Suðurey (Nýja-Sjáland)
Suðurey (enska: South Island, maóríska: Te Waipounamu) er sú stærri af tveim aðaleyjum Nýja-Sjálands. Eyjan er 150.437 ferkílómetrar að stærð og eru íbúar tæp 1,1 milljón (2016) eða 23% af íbúum landsins. Það eru 23 sveitarfélög á Suðurey og stærstu borgirnar eru Christchurch, Dunedin, Nelson og Invercargill.
Söguágrip
breytaTeikningar gerðar með kolum hafa fundist í hellum á eyjunni og teljast þær allt að 800 ára gamlar. Árið 1642 kom hollenski könnuðurinn Abel Tasman til norðurenda eyjarinnar en fyrsta búseta evrópubúa var árið 1823 þegar James Spencer settist þar að. Ýmsir hópar Maóra börðust innbyrðis um áhrif á eyjunni. Árið 1840 ákvað Bretland að innlima Nýja Sjáland í heimsveldi sitt en átök þeirra við frumbyggja voru minni en á Norðurey. Suðurey hafði meiri mannfjölda á 19. öld þegar gullæði gekk þar í garð en snemma á 20. öld varð Norðurey fjölmennari. Árið 2011 varð jarðskjálfti nálægt Christchurch og létust 181 manns.
Landafræði og náttúrufar
breytaSuðureyjan er 12. stærsta eyja heims. Suðuralparnir liggja um mestalla eyjuna og er Mount Cook/Aoraki hæsta fjallið; 3754 metrar. Átján tindar eru hærri en 3000 metrar og eru þar jöklar eins og Fox-jökull og Franz Josef-jökull. Mörg stöðuvötn eru eftir jökla sem hafa hörfað. Austurströnd eyjunnar er flatlendari með Cantebury-slétturnar en vestri ströndin er fjallenda. Þrjár stórar stíflur eru í Waitaki-fljóti og er nær allt rafmagn framleitt með vatnafli og er restin framleidd með vindorku.
Fiordland-þjóðgarðurinn, Abel Tasman-þjóðgarðurinn, Westland-þjóðgarðurinn, Mount Cook-þjóðgarðurinn, Queenstown, Kaikoura og Marlborough Sounds eru fjölsóttir staðir. Ferðaþjónusta er uppspretta mikilla tekna á Suðureynni. Ævintýraferðamennska eins og jöklaklifur og teygjustökk eru vinsæl afþreying.
Meðal sérstakra tegunda fugla á eyjunni eru kíví-fuglar, kaka, kea og hinn sjaldgæfi kakapó. Margar fuglategundir á eyjunni eru útdauðar vegna manns og dýra eins og katta og rotta.
-
Aoraki/Mount Cook.
-
Kea er landlæg páfagaukategund á Suðurey.
-
Teygjustökk frá Queenstown.
-
Stífla í Waitaki-fljóti.
-
Milford Sound.
Heimild
breytaFyrirmynd greinarinnar var „South Island“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 19. feb. 2017.