Saddam Hussein

Einræðisherra í Írak

Saddam Hussein Abd al-Majid al-Tikriti (28. apríl 193730. desember 2006) var forseti Íraks frá 1979 fram að árás Bandaríkjamanna inn í landið 2003. Hann var handtekinn af herliði Bandamanna 13. desember 2003 og dæmdur til dauða 5. nóvember 2006. Hann var hengdur þann 30. desember 2006 samkvæmt dómsúrskurði.

Saddam Hussein
صدام حسين
Saddam Hussein árið 1979.
Forseti Íraks
Í embætti
16. júlí 1979 – 9. apríl 2003
ForsætisráðherraHann sjálfur (1979–1991)
Sa'dun Hammadi (1991)
Mohammed Hamza Zubeidi (1991–1993)
Ahmad Husayn Khudayir as-Samarrai (1993–1994)
Hann sjálfur (1994–2003)
VaraforsetiTaha Muhie-eldin Marouf (1974–2003)
Izzat Ibrahim al-Douri (1979–2003)
Taha Yassin Ramadan (1991–2003)
ForveriAhmed Hassan al-Bakr
EftirmaðurJay Garner (sem foringi bandaríska hernámsliðsins)
Persónulegar upplýsingar
Fæddur28. apríl 1937
Al-Awja, Tikrit, Írak
Látinn30. desember 2006 (69 ára) Bagdad, Írak
ÞjóðerniÍraskur
StjórnmálaflokkurBa'ath-flokkurinn
MakiSajida Talfah
Samira Shahbandar
BörnUday, Qusay, Raghad, Rana, Hala
StarfHermaður, stjórnmálamaður
Undirskrift

Saddam Hussein var alræmdur fyrir harðstjórn sína og hrottaskap gegn andófsmönnum. Fjölmargar erlendar ríkisstjórnir og alþjóðasamtök sökuðu hann um mannréttindabrot, stríðsglæpi, morð, glæpi gegn mannkyninu og þjóðarmorð. Sumir hlutar Arabaheimsins telja hann þó hafa sett gott fordæmi með andstöðu sinni við bandarísk og ísraelsk yfirráð í miðaustrinu. Mikill ófriður og pólitískur óstöðugleiki hefur ríkt í Írak frá því að Saddam var rekinn frá völdum.[1]

Æviágrip

breyta

Saddam Hussein var meðlimur Ba'ath-flokksins og einn helsti stjórnandi Íraksdeildar flokksins. Saddam fylgdi hugmyndafræði Ba'athisma, sem er blanda af sósíalisma og arabískri þjóðernishyggju. Saddam tók þátt í valdaráni Ba'athista gegn Abdul Rahman Arif forseta þann 17. júlí 1968 og gerðist varaforseti í ríkisstjórn Ahmeds Hassan al-Bakr.

Á forsetatíð hins aldurhnigna al-Bakr ríkti talsverður pólitískur óstöðugleiki í Írak og fjölmargir vígahópar ógnuðu ríkisvaldinu. Saddam nýtti sér ástandið og stofnaði öryggissveitir sem gerðu honum kleift að stjórna samskiptum milli ríkisstjórnarinnar og hersins. Saddam stóð einnig á þessum tíma fyrir ýmsum efnahagsumbótum sem bættu talsvert lífsskilyrði hins almenna íraska borgara. Meðal annars þjóðnýtti hann olíuiðnaðinn og ýmis önnur fyrirtæki í byrjun áttunda áratugarins. Stjórn Saddams á íraska ríkisbankanum gerði ríkið og efnahag þess þó mjög fallvalt þegar kom til átaka við nágrannaríkin og harðstjórn hans leiddi einnig til refsiaðgerða að hálfu Sameinuðu þjóðanna. Á áttunda áratuginum herti Saddam enn valdataumana með tangarhaldi sínu á arðbærum olíuiðnaði landsins, sem gerði efnahag Írak kleift að viðhalda nokkrum stöðugleika á þessum tíma. Saddam útnefndi Súnní-múslima í flest ríkisstjórnarembætti þótt Súnní-múslimar væru aðeins minnihluti af írösku þjóðinni.

Forsetatíð

breyta

Þótt Saddam hefði þegar verið hinn eiginlegi leiðtogi írösku stjórnarinnar í rúman áratug varð hann ekki forseti fyrr en árið 1979. Saddam beitti grófu ofbeldi til þess að kveða niður uppreisnarhreyfingar Sjíamúslima og Kúrda og festi sig enn frekar í sessi sem einræðisherra landsins. Í forsetatíð Saddams háðu Írakar átta ára stríð gegn Íran sem kostaði löndin um hálfa milljón mannslífa.[1] Yfirlýstur tilgangur innrásarinnar var að endurheimta landsvæði sem Íranar hefðu sölsað undir sig frá Írak.[2]

Árið 1990 gerði Saddam innrás í Kúveit og hóf þannig Persaflóastríðið. Þann 25. júlí 1990 hafði Saddam fundað með April Glespie, sendiherra Bandaríkjanna í Írak, sem hafði tjáð honum að Bandaríkin tækju ekki afstöðu til innbyrðis deilna Arabaþjóðanna. Saddam virðist hafa túlkað orð Glespie sem svo að stjórn George H. W. Bush Bandaríkjaforseta gæfi í reynd grænt ljós á innrásina.[3] Þessi átök enduðu með ósigri Íraka, sem neyddust til að hafa sig á brott úr Kúveit árið 1991 vegna alþjóðlegrar mótárásar undir stjórn Bandaríkjamanna. Írak var í kjölfarið einangrað á alþjóðasviðinu en Saddam tókst þó að halda áfram í völdin.

Íraksstríðið

breyta

Árið 2003 gerði hernaðarbandalag undir stjórn Bandaríkjanna og Bretlands innrás í Írak til þess að hrekja Saddam frá völdum. Bandaríkjamenn sökuðu Saddam um að búa yfir gereyðingarvopnum og um að veita hryðjuverkasamtökunum Al-Kaída aðstoð. Engar sannanir voru færðar fram fyrir þessum ásökunum og þær reyndust síðar ósannar. Í Íraksstríðinu sem fylgdi í kjölfarið var Saddam hrakinn frá völdum. Hernámsliðið bannaði Ba'ath-flokkinn og skipulagði lýðræðislegar kosningar í Írak. Saddam var handtekinn af bandarískum hermönnum eftir átta mánuði á flótta og réttað var yfir honum á íröskum dómstól, meðal annars fyrir glæpi gegn mannkyninu. Þann 5. nóvember 2006 var Saddam dæmdur sekur fyrir fjöldamorð á 148 íröskum Sjíamúslimum árið 1982 og dæmdur til dauða. Saddam Hussein var að endingu hengdur þann 30. desember árið 2006.

Tenglar

breyta
  • Jens Nauntofte (3. febrúar 1987). „Harðstjórinn í Bagdad“. Alþýðublaðið. Sótt 6. september 2018.
  • „Saddam Hussein“, Morgunblaðið 1980

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 Sveinn Guðmarsson (7. júní 2006). „Hvað liggur á bak við deilur Íraks og Írans? Hvert er ástandið nú og hverjar eru horfurnar?“. Vísindavefurinn. Sótt 4. mars 2024.
  2. „Pattstaða við Persaflóa“. Þjóðviljinn. 25. febrúar 1983. Sótt 6. september 2018.
  3. Magnús Þorkell Bernharðsson (2018). Mið-Austurlönd: Fortíð, nútíð og framtíð. Reykjavík: Mál og menning. bls. 291. ISBN 978-9979-3-3683-9.


Fyrirrennari:
Ahmed Hassan al-Bakr
Forseti Íraks
(16. júlí 19799. apríl 2003)
Eftirmaður:
Jay Garner
(sem foringi bandaríska hernámsliðsins)


   Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.
  NODES
languages 1
os 3