérstaða náhvals?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvað geta hvalir orðið gamlir?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvað getið þið sagt mér um tannhvali?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvernig er dýralíf á Grænlandi?“. Vísindavefurinn.
  • Sandreyður á hvalavef RúV Geymt 23 október 2008 í Wayback Machine
  • Whale and Dolphin Conservation Society
  • Náhval rekur á land í Þistilfirði af mbl.is
  NODES