Ormsbók Snorra-Eddu

Ormsbók Snorra-Eddu (Codex Wormianus) er eitt af fjórum aðalhandritum Snorra-Eddu. Hún er varðveitt á „Det Arnemagnæanske Institut“ í Danmörku og hefur þar skráningarnúmerið AM 242 fol.

Codex Wormianus AM 242 fol.

Um uppruna Ormsbókar er ekki vitað, en eigendasaga hennar á 17. öld er þó nokkuð vel skráð. Árni Magnússon fékk handritið frá danska biskupnum Christian Worm árið 1706, en sá hafði fengið það frá afa sínum, fornfræðingnum og lækninum Ole Worm (1588-1654), en við hann er handritið kennt. Ole Worm fékk handritið frá Arngrími Jónssyni lærða (1568-1648) árið 1628, og Arngrímur hefur líklega fengið það frá Guðbrandi Þorlákssyni biskupi (1542-1627), en á síðu 147 í handritinu má sjá fangamark hans. Ekki er vitað með fullri vissu hvaðan Guðbrandur fékk handritið, en líklega hefur hann erft það frá móðurafa sínum, Jóni Sigmundssyni.

Þó saga handritsins sé ekki þekkt lengra en aftur á 16. öld er handritið vafalaust mun eldra, almennt talið frá miðri 14. öld. Aldursgreiningin er helst rökstudd með vísunum í málfræði, letur og stafsetningu textans. Handritið er allt skráð með sömu rithönd, en sú rithönd er einnig þekkt úr öðrum handritum. Sigurður Nordal taldi handritið vera skrifað upp í Húnavatnssýslu á 14. öld.

Ormsbók hefur, auk Snorra-Eddu, að geyma fjórar málfræðiritgerðir sem einfaldlega eru kallaðar fyrsta, önnur, þriðja og fjórða málfræðiritgerðin. Þær eru í aldursröð í handritinu, hvort sem tilviljun hefur ráðið því eða ekki, sú fyrsta er elst og sú fjórða er yngst. Ekki er vitað hver er höfundur málfræðiritgerðanna, fyrir utan þá þriðju, en höfundur hennar er að öllum líkindum Ólafur Þórðarson hvítaskáld (1210-1259). Auk málfræðiritgerðanna og Snorra-Eddu er í handritinu einnig að finna eina varðveitta eintak Rígsþulu, auk annarra smávægilegri verka og athugasemda.

Ormsbók Snorra-Eddu var árið 1931 ljósprentuð, í ritröðinni Corpus Codicum Islandicorum Medii Aevi.

Heimild

breyta
  • Johansson, Karl G. 1997. Studier i Codex Wormianus: skrifttradition och avskriftsverksamhet vid ett isländskt skriptorium under 1300-talet. Acta Universitatis Gothoburgensis, Göteborg.
  • Hreinn Benediktsson. 1972. The First Grammatical Treatise. Institute of Nordic Linguistics, Reykjavík.

Tenglar

breyta
  NODES
languages 1
mac 1
text 2