Talídómíð, selt undir nöfnum eins og Conterga, Thalomid og fleiri er lyf sem notað er við meðhöndlun nokkurra gerða krabbameina, við höfnun í tengslum við beinmergsskipti og stofnfrumumeðferð og við ýmsa húðsjúkdóma þar á meðal aukaverkanir vegna holdsveiki. Það er einnig stundum notað við meðhöndlun HIV á síðari stigum. Lyfið er inntökulyf. Lyfið getur valdið fósturskaða. Talídómíð var fyrst sett á markað árið 1957 í Vestur-Þýskalandi og var þá selt án lyfseðils. Það var markaðssett sem kvíðastillandi og róandi lyf, gott við svefntruflunum og morgunógleði. Það var í fyrstu talið skaðlaust til inntöku á meðgöngu en annað kom í ljós. Lyfið var skaðlegt fyrir fóstur og er talið að yfir 10.000 ungbörn hafi orðið fyrir fósturskaða af völdum talídómíðs og af þeim hafi stór hluti dáið á fyrsta ári. Þau börn sem lifðu urðu fyrir skaða í útlimum, augum, þvagfærakerfi og hjarta. Lyfið var tekið af markaði í Evrópu árið 1961. Fósturskaðar af völdum talídómíð urðu til þess að lyfjaeftirlit var hert í mörgum ríkjum.

Efnafræðileg uppbygging talídómíðs

Talídómíð var samþykkt sem krabbameinslyf í Bandaríkjunum árið 1998. Það er á lista WHO yfir mikilvæg lyf.

Fósturskaði á útlimum barns af völdum talídómíds

Þýskur barnalæknir Widukind Lenz rannsakaði fósturskemmdir af völdum talídómíðs og benti árið 1962 á að talídómíð gæti valdið fósturskemmdum ef konur tækju lyfið á 4.-8. viku meðgöngu og birti seinna ítarlegri rannsóknir um helstu einkenni um fósturskaða af völdum talídómíðs. Þekktustu einkenni talídómíðbarna eru handleggir eða fótleggir sem eru vanmótaðir (selshreyfar), Talið er að milli 8000 og 12000 börn sem urðu fyrir fósturskaða af völdum talídómíð hafi komist af barnsaldri. Það hefur komið í ljós í rannsóknum að talídómíð snemma á meðgöngu tengist einnig uppkomu einhverfu.[1]

Árið 1964 kom í ljós að talídómíð hafði áhrif á húðhnútabólgu í holdsveiki og skömmu seinna var bent á virkni þess á ýmsa illvíga sjúkdóma m.a. bólgusjúkdóma eins og svæðisþarmabólgu (Chrohmsjúkdóm) og sem lyf við mergæxli (multible myeloma). Talídómíð sem áður var lyf hörmunga og fósturskaða er þannig mörgum áratugum seinna stundum lyf sem hjálpar sárþjáðum og langt leiddum sjúklingum. [2]


Tilvísanir

breyta
  NODES
Done 1