Sankti Kristófer og Nevis

Sambandsríkið Sankti Kristófer og Nevis eða Sankti Kitts og Nevis (enska: Saint Kitts and Nevis, opinberlega Saint Christopher and Nevis) er tveggja eyja eyríki í Karíbahafi. Eyjarnar eru hluti Hléborðseyja, sem eru nyrðri hluti Litlu-Antillaeyja. Næstu eyjar eru við Sankti Kristófer og Nevis eru Angvilla, Saba, Saint Barthélemy og Saint Martin í norðnorðvestur, Antígva og Barbúda í norðaustur, Montserrat í suðvestur og Saint Croix í vestur.

Sam­bands­ríkið Sankti Kitts og Nevis
Federation of Saint Kitts and Nevis
Fáni Sankti Kristófer og Nevis Skjaldarmerki Sankti Kristófer og Nevis
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Country Above Self
Þjóðsöngur:
O Land of Beauty!
Staðsetning Sankti Kristófer og Nevis
Höfuðborg Basseterre
Opinbert tungumál enska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Konungur Karl 3.
Landstjóri Tapley Seaton
Forsætisráðherra Timothy Harris
Sjálfstæði
 • frá Bretlandi 19. september 1983 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
187. sæti
261 km²
~0
Mannfjöldi
 • Samtals (2018)
 • Þéttleiki byggðar
213. sæti
52.441
164/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 • Samtals 1,758 millj. dala (203. sæti)
 • Á mann 31.095 dalir (83. sæti)
VÞL (2019) 0.779 (74. sæti)
Gjaldmiðill austurkarabískur dalur (XCD)
Tímabelti UTC-4
Þjóðarlén .kn
Landsnúmer +1 869

Höfuðborg sambandsríkisins, sem einnig er aðsetur alríkisstjórnarinnar heitir Basseterre og er á stærri eyjunni, Sankti Kristófer. Eyjan Nevis (Nuestra Señora de las Nieves) er 3 km suðaustur af stærri eyjunni. Áður var breska nýlendan Angvilla hluti af sambandinu, sem þá hét Sankti Kristófer-Nevis-Angvilla.

Eyjarnar voru byggðar Indíánum um þúsundir ára, en Karíbar lögðu þær undir sig um þremur öldum fyrir komu Evrópumanna. Franskir húgenottar settust að á Sankti Kristófer árið 1538 og urðu með því einna fyrstir Evrópumanna til að nema land á Karíbahafseyjum. Spánverjar lögðu byggð þeirra í rúst og fluttu þá burt frá eyjunni skömmu síðar. Árið 1623 hófu Englendingar landnám og síðan Frakkar á ný. Árið 1626 frömdu landnemarnir fjöldamorð á frumbyggjum eyjanna sem höfðu lagt á ráðin um að reka hvítu landnemana burt. Spánverjar lögðu byggðirnar á eyjunni aftur í rúst en heimiluðu svo endurreisn þeirra árið 1630. England og Frakkland tókust á um yfirráð en að lokum urðu eyjarnar enskt yfirráðasvæði árið 1713. Sykurplantekrur voru undirstaða byggðarinnar og þrælar frá Afríku voru fluttir inn í stórum stíl til að vinna á þeim. Eyjarnar fengu (ásamt Angvilla) heimastjórn árið 1967. Íbúar Angvilla klufu sig úr sambandinu árið 1971. Eyjarnar fengu fullt sjálfstæði árið 1983.

Frá 17. öld og fram undir miðja 20. öld var sykur helsta útflutningsafurð eyjanna en lækkandi heimsmarkaðsverð hefur ýtt undir aukna fjölbreytni í landbúnaðarframleiðslu eyjanna. Mikilvægustu atvinnugreinarnar eru ferðaþjónusta og rafeindatæki og rafeindaíhlutir.

Sankti Kristófer nefndist Liamuiga, sem merkir „frjósamt land“ á máli Kalinaga sem bjuggu á eyjunni upprunalega.[1]

Talið er að Kristófer Kólumbus hafi fyrstur Evrópumanna séð eyjarnar árið 1493 og hafi nefnt stærri eyjuna San Cristóbal eftir heilögum Kristófer, sem var bæði verndardýrlingur hans sjálfs og allra ferðalanga. Nýlegar rannsóknir benda hins vegar til þess að Kólumbus hafi nefnt eyjuna Sant Yago (heilagur Jakob) og hafi notað Kristófersnafnið á eyjuna sem í dag nefnist Saba, 32 km norðvestar. Hvað sem því líður var eyjan þekkt sem San Cristóbal á 17. öld.[2] Þegar fyrstu ensku landnemarnir settust þar að kölluðu þeir eyjuna St. Christopher's Island. Á 17. öld var Kit eða Kitt algeng stytting á Christopher og eyjan var þannig nefnd óformlega Saint Kitt's Island eða einfaldlega Saint Kitts.[2]

Kólumbus nefndi Nevis San Martín.[1] Nafnið Nevis er dregið af spænska nafninu Nuestra Señora de las Nieves, „vor frú í snjónum“, sem vísar til sögu af kraftaverki frá 4. öld þegar snjór féll að sumarlagi á hæðinni Esquilino í Róm.[3] Talið er að hvít skýin kringum tind Nevisfjalls hafi minnt á kraftaverkið.[2]

Stjórnarskrá Sankti Kristófer og Nevis nefnir ríkið bæði Saint Kitts and Nevis og Saint Christopher and Nevis. Fyrri útgáfan er meira notuð en sú síðari er notuð í alþjóðasamskiptum sem formlegt ríkisheiti.

Landfræði

breyta
 
Horft til eyjunnar Nevis frá suðausturodda Sankti Kristófer.

Sankti Kristófer og Nevis eru tvær stórar eyjar, Sankti Kristófer og Nevis, með 3 km breitt sund milli sín.[4] Báðar eyjarnar eru eldfjallaeyjar með há fjöll inni í landi, þakin hitabeltisregnskógi.[2] Meirihluti íbúa býr í flatlendum strandhéruðunum.[2] Á Sankti Kristófer eru nokkrir fjallgarðar (Norðvesturfjöll, Miðfjöll og Suðvesturfjöll). Hæsti tindurinn er Liamuiga-fjall á miðri eynni, 1.156 metrar á hæð.[4] Við ströndina eru hæðadrögin Kanadahæðir og Conaree-hæðir. Í suðaustri mjókkar eyjan og endar í flötum skaga þar sem stærsta stöðuvatn eyjunnar er, Great Salt Pond. Í suðaustri er Booby-eyja. Nokkrar ár renna niður fjallshlíðarnar á báðum eyjunum og sjá íbúum fyrir ferskvatni. Minni eyjan, Nevis, er nokkurn veginn hringlaga. Nevisfjall, 985 metrar á hæð, gnæfir yfir eyjunni.

Stjórnmál

breyta

Stjórnsýslueiningar

breyta

Sankti Kristófer og Nevis er skipt í fjórtán sóknir: níu á Sankti Kristófer og fimm á Nevis.

Sóknir Kort


Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 Saunders, Nicholas J. (2005). Peoples of the Caribbean : an encyclopedia of archeology and traditional culture. Santa Barbara, Calif.: ABC-CLIO. bls. 260–261. ISBN 1576077012. OCLC 62090786.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 „CIA World Factbook- St Kitts and Nevis“. www.cia.gov. Sótt 10. júlí 2019.
  3. Herbermann, Charles, ed. (1913). „Our Lady of the Snow“. Catholic Encyclopedia. New York: Robert Appleton Company.
  4. 4,0 4,1 „Enclopedia Britannica – St Kitts and Nevis“. Sótt 10. júlí 2019.
   Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.
  NODES
Done 1