Norðurrín-Vestfalía

eitt af 16 sambandslöndum Þýskalands

Norðurrín-Vestfalía (þýska: Nordrhein-Westfalen) er fjórða stærsta sambandsland Þýskalands með rúmlega 34 þús km². Það er hins vegar fjölmennasta sambandslandið með 17,9 milljónir íbúa (2018). Ástæðan fyrir því er Ruhrhéraðið, en það er þéttbýlasta svæði Þýskalands og fjórða þéttbýlasta (eða fjölmennasta) svæði Evrópu. Norðurrín-Vestfalía liggur norðarlega í vesturhluta Þýskalands. Fyrir norðan er Neðra-Saxland, fyrir suðaustan er Hessen og fyrir sunnan er Rínarland-Pfalz. Auk þess er Holland fyrir vestan og Belgía fyrir suðvestan. Norðurrín-Vestfalía nær ekki að sjó. Hins vegar eru nokkrar hafnir þar, því stórfljótið Rín rennur í gegnum landið frá suðri til norðurs. Höfuðborgin er Düsseldorf.

Fáni Norðurrín-Vestfalíu Skjaldarmerki Norðurrín-Vestfalíu
Flagge von Hessen
Flagge von Hessen
Landeswappen Hessens
Upplýsingar
Höfuðstaður: Düsseldorf
Stofnun: 23. ágúst 1946
Flatarmál: 34.110,26 km²
Mannfjöldi: 17.900.000 (2018)
Þéttleiki byggðar: 516/km²
Vefsíða: nrw.de
Stjórnarfar
Forsætisráðherra: Hendrik Wüst (CDU)
Lega

Fáni og skjaldarmerki

breyta

Fáni Norðurrín-Vestfalíu samanstendur af þremur láréttum röndum, grænni, hvítri og rauðri. Græni og hvíti liturinn eru frá héraðinu Rínarlandi, en litir Vestfalíu voru áður fyrr hvítur og rauður. Þegar þessi héröð voru sameinuð 1946 voru litirnir einnig sameinaðir í þessu nýja flaggi.

Skjaldarmerkið samanstendur sömuleiðis af litunum grænum, hvítum og rauðum. Auk þess er hvíta áin til vinstri tákn Rínarlands og merkir Rínarfljót. Til hægri er hvíti hestur Vestfalíu, sem minnir á hina fornu saxa sem þar bjuggu áður fyrr. Neðst er rauð og gul rós sem er tákn héraðsins Lippe, en það hérað var sameinað Norðurrín-Vestfalíu 1947.

Orðsifjar

breyta

Nordrhein er einungis norðurhluti Rínarlands sem teygir sig eftir endilangri ánni. Vestfalía (Westfalen) er hins vegar gamalt héraðsnafn síðan á dögum Hinriks ljóns á 12. öld. Sennilegt þykir að endingin -falen sé dregin af gömlum germönskum þjóðflokki [1]

Söguágrip

breyta

Fyrir heimstyrjöldina síðari var hér um þrjú héröð að ræða: Rheinland (með Ruhrhéraðinu), hið gamla konungsríki Westfalen og loks hið sjálfstæða hérað Lippe. Í stríðslok hertóku Bretar öll þessi héruð. Ári síðar klufu Bretar Rínarlandið í tvö lönd og sameinuðu norðurhluta þess Vestfalíu. Þar með varð til nýtt hérað, Norðurrín-Vestfalía, með Düsseldorf að höfuðborg. Suðurhluti Rínarlands var hins vegar sameinaður héraðinu Pfalz í annað hérað. 1947 var héraðið Lippe sameinað Norðurrín-Vestfalíu. 1949 var sambandsríki Þýskalands stofnað og varð Norðurrín-Vestfalía þá að sambandslandi.

Borgir

breyta

Í Norðurrín-Vestfalíu eru fleiri stórborgir en í nokkru öðru sambandslandi Þýskalands, enda er það langfjölmennast. Flestar eru borgirnar í Ruhrhéraðinu. Rín-Ruhr-stórborgarsvæðið telur um 11 milljónir. Stærstu borgirnar:

(2018)

Röð Borg Íbúar Ath.
1 Köln 1100 þúsund Fjórða stærsta borg Þýskalands
2 Düsseldorf 620 þúsund Höfuðborg Norðurrín-Vestfalíu
3 Dortmund 604 þúsund
4 Essen 584 þúsund
5 Duisburg 500 þúsund
6 Bochum 365 þúsund
7 Wuppertal 354 þúsund
8 Bielefeld 333 þúsund
9 Bonn 327 þúsund Fyrrverandi höfuðborg Vestur-Þýskalands
10 Münster 300 þúsund
11 Gelsenkirchen 260 þúsund
12 Mönchengladbach 260 þúsund
13 Aachen 242 þúsund Gamla keisaraborgin
14 Krefeld 222 þúsund
15 Oberhausen 211 þúsund
16 Hagen 186 þúsund
17 Hamm 176 þúsund
18 Mülheim an der Ruhr 167 þúsund
19 Leverkusen 164 þúsund
20 Solingen 156 þúsund
21 Herne 154 þúsund
22 Neuss 154 þúsund
23 Paderborn 144 þúsund

Tilvísanir

breyta
  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 275.

Heimildir

breyta

Fyrirmynd greinarinnar var „Nordrhein-Westfalen“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt apríl 2010.

  NODES
Done 1
see 1