Spagettívestri er undirtegund vestrans sem kom fram um miðjan 7. áratug 20. aldar. Vestrar af þessari gerð voru fyrst framleiddir af ítölskum kvikmyndaverum fyrir lítið fé, og því voru þeir kenndir við það sem Ítalir voru frægastir fyrir, spagettíið. Vestrar þessir voru einnig með öðru sniði en þeir bandarísku. Þeir umbreyttu t.d. mörgum af vestraklisjum þess tíma og hefðum sem ríkt höfðu í vestrum fram að því. Spagettívestrinn tefldi fram knöppu myndmáli, einfaldri frásögn sem byggðist gjarnan á klassískum sagnaminnum, og lítt fegruðu ofbeldi. Margar þessara mynda voru teknar upp á Sardiníu og Almería í Andalúsíu á Spáni.

Clint Eastwood í hlutverki sínu í kvikmynd Sergio Leones, Hnefafylli af dollurum, frá 1964.

Þekktustu spagettívestrarnir eru kvikmyndir Sergio Leones með Clint Eastwood og Charles Bronson í aðalhlutverkum. Meðal þekktustu spagettívestranna má nefna Hnefafylli af dollurum (Per un pugno di dollari - 1964), Hefnd fyrir dollara (Per qualche dollaro in più - 1965), Django (1966), Einn var góður, annar illur, þriðji grimmur (Il buono, il brutto, il cattivo - 1966) Blóðhefnd (L'uomo, l'orgoglio, la vendetta - 1967), La vendetta è un piatto che si serve freddo (1971) og Blóðdrifnir bófar (Diamante Lobo - 1976). Flestar þessara mynda voru framleiddar í samstarfi milli landa eins og Ítalíu, Spánar, Frakklands, Þýskalands, Ísraels og Bandaríkjanna. Yfir 600 vestrar voru framleiddir í Evrópu frá 1960 til 1978.

  NODES