Sankti Pierre og Miquelon

Sankti Pierre og Miquelon (franska: Saint-Pierre-et-Miquelon) eru nokkrar litlar eyjar sem eru franskt yfirráðasvæði handan hafsins, skammt undan strönd Nýfundnalands. Eyjarnar eru það eina sem eftir er af nýlendunni Nýja Frakklandi. Franskir og baskneskir fiskimenn námu þar land snemma á 16. öld og notuðu sem miðstöð fyrir þorskveiðar í Norður-Atlantshafi, nokkru áður en Jacques Cartier kom þangað 1536.

Saint-Pierre et Miquelon
Fáni Sankti Pierre og Miquelon Skjaldarmerki Sankti Pierre og Miquelon
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
A mare labor (latína)
Atvinna, af hafi
Staðsetning Sankti Pierre og Miquelon
Höfuðborg Saint-Pierre
Opinbert tungumál franska
Stjórnarfar Lýðveldi

Þingforseti Bernard Briand
Héraðsstjóri Christian Pouget
franskt handanhafshérað
 • Franskt tilkall 1536 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)

242 km²
0
Mannfjöldi
 • Samtals (2017)
 • Þéttleiki byggðar

5.997
25/km²
VLF (KMJ) áætl. 2004
 • Samtals 0,161131 millj. dala
 • Á mann 26.073 dalir
Gjaldmiðill evra (EUR)
Tímabelti UTC-3 (-2 á sumrin)
Þjóðarlén .pm
Landsnúmer +508

Eyjarnar eru í mynni Fortune-flóa við suðurströnd Nýfundnalands rétt hjá Miklabanka þar sem eru auðug fiskimið. Aðalútflutningsvörur eyjanna eru fiskur, humar og fiskafurðir. Efnahagslífið hefur dregist saman vegna minnkandi fiskistofna og takmarkana á fiskveiðum í lögsögu Kanada frá 1992.

Íbúar voru 6.080 í manntali sem gert var árið 2011. Þar af bjuggu 5.456 á Saint-Pierre og 624 á Miquelon-Langlade. Nær allir tala frönsku sem er líkari evrópskri frönsku en kanadískri frönsku. Áður talaði fólk af baskneskum uppruna basknesku en notkun hennar lagðist af seint á 6. áratug 20. aldar.

Landslag á Sankti Pierre og Miquelon

Franska heitið á Saint-Pierre er dregið af nafni heilags Péturs sem er verndardýrlingur fiskimanna.

Miquelon kemur fyrst fyrir sem Micquelle í leiðsögubók baskneska sjómannsins Martin de Hoyarçabal fyrir Nýfundnaland frá 1579. Því hefur verið haldið fram að þetta nafn sé basknesk útgáfa af nafninu „Mikael“ sem kemur oft fyrir sem Mikelon í Baskalandi. Miquelon kann því að vera frönsk aðlögun á baskneska nafninu.

Miquelon kann líka að vera dregið af spænska heitinu Miguelón sem er Mikael með stækkunarendingu, „stóri Mikael“. Nafn eyjunnar Langlade, sem tengist Miquelon um eiði, er dregið af franska heitinu l'île à l'Anglais, „eyja Englendingsins“.

Portúgalski landkönnuðurinn João Álvares Fagundes tók land á eyjunum 21. október 1520 og nefndi eyjaklasann við Saint-Pierre „ellefu þúsund jómfrúr“ þar sem dagurinn var messudagur heilagrar Úrsúlu og fylgismeyja hennar. Árið 1536 gerði Jacques Cartier tilkall til eyjanna fyrir hönd Frakkakonungs. Eyjarnar voru notaðar sem bækistöðvar veiðimanna frá Mi'kmaq-þjóðinni, auk Baska og Bretóna en föst búseta í eyjunum hófst fyrst undir lok 17. aldar. Árið 1670 voru fjórir íbúar taldir hafa þar fasta búsetu og 22 árið 1691.

Árið 1670, landstjóratíð Jean Talon, voru eyjarnar lagðar undir Nýja Frakkland eftir að franskur liðsforingi hafði farið þangað og fundið þar búðir franskra fiskimanna. Breski sjóherinn hóf fljótlega árásir á búðir og skip fiskimannanna. Snemma á 18. öld voru eyjarnar óbyggðar að nýju. Þær gengu til Breta í Utrecht-sáttmálanum sem batt enda á Spænska erfðastríðið árið 1713.

Með Parísarsáttmálanum 1763 eftir Sjö ára stríðið létu Frakkar Bretum eftir allar nýlendur sínar í Norður-Ameríku, en fengu aftur yfirráð yfir eyjunum Saint-Pierre og Miquelon. Frakkar héldu líka eftir fiskveiðiréttindum við Nýfundnaland (Franska ströndin).

Þar sem Frakkar studdu uppreisnarmenn í Bandaríska sjálfstæðisstríðinu gerðu Bretar árás á nýlenduna og lögðu hana í rúst árið 1778. Allir 2000 íbúar eyjanna voru sendir til Frakklands. Árið 1793 réðust Bretar aftur á nýlenduna, hröktu franska íbúa burt og reyndu að setja upp breska nýlendu. Breska nýlendan var lögð í rúst af frönskum her árið 1796. Með Amiens-sáttmálanum 1802 fengu Frakkar aftur yfirráð yfir eyjunum en Bretar hernámu þær þegar stríð braust aftur út ári síðar.

Frakkar fengu aftur yfirráð yfir eyjunum með Parísarsáttmálanum 1814 þótt Bretar legðu þær aftur undir sig tímabundið í Hundrað daga stríðinu. Eftir það tók Frakkland yfir stjórn eyjanna sem nú voru óbyggðar og nánast allar byggingar ónýtar eða í niðurníðslu. Nýir íbúar, mest Baskar, Bretónar og Normannar, settust að á eyjunum frá 1816. Við bættust innflytjendur frá Nýfundnalandi. Um miðja 19. öld tók byggðin að blómstra vegna aukinna fiskveiða.

Snemma á 2. áratug 20. aldar varð byggðin fyrir miklu áfalli vegna minnkandi tekna af fiskveiðum og margir íbúar fluttu til Nova Scotia og Quebec. Herskylda sem komið var á í upphafi Fyrri heimsstyrjaldar gerði út af við útgerðina. Um 400 karlmenn úr nýlendunni voru kallaðir í franska herinn í Fyrri heimsstyrjöld og um fjórðungur þeirra lét lífið. Vélskipaútgerðin dró síðan enn úr atvinnutækifærum fyrir fiskimenn.

Smygl hafði lengi verið ábatasamur atvinnuvegur á eyjunum og hlaut aukið vægi á Bannárunum á 3. áratugnum. Árið 1931 voru 1.815.271 bandarísk gallon (6.871.550 lítrar) af viskýi flutt inn til eyjanna frá Kanada. Mestu af því mun hafa verið smyglað til Bandaríkjanna. Þegar áfengisbanninu lauk 1933 olli það efnahagslegu hruni á eyjunum.

Í Síðari heimsstyrjöld lagði Charles de Gaulle eyjarnar undir Frjálsa Frakka þrátt fyrir andstöðu Kanada, Bretlands og Bandaríkjanna. Eyjarnar höfðu áður lýst yfir stuðningi við Vichy-stjórnina. Næsta dag samþykktu íbúar yfirtöku Frjálsra Frakka í atkvæðagreiðslu. Eftir stjórnarskrárkosninguna 1958 fengu íbúar að ráða hvort þeir vildu vera hluti Frakklands, heimastjórnarsvæði innan Franska samveldisins eða vera áfram handanhafssvæði. Þeir völdu síðastnefnda kostinn.

Landfræði

breyta
 
Gervihnattarmynd af Sankti Pierre (neðst til hægri) og Miquelon.

Eyjaklasinn er við vesturenda Burin-skaga á Nýfundnalandi og nær yfir átta eyjar, alls 242 km² að stærð. Aðeins tvær þeirra eru byggðar.[1][2] Eyjarnar eru berar með bröttum klettum við strendurnar og þaktar þunnu lagi af mó.[3] Landfræðilega eru þær hluti af norðausturenda Appalasíufjalla, ásamt Nýfundnalandi.[1]

Minni eyjan, Saint-Pierre-eyja (26 km²), er sú þéttbýlli og er miðstöð eyjaklasans. Saint-Pierre-flugvöllur tók til starfa árið 1999 og getur tekið við þotum í langflugi frá Frakklandi.[4]

Stærri eyjan, Miquelon-Langlade, er í raun tvær eyjar: Miquelon-eyja (líka kölluð Grande Miquelon, 110 km²), og Langlade (91 km²), en þær tengjast saman um mjótt sandeiði, Dune de Langlade.[4][5] Á 18. öld rauf stormur eiðið og skildi eyjarnar að í nokkra áratugi þar til hafstraumar endurbyggðu eiðið.[6] Hæsti punktur eyjanna er Morne de la Grande Montagne, 240 metrar á hæð, á Grande Miquelon.[1] Sundið milli Langlade og Saint-Pierre var kallað „munnur Vítis“ (Gueule d'Enfer) til um 1900 þar sem yfir 600 skipbrot voru skráð á þeim stað frá 1800.[7] Á norðurenda Miquelon er þorpið Miquelon-Langlade (710 íbúar), en Langlade-eyja er nær alveg óbyggð (einn íbúi í manntalinu 1999).[6]

Þriðja eyjan, L'Île-aux-Marins, kölluð Île-aux-Chiens til 1931, sem liggur skammt frá höfninni í Saint-Pierre, hefur verið óbyggð frá 1963.[6] Aðrar eyjar í eyjaklasanum eru Grand Colombier, Île aux Vainqueurs og Île aux Pigeons.

Stjórnmál

breyta
 
Staðbundinn fáni Sankti Pierre og Miquelon byggist á skjaldarmerkinu.

Frá 2003 hefur Sankti Pierre og Miquelon verið handanhafsbyggð með sérstaka stöðu.[1] Eyjaklasinn varð handanhafssvæði árið 1946 og síðan handanhafssýsla 19. júlí 1976.[8] Eyjarnar urðu svo handanhafsbyggð 11. júní 1985.[9][4] Eyjaklasinn skiptist í tvö sveitarfélög, Saint-Pierre og Miquelon-Langlade.[10] Til 1945 var til þriðja sveitarfélagið, Isle-aux-Marins, en það var sameinað Saint-Pierre.[6] Íbúar landsins eru franskir ríkisborgarar og hafa kosningarétt í Frakklandi.[11] Eyjarnar eiga öldungadeildarþingmann á franska þinginu í París og njóta nokkurs sjálfstæðis við ákvarðanir í skatta- og tollamálum.[12][1]

Frakkland skipar héraðsstjóra sem er fulltrúi ríkisstjórnarinnar á svæðinu.[13] Héraðsstjórinn fer með hagsmunamál ríkisins, löggæslu, almannareglu og stjórnsýslu, samkvæmt skilyrðum stöðulaga frá 1985.[14] Christian Pouget var skipaður héraðsstjóri árið 2021.[15]

Löggjafi héraðsins, héraðsráð Sankti Pierre og Miquelon, er skipaður 19 ráðgjöfum, 4 frá Miquelon-Langlade og 15 frá Saint-Pierre.[10][1] Forseti héraðsráðsins er formaður sendinefndar Frakklands við alþjóðleg tilefni eins og árlega fundi Norður-Atlantshafsfiskveiðistofnunarinnar og Atlantshafstúnfisksveiðiráðsins.[10]

Frakkland fer með landvarnir eyjanna.[1] Frakkar hafa haldið þar úti strandgæsluskipi síðan 1997.[16] Löggæsla á Sankti Pierre og Miquelon heyrir undir frönsku herlögregluna. Það eru tvær lögreglustöðvar á eyjunum.[17]

Mánudaginn 10. janúar 2022 komst Sankti Pierre og Miquelon í fréttirnar þegar franski þingmaðurinn Stéphane Claireaux var grýtt með þangi og steinum vegna nýrra Covid-19-reglna ríkisstjórnarinnar sem vöktu reiði íbúa.[18]

Efnahagslíf

breyta
 
Hlutfallsleg skipting útflutningstekna 2019.
 
Fiskibátar í höfninni í Saint-Pierre.

Hefðbundinn aðalatvinnuvegur eyjanna eru fiskveiðar og þjónusta við fiskveiðiflota á veiðum undan strönd Nýfundnalands.[1] Erfitt veðurfar og takmarkað land hindra landbúnað. Jarðvegur á eyjunum er að mestu næringarsnauður leir og mór.[19] Efnahagslíf eyjanna hefur verið í niðursveiflu síðan 1992, aðallega vegna hruns fiskistofna vegna ofveiði, takmörkun fiskveiða og veiðibanns á þorski sem ríkisstjórn Kanada kom á.[20]

Ríkið hefur brugðist við auknu atvinnuleysi með fjárhagsaðstoð til fyrirtækja og einstaklinga. Gerð flugvallar árið 1999 studdi við fjárfestingu í byggingariðnaði og opinberar framkvæmdir.[4] Fiskeldi, krabbaveiðar og landbúnaður eru meðal þróunarverkefna sem eiga að auka fjölbreytni í atvinnulífinu.[1] Framtíð byggðar á eyjunum er talin velta á ferðaþjónustu, fiskveiðum og fiskeldi, en olíu- og gasleit hefur líka farið fram.[4] Ferðaþjónustan nýtur nálægðarinnar við svipuð landsvæði í Kanada.[19]

Vinnumarkaðurinn á eyjunum einkennist af árstíðabundnum verkefnum vegna veðurofsa. Áður fyrr hættu íbúar allri vinnu utandyra (byggingarvinnu, landbúnaði o.s.frv.) milli desember og apríl.[21] Árið 1999 var atvinnuleysi 12,8% og þriðjungur starfa var hjá opinbera geiranum. Árið 2020 var atvinnuleysi 7,1% og hafði minnkað um 0,6% frá árinu áður.[21] Útflutningur er aðeins 5,1% af landsframleiðslu en innflutningur er 49,1%.[22] Um 70% af innflutningi kemur frá Kanada eða frá öðrum héruðum Frakklands gegnum Nova Scotia.[11]

Gjaldmiðill á Sankti Pierre og Miquelon er evra.[23] Kanadadalurinn er víða tekinn gildur og notaður.[24] Franska stofnunin Institut d'émission des départements d'outre-mer (IEDOM), sem ber ábyrgð á útgáfu peninga í handanhafshéruðum sem nota evruna fyrir hönd franska seðlabankans, hefur verið með skrifstofu í Saint-Pierre frá 1978.[25] Frímerki hafa komið út á eyjunum frá 1885 til okkar daga, fyrir utan tímabilið frá 1. apríl 1978 til 3. febrúar 1986 þegar frönsk frímerki voru notuð.[26]

Íbúar

breyta

Samkvæmt manntali sem var tekið í janúar 2016 voru íbúar eyjanna 6.008,[27] þar af bjuggu 5.412 á Saint-Pierre og 596 á Miquelon-Langlade.[28] Þegar manntal var tekið árið 1999 voru 76% íbúa fædd í eyjunum, en 16,1% fædd í Frakklandi, sem var mikil aukning frá 10,2% árið 1990. Í sama manntali voru innan við 1% erlendir ríkisborgarar.[6]

Brottflutningur frá eyjunum er mikill, sérstaklega meðal ungs fólks sem oft fer burt til að læra og snýr ekki aftur.[6] Jafnvel þegar fiskveiðar gengu vel var íbúafjölgun takmörkuð af fjarlægð eyjanna, erfiðu loftslagi og lélegu ræktarlandi.[6]

Menning

breyta

Á hverju sumri er haldin Baskahátíð þar sem keppt er í harrijasotzaile (steinalyftingum), aizkolari (skógarhöggi) og pelótu.[29] Matargerð á eyjunum byggist aðallega á sjávarfangi, eins og humri, snjókrabba, kræklingi og sérstaklega þorski.[30]

Íshokkí er vinsæl íþrótt á Sankti Pierre og Miquelon og lið frá eyjunum keppa oft í deildum á Nýfundnalandi. Áhöfn varðskipsins Fulmar stofnaði íshokkíliðið O.K Fulmar árið 2014.[31] Nokkrir leikmenn frá eyjunum hafa leikið með frönskum og kanadískum liðum og jafnvel tekið þátt í franska karlalandsliðinu í íshokkí á Ólympíuleikunum.

Á eyjunum er ekki algengt að notast við götunöfn, heldur eru hús kennd við íbúa og viðurnefni.[32]

Eina skiptið sem fallöxi var notuð í Norður-Ameríku var á Saint-Pierre seint á 19. öld.[33] Joseph Néel var dæmdur fyrir morðið á hr. Coupard á Île aux Chiens 30. desember 1888 og tekinn af lífi með fallöxi 24. ágúst 1889. Tækið var flutt með skipi frá Martinique og virkaði ekki þegar það kom. Erfitt var að framkvæma aftökuna, en að lokum var innflytjandi fenginn til að sjá um verkið. Kvikmyndin La veuve de Saint-Pierre frá 2000 byggir á þessum atburðum. Fallöxin er nú á safni í Saint-Pierre.[33]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 1,7 1,8 Saint Pierre and Miquelon. The World Factbook. Central Intelligence Agency.
  2. „Rapport annuel 2010 IEDOM Saint-Pierre-et-Miquelon“ (PDF). bls. 16. Afrit (PDF) af uppruna á 27. janúar 2012. Sótt 8. febrúar 2013.
  3. „St. Pierre et Miquelon“. Newfoundland and Labrador Heritage. Afrit af uppruna á 2. júní 2013. Sótt 8. febrúar 2013.
  4. 4,0 4,1 4,2 4,3 4,4 „Le recensement de la population à Saint-Pierre-et-Miquelon en 2006“. Insee. Afrit af uppruna á 5. nóvember 2012. Sótt 8. febrúar 2013.
  5. „Encyclopedia Britannica – St Pierre and Miquelon“. Afrit af uppruna á 15. desember 2019. Sótt 25. júlí 2019.
  6. 6,0 6,1 6,2 6,3 6,4 6,5 6,6 „Le recensement de la population à Saint-Pierre-et-Miquelon“ (PDF). INSEE. ágúst 2000. Afrit (PDF) af uppruna á 19. október 2012. Sótt 8. febrúar 2013.
  7. James Marsh. Saint-Pierre and Miquelon. Afrit af uppruna á 17. febrúar 2014. Sótt 8. febrúar 2013.
  8. „Law n ° 76-664 of July 19, 1976 relating to the organization of Saint-Pierre-et-Miquelon“. Official Journal of the French Republic. 20. júlí 1976. Sótt 25. október 2020.
  9. „Law n ° 85-595 of June 11, 1985 relating to the status of the archipelago of Saint-Pierre-et-Miquelon“. Sótt 25. október 2020.
  10. 10,0 10,1 10,2 „Saint-Pierre et Miquelon, Statut spécifique“. Sodepar. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. nóvember 2014. Sótt 8. febrúar 2013.
  11. 11,0 11,1 Snið:Britannica
  12. The French Atlantic: travels in culture and history, bls. 97, á Google Books Eftir Bill Marshall
  13. „St Pierre and Miquelon“. BBC News. 2. nóvember 2011. Afrit af uppruna á 2. desember 2012. Sótt 8. febrúar 2013.
  14. „La préfecture“. Portail internet des services de l'État. 7. desember 2008. Afrit af upprunalegu geymt þann 1. apríl 2012. Sótt 8. febrúar 2013.
  15. Linda Saci, "Christian Pouget nommé nouveau préfet de Saint-Pierre et Miquelon". TF1, 7. janúar, 2021.
  16. „French patrol ship Fulmar: Port visit to Rimouski and Québec“.
  17. „La Gendarmerie Nationale“. Portail internet des services de l'Etat. 24. febrúar 2011. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. apríl 2012. Sótt 8. febrúar 2013.
  18. Willsher, Kim (10. janúar 2022). „Protesters on French island pelt MP with seaweed over Covid pass“. TheGuardian.com.
  19. 19,0 19,1 Economie – L'Outre-Mer Geymt 22 maí 2012 í Wayback Machine
  20. Law, Bill (8. mars 2006). „French islands bid for oil-rich sea“. BBC News. Afrit af uppruna á 3. desember 2012. Sótt 8. febrúar 2013.
  21. 21,0 21,1 „Rapport annuel 2010 IEDOM Saint-Pierre-et-Miquelon“ (PDF). bls. 29. Afrit (PDF) af uppruna á 27. janúar 2012. Sótt 8. febrúar 2013.
  22. „Evaluation du PIB 2004 de Saint-Pierre-et-Miquelon – janvier 2007“ (PDF). bls. 32. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 9. febrúar 2013. Sótt 8. febrúar 2013.
  23. „Council decision of 31 December 1998 concerning the monetary arrangements in the French territorial communities of Saint-Pierre-et-Miquelon and Mayotte“. 31. desember 1998. Afrit af uppruna á 28. júlí 2009. Sótt 30. maí 2010.
  24. The rough guide to Canada, bls. 493, á Google Books By Tim Jepson, Phil Lee, Tania Smith, Emma Rose Rees, Christian Williams
  25. „Saint-Pierre-et-Miquelon“. IEDOM. Afrit af uppruna á 29. janúar 2013. Sótt 8. febrúar 2013.
  26. „St. Pierre et Miquelon“. Online Catalogue. Stanley Gibbons. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. febrúar 2008. Sótt 1. desember 2007.
  27. „Populations légales des collectivités d'outre-mer en 2016“ (franska). INSEE. Afrit af uppruna á 27. nóvember 2019. Sótt 30. ágúst 2019.
  28. „Populations légales en vigueur à compter du 1er janvier 2019 – Saint-Pierre-et-Miquelon“ (PDF). INSEE (franska). Ríkisstjórn Frakklands. Afrit (PDF) af uppruna á 4. september 2019. Sótt 30. ágúst 2019.
  29. 'Zazpiak Bat' Basque Club“ (franska). Afrit af uppruna á 11. maí 2010. Sótt 28. júní 2010.
  30. „Saint-Pierre-et-Miquelon“. 2011, Année des Outre-mer. 28. janúar 2011. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. september 2012. Sótt 8. febrúar 2013.
  31. „Sport de glace : l'équipage du Fulmar lance le « OK Fulmar »“. colsbleus.fr (franska). 14. apríl 2014. Afrit af upprunalegu geymt þann 19. apríl 2014.
  32. Emile SASCO. „Historique des Rues de Saint-Pierre“. Encyclopédie des îles Saint-Pierre & Miquelon (franska). Miquelon Conseil. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. maí 2011.
  33. 33,0 33,1 Publications, Usa International Business (febrúar 2002). St. Pierre & Miquelon. Int'l Business Publications. ISBN 978-0-7397-4438-3.[óvirkur tengill]

Tenglar

breyta
   Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.
  NODES
COMMUNITY 1
INTERN 3