René Goscinny

franskur myndasöguhöfundur (1926-1977)

René Goscinny (14. ágúst 19265. nóvember 1977) var franskur myndasöguhöfundur. Goscinny er þekktastur fyrir skrif sín í myndasögunum um Ástrík gallvaska sem hann skapaði ásamt teiknaranum Albert Uderzo. Goscinny skrifaði einnig fyrir aðrar myndasögur og á meðal þeirra voru Lukku Láki (myndskreytt af Morris), Fláráður (sem hann skapaði ásamt teiknaranum Jean Tabary) og Litli Lási (sem hann skapaði ásamt teiknaranum Sempé).

René Goscinny

Ævi og störf

breyta

René Goscinny fæddist í París þann 14. ágúst árið 1926, sonur gyðingahjóna sem fædd voru í Póllandi og Úkraínu. Faðirinn var efnafræðingur og vegna starfa hans bjó fjölskyldan lengi í Rómönsku Ameríku, einkum í Argentínu þar sem teiknihæfileikar Goscinny komu fyrst í ljós.

Þegar hann var sextán ára gamall dó faðirinn snögglega úr heilablóðfalli. Goscinny réðst þá til starfa á auglýsingastofu og árið 1946 fluttist hann til Bandaríkjanna í von um að fá vinnu hjá Disney-fyrirtækinu. Sú von rættist ekki, en þess í stað fékk hann starf hjá litlu teiknistúdíói sem hafði meðal annars á að skipa teiknurum sem síðar hófu störf hjá hinu kunna MAD-tímariti.

Í Bandaríkjunum kynntist Goscinny belgíska þríeykinu Jijé, Morris og Franquin, sem einnig höfðu flutt vestur um haf í von um starf hjá Disney. Jijé sannfærði Goscinny um að hæfileikar hans lægju frekar í að semja myndasöguhandrit en sem teiknari. Engu að síður sendi hann frá sér fáeinar myndasögur sem birtust undir dulnefni í belgískum blöðum um miðjan sjötta áratuginn.

Eftir að dvölinni í Bandaríkjunum lauk fluttist Goscinny til Frakklands þar sem hann tók við stjórn Parísarskrifstofu fréttastofunnar World´s Presse. Þar kynntist hann Albert Uderzo sem átti eftir að verða hans helsti samstarfsmaður ævina á enda. Þeir sömdu saman myndasögur um indíánastrákinn Oumpah-Pah, en þær sögur voru að mörgu leyti undanfari sagnanna um Ástrík gallvaska.

Morris höfundur bókanna um Lukku-Láka fékk Goscinny til að semja handrit fyrir sig, en upphaflega hafði Morris bæði samið og teiknað sögurnar sjálfur. Samstarfið reyndist heilladrjúgt og kom Goscinny að því að skapa flestar af eftirminnilegustu aukapersónum bókaflokksins. Eru sögurnar sem Morris og Goscinny unnu í sameiningu almennt taldar hápunktur sagnanna um Lukku-Láka. Á sama hátt skapaði Goscinny persónuna Fláráð stórvesír í samstarfi við Jean Tabary.

Rithöfundahæfileikar Goscinny voru ekki bundnar við gerð myndasöguhandrita. Hann samdi barnasögur um óþekktarangann Litla Lása (fr. Le petit Nicolas) sem myndskreyttar voru af Sempé. Það urðu geysivinsælar barnabækur sem segja frá uppátækjum ungs pilts og skólafélaga hans. Vinsælar kvikmyndir hafa verið gerðar eftir þessum sögum.

Kunnastur er Goscinny þó fyrir sögur þeirra Uderzo um Gallann Ástrík sem hófu göngu sína árið 1959. Vinsældir Ástríks jukust með hverri bók og seldust sögurnar í fáheyrðum upplögum í Frakklandi og víðar um heim. Samstarfi þeirra félaganna lauk þó sviplega árið 1977 þegar Goscinny lést skyndilega af völdum hjartaáfalls. Var fráfall hans reiðarslag fyrir fransk/belgíska myndasöguheiminn.[1] Goscinny hvílir í kirkjugarði í borginni Nice.

Tenglar

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. René Goscinny, Hrakfarir og heimskupör 6. desember 2019“.
  NODES
languages 1
os 22