Theresa May

Forsætisráðherra Bretlands

Theresa Mary May (f. 1. október 1956) er fyrrum forsætisráðherra Bretlands og þingmaður í kjördæminu Maidenhead. Þann 11. júlí 2016 varð hún leiðtogi Íhaldsflokksins en hún leysti David Cameron af hólmi sem forsætisráðherra þann 13. júlí 2016. Hún er annar kvenmaðurinn sem gengur í embættið, á eftir Margréti Thatcher.

Theresa May
Forsætisráðherra Bretlands
Í embætti
13. júlí 2016 – 24. júlí 2019
ÞjóðhöfðingiElísabet 2.
ForveriDavid Cameron
EftirmaðurBoris Johnson
Persónulegar upplýsingar
Fædd1. október 1956 (1956-10-01) (68 ára)
Eastbourne, Sussex, Englandi
ÞjóðerniBreti
StjórnmálaflokkurÍhaldsflokkurinn
MakiPhilip May (g. 1980)
TrúarbrögðEnska biskupakirkjan
HáskóliOxford háskóli
AtvinnaStjórnmálamaður
Undirskrift

Æviágrip

breyta

May fæddist í Eastbourne í Sussex og lærði landafræði við Oxford-háskóla. Árin 1977 til 1983 starfaði hún í Englandsbanka. Árin 1992 og 1994 bauð hún sig fram til þingmanns en náði ekki sæti í Breska þinginu. Árið 1997 sigraði hún í kjördæminu Maidenhead. Hún varð síðan stjórnarmaður Íhaldsflokksins og gerðist meðlimur í Leyndarráðinu (e. Privy Council) árið 2002. Árið 2010 var May tilnefnd til embættis innanríkisráðherra og jafnréttisráðherra, en hún hætti sem jafnréttisráðherra árið 2012.

May var kjörinn formaður Íhaldsflokksins eftir að David Cameron sagði af sér árið 2016. Cameron neyddist til að segja af sér eftir að Bretar kusu í þjóðaratkvæðagreiðslusegja upp aðild að Evrópusambandinu. Cameron hafði kallað til þjóðaratkvæðagreiðslunnar til að friðþægja ESB-andstæðinga í röðum Íhaldsmanna en hafði ekki sjálfur stutt útgöngu úr Evrópusambandinu. May hafði einnig stutt áframhaldandi veru Bretlands í Evrópusambandinu en hafði lítið látið á sér bera í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar og var því óumdeildari en flestir keppinautar hennar um formannsembættið.

Forsætisráðherratíð May einkenndist aðallega af samningaviðræðum Bretlands við Evrópusambandið um skilmála útgöngu Bretlands úr ESB. Til þess að freista þess að styrkja samningsstöðu sína gagnvart ESB kallaði May til þingkosninga þann 8. júní árið 2017. May hafði áður útilokað að kosningar yrðu haldnar fyrir lok kjörtímabilsins. Þessi viðsnúningur hennar reyndist henni dýrkeyptur því að í kosningunum tapaði Íhaldsflokkurinn þrettán þingsætum og glataði þar með naumum meirihluta sínum á breska þinginu í stað þess að auka við hann. May neyddist til þess að mynda minnihlutastjórn með stuðningi Lýðræðislega sambandsflokksins (enska: Democratic Unionist Party eða DUP) til þess að halda í völdin.[1]

Samningsstaða May versnaði til muna eftir kosningarnar. Miklar innanflokksdeilur urðu um samningaviðræður hennar við ESB og Evrópuandstæðingar innan flokksins sökuðu hana gjarnan um að gefa of mikið eftir til að tryggja að Bretland hefði áfram aðgang að innri markaði Evrópusambandsins og til að koma í veg fyrir að landamæraeftirlit verði að hefjast milli Norður-Írlands og írska lýðveldisins. Andófsmenn innan Íhaldsflokksins lögðu fram vantrauststillögu gegn May eftir að hún fékk samþykki ríkisstjórnar sinnar fyrir samningsdrögum við ESB í nóvember árið 2018.[2] Íhaldsflokkurinn greiddi atkvæði um vantrauststillöguna 12. desember 2018 en um tveir þriðju Íhaldsmanna studdu áframhaldandi formennsku May.[3]

Þann 24. maí árið 2019 lýsti May því yfir að hún hygðist segja af sér sem leiðtogi Íhaldsflokksins þann 7. júní næstkomandi. Þá höfðu breskir þingmenn þrisvar hafnað samningum hennar við Evrópusambandið um útgönguskilmála.[4] Stjórnartíð May lauk formlega þann 24. júlí árið 2019, eftir að Boris Johnson hafði verið kjörinn nýr formaður Íhaldsflokksins. Johnson tók við embætti forsætisráðherra sama dag.[5]

Tilvísanir

breyta
  1. „Minnihlutastjórn Íhaldsflokksins í höfn“. RÚV. 10. júní 2017. Sótt 15. nóvember 2018.
  2. „Íhalds­menn leggja fram van­traust á May“. mbl.is. 10. júní 2018. Sótt 15. nóvember 2018.
  3. „Fordæmalaus staða í breskum stjórnmálum“. RÚV. 12. desember 2018. Sótt 12. desember 2018.
  4. „May ætlar að hætta 7. júní“. Vísir. 24. maí 2019. Sótt 24. maí 2019.
  5. „Óskaði Bor­is John­son velfarnaðar“. mbl.is. 24. júlí 2019. Sótt 24. júlí 2019.


Fyrirrennari:
David Cameron
Forsætisráðherra Bretlands
(13. júlí 201624. júlí 2019)
Eftirmaður:
Boris Johnson


   Þessi stjórnmálagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.
  NODES
languages 1
os 6