Wikipedia:Algengar spurningar

Algengar spurningar

Hér reynum við að svara helstu spurningum sem upp koma um Wikipediu.

Fyrir þá sem hafa áhuga á því að gerast höfundar fyrir Wikipediu þá bendum við á kynninguna og námskeiðið. Sjá einnig efnisyfirlit hjálparinnar varðandi notkun og virka þátttöku í Wikipediu.

Hvað er Wiki?

Wiki er safn samhangandi vefsíðna sem allir geta skoðað og allir geta breytt (með fáum undantekningum). Þú getur til dæmis smellt á „breyta“ efst á þessari síðu til að opna breytingaglugga þessarar síðu.

Hvert er markmið Wikipediu?

Þetta alfræðirit er byggt upp með samvinnu sjálfboðaliða sem lúta nánast engri miðstýringu og því kann það að hljóma undarlega að tala um eitthvert sérstakt markmið, en flest okkar deila þó ákveðinni hugsjón um Wikipediu:
Markmið okkar með Wikipediu er að búa til frjálst alfræðirit. Stærsta alfræðirit sögunnar hvort sem litið er á breidd umfjöllunarinnar eða dýpt hennar. Við viljum að Wikipedia verði þekkingarbrunnur sem hægt er að stóla á.

Hvenær hófst starfsemi Wikipediu?

15. janúar 2001. Nupedia var alfræðivefur sem þá var starfandi en hefur nú lagst af. Hugmyndin að því að stofna wikivef til hliðar við Nupediu varð til í samtali Larry Sanger og Ben Kovitz þann 2. janúar það ár. Stofndagur íslensku Wikipediu er 5. desember 2003 og miðast við fyrstu greinina sem sett var á vefinn á íslensku.

Hver á Wikipediu?

Wikimedia-stofnunin rekur Wikipediu og á vefþjónana og lénið. Hún er bandarísk stofnun sem ekki rekin í ágóðaskyni.
Efnisinnihald vefsins er hins vegar eign höfundanna sem samþykkt hafa að láta frjálsa afnotaleyfið Creative Commons Tilvísun-Deila eins (CC-BY-SA) gilda um framlög sín. Sjá nánar um höfundarétt.

Hver skrifaði síðurnar á Wikipediu?

Notendurnir. Verkefnið er samvinnuverk fjölmargra notenda sem hafa lagt hönd á plóg, sumir með tugum þúsunda breytinga en aðrir með einni. Allir geta tekið þátt. Líka þú! Þú færð leiðbeiningar um hvernig á að breyta síðum í námskeiðinu.
Hægt er að finna út úr því hver ber ábyrgð á síðustu útgáfu síðunnar með því að smella á „breytingaskrána“ efst á síðunni. Hafðu í huga að ef þú rekst á villu í grein og gerir ekkert til þess að bæta úr því þá berð þú einnig vissa ábyrgð á henni. Sýndu dirfsku og frumkvæði og breyttu síðunni!

Hvernig get ég orðið að liði?

Skoðaðu „að skrifa betri greinar“ til þess að fá leiðbeiningar um góð skrif. Við þurfum líka alltaf fleiri vinnufúsar hendur til að sinna viðhaldinu.

Hvernig hef ég samskipti við aðra notendur?

Miðlæg spjallsíða íslensku Wikipediu er „potturinn“ þar sem fram fer almenn umræða. Einnig er póstlisti á wikiis-l@lists.wikimedia.org (skráning) og spjallrásin #wikipedia-is tengjast.

Fallbeygist „Wikipedia“?

Ekki hefur myndast hefð fyrir alíslensku nýyrði yfir Wikipediu og verður varla úr þessu. Það er hins vegar algengt og eðlilegt að aðlaga erlend sérnöfn að beygingarkerfi íslenskunnar og í framkvæmd tekur Wikipedia eignarfallsendinguna -u.

Hvað merkir orðið „Wikipedia“?

Það er sett saman úr tveimur orðum. „Wiki“ er komið úr havaísku og þýðir snöggur og „-pedia“ er seinni liður encyclopedia úr ensku.

Það eru til ótal útfærslur af wikivefjum. Hvaða vefhugbúnað notar Wikipedia?

Í upphafi notaði Wikipedia UseModWiki en skipti fljótlega yfir í MediaWiki sem er sérstaklega þróaður hugbúnaður fyrir Wikimedia en nýtur nú einnig talsverðra vinsælda á sjálfstæðum wikivefjum.

Get ég gert athugasemdir við eisntök uppflettiorð?

Það er sjálfsagt og velkomið, en þú þarft þá að setja slíkar athugasemdir á spjallsíðu viðkomandi greinar frekar en í greinina sjálfa.

Hvernig eyði ég notandanafni mínu?

Það er ekki mögulegt að eyða notendum alfarið. Við getum eytt notandasíðunni þinni ef þú biður um það en það er ekki hægt að fjarlægja allar vísbendingar um breytingar þínar úr breytingasögum greina. Þú ert alltaf velkomin(n) aftur og ef þú vilt nýtt notandanafn þá getur þú beðið Ráðsmann um að breyta því.

Get ég eytt spjallsíðunni minni?

Almennt eyðum við ekki spjallsíðum. Umræður sem fara fram á spjallsíðum snerta gjarnan fleiri atriði en endilega það sem um er rætt í það skiptið og því gott ef hægt er að fletta upp í gömlum umræðum. Þú getur hins vegar sett gamalt efni af spjallsíðunni þinni í skjalasafn.
  NODES
Note 4